Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Síða 163
Kolbeinn Stefánsson
163 ..
samsöfnun innflytjenda í ákveðin hverfi getur haft áhrif á bæði gæði menntunar barna þeirra sem og
þau félagslegu tengslanet sem verða til í skólunum. Bæði geta haft áhrif á framtíðarmöguleika barna
innflytjenda. Rannsóknarspurningin sem er leitast við að svara í þessari grein er eftirfarandi: Hvort
falla búsetumynstur pólskra innflytjenda í Reykjavík best að kenningum um almenna, sértæka eða
lagskipta aðlögun? Nánar verður fjallað um þessar kenningar í næsta kafla þessarar greinar.
Það sem kemur hér á eftir er sem hér segir. Í næsta kafla verður farið yfir kenningar um búsetu-
mynstur og rannsóknir á pólskum innflytjendum á Íslandi. Þar á eftir verður fjallað um gögnin sem
rannsóknin byggir á og þær aðferðir sem eru notaðar til að greina þær en þó einkum svokallaða
ólíkindavísitölu (e. dissimilarity index) sem verður notuð til að bera saman búsetumynstur pólskra
innflytjenda og innfæddra. Í kjölfar þess verða birtar niðurstöður greininga og að lokum verða niður-
stöðurnar dregnar saman og þær ræddar. Þessi grein er hluti af rannsóknarverkefninu Félagslegt
landslag í Reykjavík sem er styrkt af hluta af Reykjavíkurborg.
Fræðilegt samhengi
Kenningar
Rannsóknir á búsetumynstrum ólíkra þjóðfélagshópa eiga rætur sínar í rannsóknum á aðskilinni bú-
seta svartra og hvítra í stórborgum Bandaríkjanna (sjá til dæmis Du Bois 1899; Duncan og Duncan
1955; Massey og Denton 1993; Park og Burgess 1925; Wilson 1987). Það er þó ekki hægt að heim-
færa kenningar og niðurstöður rannsókna þess viðfangsefnis á búsetumynstur innflytjenda þar sem
samhengið er gerólíkt. Stærstur hluti svartra Bandaríkjamanna eru afkomendur þræla sem voru flutt-
ir nauðflutningum til Bandaríkjanna á meðan stærstur hluti seinni tíma innflytjenda á Vesturlöndum
hafa valið að flytja þangað. Það á við um pólska innflytjendur á Íslandi. Þá er ekki endilega hægt að
heimfæra niðurstöður rannsókna á stöðu innflytjenda á milli landa þar sem munur á stofnunum og
menningu landa hefur allnokkur áhrif þar á sem og samsetning innflytjendahópsins.
Hvað varðar samsetningu innflytjendahópsins er fjöldi þátta sem skiptir máli svo sem húðlitur,
menningarleg fjarlægð, efnahagsástand í upprunalandinu, tungumálafærni (Heath og Cheung, 2007)
og úr hvaða lögum upprunasamfélagsins innflytjendur koma (Engzell, 2019; Engzell og Ichou,
2019). Þannig hefur til dæmis börnum sumra innflytjendahópa í Bretlandi og Svíþjóð vegnað mjög
vel í námi og síðar á vinnumarkaði á meðan innflytjendur frá öðrum löndum eiga erfitt uppdráttar
(Engzell, 2019; Jackson, Jonsson og Rudolpji, 2011; Jonsson, 2007). Það er hins vegar ekki ljóst
hvað slíkar niðurstöður segja okkur um afdrif pólskra innflytjenda á Íslandi. Jafnvel þegar um er að
ræða innflytjendur frá sama landi er ekki hægt að heimfæra niðurstöður á milli landa, bæði vegna
áðurnefnds munar á menningu og stofnunum en einnig vegna þess að fólk sem flytur frá sama landi
en til mismunandi áfangastaða koma ekki endilega frá sömu svæðum eða úr sömu lögum heima-
landsins.
Í grunninn eru þrjú kenningaleg sjónarhorn um hvernig búsetumynstur innflytjenda þróast yfir
tíma, það er 1) almenn aðlögun (e. assimilation), sértæk aðlögum (e. selective assimilation) og lag-
skipt aðlögun (e. segmented assimilation).
Samkvæmt kenningum um almenna aðlögun hafa innflytjendur takmarkaðar bjargir þegar þeir
setjast að í nýju landi. Fyrir vikið taka þeir upp búsetu á svæðum þar sem húsnæði er ódýrara. Það
þýðir að innflytjendur setjast fyrst að í hverfum þar sem aðrir íbúar eru almennt fátækari. Í fyllingu
tímans skjóta þeir rótum í samfélaginu, hagur þeirra vænkast og þekking þeirra á samfélaginu eykst.
Innflytjendurnir nýta þessar bjargir til að flytja sig um set og setjast nú að í efnameiri hverfum þar
sem hærra hlutfall íbúa eru innfæddir (Alba og Nee, 2003). Það styrkir svo aftur tengsl þeirra við
samfélagið sem ýtir undir að staða þeirra styrkist.
Hluti af þessari þróun felst í aukinni samsömun innflytjenda við þjóðfélagið sem þeir fluttu til.
Það þýðir meðal annars að því lengur sem innflytjendur hafa búið í landinu, því fleiri minningar eiga
þeir sameiginlegar með innfæddum auk þess sem innflytjendur taka upp sífellt meira af lífsháttum
innfæddra, svo sem siðum, venjum og gildum (Telles og Ortis, 2009). Með aukinni aðlögun innflytj-