Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Blaðsíða 165
Kolbeinn Stefánsson
165 ..
opnaðist Ísland fyrir ríkisborgurum þeirra tíu ríkja sem fengu aðild að Evrópusambandinu árið 2004.
Pólland var þeirra á meðal. Á þessum tíma voru einnig stórtækar virkjanaframkvæmdir á Austur-
landi vegna Kárahnjúkavirkjunar. Samkvæmt Hagstofu Íslands (e.d.c.) voru 2.167 íbúar Íslands árið
2005 fæddir í Póllandi en árið 2009 voru þeir orðnir 11.611. Árið 2006 voru Pólverjar orðnir stærsti
innflytjendahópurinn á Íslandi. Á milli 2009 og 2012 fækkaði svo íbúum landsins sem voru fæddir
í Póllandi vegna afleiðinga hrunsins. Síðan þá hefur pólskum innflytjendum fjölgað á Íslandi þó það
hafi hægt á fjölguninni frá 2020 vegna Covid-19 faraldursins.
Í kjölfar opnunarinnar árið 2006 breyttist samsetning pólskra innflytjenda. Í fyrsta lagi fjölgaði
svæðunum í Póllandi sem fólk flutti frá en á sama tíma tók höfuðborgarsvæðið fram úr landsbyggð-
unum hvað varðar fjölda pólskra innflytjenda. Að sama skapi fjölgaði þeim atvinnugreinum sem
pólskir innflytjendur störfuðu í, þó það séu vísbendingar um að pólskir innflytjendur sé að stóru leyti
bundnir við lágtekjustörfum og séu í veikri stöðu á íslenskum vinnumarkaði (sjá til dæmis Napierala
og Wojtynska, 2016 og Wojtynska og Skaptadóttir, 2021). Þrátt fyrir þessar breytingar einkennist
flutningur Pólverja enn að nokkru leyti af keðjum þar sem pólskir innflytjendur á Íslandi freista
þess að fá vini og ættingja til landsins (Tworek, 2011). Þetta hefur nokkur áhrif á húsnæðisleit, en í
skýrslu Hallfríðar Þórarinsdóttur og Önnu Wojtynska (2015) kemur meðal annars fram að umtals-
verður hluti pólskra innflytjenda er í leiguhúsnæði og fann húsnæði sitt með aðstoð vina eða ættingja
eða spurðist fyrir (nýtti tengslanet sitt). Staðan á leigumarkaði þýðir að pólskir innflytjendur flytja
oft og skýrslan bendir til þess að húsnæðiskostnaður þrengi mjög kosti þeirra á húsnæðismarkaði. Í
sömu skýrslu má einnig sjá að hópurinn er í yngri kantinum og hátt hlutfall er með iðn-, tækni- eða
starfsmenntun.
Af ofangreindum kenningum og fyrirliggjandi rannsóknum á pólskum innflytjendum á Íslandi
má leiða eftirfarandi tilgátur:
Eftirfarandi tilgátur leiða af almennum aðlögunarkenningum:
T1: Í ljósi þeirra starfa sem pólskir innflytjendur sinna á íslenskum vinnumarkaði
má ætla að þeir komi með takmarkaðar bjargir og safnist fyrir vikið saman í
tekjulægri hverfum.
T2: Samsöfnunin er tímabundið ástand, með tímanum dregur úr aðskilinn búsetu
pólskra innflytjenda.
T3: Því lengur sem pólskir innflytjendur hafa búið á Íslandi og því hærri sem tekjur
þeirra eru, því líklegri eru þeir til að búa í hverfum með lágt hlutfall pólskra inn-
flytjenda.
Eftirfarandi tilgátur leiða af kenningum um lagskipta aðlögun:
T1: Í ljósi þess að pólskir innflytjendur hafa tilhneigingu til að sinna verr launuðum
störfum á íslenskum vinnumarkaði safnast þeir saman í tekjulægri hverfum.
T4: Að því leiti sem þeir eru fastir í lágtekjustörfum á íslenskum vinnumarkaði má
ætla að búseta þeirra í lágtekjuhverfum sé langvarandi.
Eftirfarandi tilgátur leiða af kenningum um sértæka aðlögun:
T1: Í ljósi þeirra starfa sem pólskir innflytjendur sinna á íslenskum vinnumarkaði
má ætla að þeir komi með takmarkaðar bjargir og safnist fyrir vikið saman í
tekjulægri hverfum.
T5: Pólskir innflytjendur sem hafa hærri tekjur og/eða hafa búið lengur á landinu
kjósa frekar að búa í hverfum þar sem er hátt hlutfall pólskra innflytjenda til
að varðveita menningararfs síns og viðhalda félagslegum tengslum. Fyrir vikið
dregur ekki úr samsöfnun pólskra innflytjenda og aðskilin búsetumynstur þeirra
og fólks með íslenskan bakgrunn er fyrir vikið viðvarandi.