Eimreiðin - 01.09.1912, Blaðsíða 77
233
Myndir úr einokunarsögunni.
Eftir JÓN SIGURÐSSON, forseta.
Þar eð ekki er unt hér að rekja alla ena fyrri verzlunarsögu ís-
lands, mun ég aðeins drepa á nokkur atriði, til að sýna, hversu frá-
bær endurbót kemur fram í lagaboðum þessum, sem nú vóru talin
(o: verzlunartilskip. frá 1786 og 1787), frá því sem áður hefir verið;
tek ég aðeins nokkur dæmi, einkum frá aldamótum 17. og 18. aldar,
ekki fyrir því, að áþekk dæmi finnist ekki endranær, heldur fyrir
því, að þá var harðýðgin gjörð að grundvallarreglu, og en æðstu yfir-
völd fylgdu harðýðginni fram af alefli.
Árið 1679 var Páll Torfason, sýslumaður í ísafjarðarsýslu, dæmd-
ur til að hafa fyrirgjört embætti og aleigu, fyrir það hann hafði keypt
fáein færi af enskum fiskimönnum fyrir nokkra sokka og vetlinga, áð-
ur en skip komu, svo fiskibátar sínir stæði ekki uppi um mesta bjarg-
ræðistíma. Konungur linaði dóm þennan á þann hátt, að hann skyldi
gjalda þá sekt, sem hann gæti mesta, eftir amtmannsúrskurði, til bygg-
ingar Bessastaðakirkju; en ekki er Páll síðan í sýslumanna tölu fyr
en 1696.
1699 fékk Knútur Stormur, kaupmaður í Hafnarfirði, dóm yfir
Hólmfasti Guðmundssyni, hjáleigumanni á Brunnastöðum, fyrir það
hann hafði selt í Keflavík fyrir hönd annars manns 20 fiska, og 10
ýsur og 3 löngur fyrir sjálfan sig, og hafði þó Hafnarfjarðar-kaup-
maður kastað fiskum þessum og ekki viljað taka. Hólmfasti var dæmt
að gjalda 10 dali og 4 mörk að spesíu-reikningi, en fyrir því hann
var öreigi og átti ekki hvað gjalda skyldi, þá lét Miifler amtmaður
binda hann við staur að sér ásjáanda og flengja hann 16 vandarhögg-
um, og skaut til æðra úrskurðar, hvort hann skyldi losast við þrælkun
á Brimarahólmi.
Ár 1700 fengu kaupmenn á Stapa Tómas nokkurn Konráðsson
dæmdan til að missa aleigu sína og þrælka á Brimarahólmi, fyrir það
hann hafði selt nokkra fiska að Búðum, sem hann hafði aflað úti á
Snæfellsnesi, í Dritvík, þar sem Stapakaupmenn áttu verzlun.
Sama ár (1700J vóru 3 menn úr ísafirði dæmdir til aleigumissis
og þrælkunar á Brimarahólmi, fyrir það þeir höfðu keypt 2 álnir af
kersu-klæði á enskri duggu.
Því verður ekki neitað, að Danir vóru fremstir í flokki um þessa
harðýðgi og marga aðra, en því er miður, að menn verða einnig að
játa það, að sumir á meðal íslendinga, og það í heldri röð, fylgdu
þeim fúsliga, sér til ævarandi smánar; og sá, sem manndómligast tók
svari íslendinga, var ekki íslenzkur maður, heldur danskur að kyni og
uppruna, Lárus lögmaður Gottrúp.
(Ný Félagsrit III, 13—14).