Eimreiðin - 01.05.1914, Page 54
130
sér fyrir hendur fyrst um sinn. Svo það var ekki annað að gera,
en nauðugur viljugur að halda í bæinn.
Á leiðinni inn í baðstofuna leit hann inn í fjósið. Kolan
hékk þar ekki lengur, svo konan hlaut að hafa sótt hana, meðati
hann var úti við. Svo læddist hann inn göngin. Og neðan við
uppgönguna nam hann staðar og hlustaði.
Og hann heyrði, það sem hann kveið — grátinn í börnunum.
tJau voru vöknuð, bæði drengurinn og stúlkan, og grátandi báðu
þau bæði mömmu sína um að gefa sér eitthvað að borða, —
hrópuðu, eins og þau voru vön, á mat, mat, mat . . .
Og þarna, neðan við uppgönguna, stóð Stóri-Jón, sem var
bæði hár og þrekvaxinn, titrandi á beinunum, en — ráðalaus.
Hann tárfeldi ekki, en grét í hjarta sínu eins og barn. Og hann
fann ekki til sultar sjálfs síns. Eða þá sultur hans sameinaðist
svo náið sorg hans, að hann þekti þau ekki að. Hann heyrði, að
konan hans var að reyna að hugga börnin og þagga niður í þeim.
— þegar kýrin er búin með gjöfina, — heyrði hann hana
segja, — og búið er að brynna henni, skal ég fara fram og
mjólka. Verið þið nú góð börn á meðan.
En rödd hennar var sorgmædd, því hvað hrökk sopinn úr
kúnni!
það var eins og örvæntingin alt í einu yfirbugaði Stóra-Jón.
Honum varð dimt fyrir augum, og fanst ætla að svífa að sér.
Hann reikaði eins og drukkinn maður fram í bæjardyrnar, tók
strigaströngul, með einhverju hörðu í, undan einni sperrunni, og
kom fyrst til sjálfs sín aftur, við að hann stóð og reyndi eggina
í skurðarhnífnum sínum, sem hann geymdi í strigaumbúðum, til
þess að verja hann ryði. þegar hann áttaði sig á hugsunum sín-
um, sló að honum vanmegni, svo að hann varð að styðja sig upp
að veggnum, til þess að detta ekki um koll. Og hann lét aftur
augun og tautaði hvað eftir annað:
— Guð hjálpi mér, guð hjálpi mér, guð hjálpi mér — — —
Svo stakk hann hnífnum upp undir sperruna aftur og gekk
inn. Börnin þögnuðu, undir eins og hann opnaði hlerann. Konan
leit sem snöggvast framan í hann. Hún hafði stór brún augu, en
andlitið var fölt og hungurtært. Augu þeirra mættust. Hann leit
undan og settist þegjandi niður á bríkina á rúmi, sem stóð autt.
þau sátu lengi og yrtust ekki á. Dagurinn smá-lýsti rúðurnar í
glugganum, sem voru hvítar af hélu. Konan sat og prjónaði.