Morgunblaðið - 06.12.2003, Page 37

Morgunblaðið - 06.12.2003, Page 37
LISTIR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. DESEMBER 2003 37 EIGINLEGA ætlast maður alls ekki til að afmælissýningar séu frá- bærar. Það er vissulega betra að þær séu ekki algjör stórslys, en þær ná algerlega tilgangi sínum þótt af- mælisbarnið geri ekki annað en sýna að það er enn í fullu fjöri, gefi smá- sýnishorn af því hvers vegna er yf- irhöfuð ástæða til að fagna tímamót- unum. Síst af öllu gera áhorfendur ráð fyrir að í afmælissýningum sé tekin listræn áhætta. Að sumu leyti er það verra – hvað ef allt mislukk- ast? Hvaða gagnrýnanda langar til að segja afmælisbarni til syndanna? Afmælissýning Arnars Jónssonar var því fyrirfram talsvert áhyggju- efni. Nýtt leikrit, lítt reyndur leik- stjóri og persóna sem hljómaði ekki í kynningum eins og hún væri á heimavelli Arnars. En þeim mun meiri sigur, því Sveinsstykki er verulega áhrifamikil sýning – magn- aður flutningur á frábæru leikriti. Fyrstu kynni mín af Arnari Jóns- syni sem leikara voru andvökunæt- urnar sem ég upplifði eftir að hafa séð hann sem Þorleif Kortsson í Skollaleik. Á sviði sá ég hann ekki fyrr en löngu síðar og í millitíðinni í Útlaganum, frammistaða sem mig grunar að sé vanmetin vegna þess hve látlaus kvikmyndin er í saman- burði við skrautlegri túlkanir ann- arra leikstjóra á söguöldinni. Af ljós- myndum og lýsingum að dæma hefur hann verið aldeilis magnaður ungur leikari, orkuþrunginn, fimur svo af bar og áreiðanlega þá þegar með þá sterku nærveru sem allir leikhúsgestir skynja. Þegar Arnar er á sviðinu þá horfir þú á hann. Samt sem áður er eitthvað við Arnar sem vekur fremur aðdáun en hrífur mann. Upphafin og dálítið há- tíðleg raddbeitingin, hlutverkin sem hann velst í. Þegar ég las útlistanir Þorvaldar Þorsteinssonar á efni og persónu Sveinsstykkis óttaðist ég að þarna hefði hann lagt einn illyrm- islegan Snóker fyrir stórleikarann – skrifað persónu fyrir utan svið Arn- ars Jónssonar. Kannski er það til- fellið. Og kannski sækir sýningin hluta af áhrifum sínum í að það er einmitt Arnar, meistari bundna málsins, klassíkurinnar, hins upp- hafna og fjarlæga, sem þarna leggur hjartað á lagergólfið. Sveinn Kristinsson hefur unnið í fjörutíu ár á lager í varahlutaversl- un. Frá blautu barnsbeini hefur hann fetað veg hinna réttvísu og ná- kvæmu, skilað sínu, skaffað, hvergi brugðist. Nema sjálfum sér – og fyr- ir vikið öllum sínum nánustu; systur, konu, börnum. En samt fyrst og fremst sjálfum sér. Sveini hefur láðst að lifa. Viðfangsefni Þorvaldar hér er giska kunnuglegt. Lífslygi meðal- jónsins hefur verið vinsælt viðfangs- efni í leikhúsinu frá því Arthur Mill- er skapaði sölumanninn Willy Loman úr minningum um frænda sinn. Og vafalaust má kvarta yfir að linnulaus ógæfan sem hellist yfir Svein verði nánast sápuóperuleg á köflum. En það skiptir engu máli við hliðina á því að Þorvaldur skrifar hér frá hjartanu, en jafnframt með þeirri tækni sem hann hefur yfir að ráða, og með þeim stílbrögðum sem hafa gert hann að merkilegasta leik- skáldi landsins. Hárnákvæmu valdi á fyndni, íróníu og tilfinningasemi, sjálfsaga til að láta aðalatriðin liggja milli hluta. Þorvaldur fellur aldrei í þá gryfju að mjólka hápunktana. Að sjálfsögðu dvelur Sveinn aldrei við það sem mestu varðar, en það fer aldrei milli mála gagnvart áhorfand- anum. Sveinsstykki er við fyrstu kynni besta og þroskaðasta verk Þorvaldar fram að þessu. Og að þessu sinni er Arnar alger- lega hrífandi. Þó svo tæknin og færnin fari aldrei á milli mála er það einlægnin, samúðin og hlýjan sem leikarinn hefur lagt til persónunnar sem gerir þennan fráhrindandi mann að vini okkar þessa tvo tíma. Arnar leikur sér að því að sýna okk- ur Svein á öllum æviskeiðum, við ýmsar aðstæður, og brunar af óskeikulum krafti hins þrautþjálfaða listamanns inn í ólíkustu tilfinningar og aðstæður. Ég minnist þess ekki að hafa verið jafn snortinn af leik Arnars Jónssonar og í þessari af- mælissýningu. Umgjörð Stígs Steinþórssonar er viðeigandi, lagerinn er líf Sveins og þar fer uppgjörið fram. Með því að láta hann halda afmælisræðuna sem rammar inn verkið einmitt þarna, við púlt sem virðist vera skrifborð sem reist er upp á endann, er líka gefið í skyn að þetta sé ekki veislan sjálf, heldur einungis æfing, eða þá að aldrei hafi staðið til að hafa veislu, heldur séu þetta einungis hugarórar Sveins. Höfundar sýning- arinnar stilla sig um að taka afstöðu til þessa, og áhorfandinn græðir vangaveltur um túlkunarmöguleika. Lýsing Björns Bergsteins Guð- mundssonar nýtist vel til að móta kaflaskil og skapa fjölbreytta stemningu. Þessi sýning er sú fyrsta sem ég sé af leikstjórnarverkefnum Þorleifs Arnar Arnarssonar, og má það furðu gegna, svo afkastamikill sem hann hefur verið frá því hann útskrifaðist úr Leiklistarskólanum sl. vor. Mig grunar að Þorleifur eigi stóran þátt í áhrifamætti sýningarinnar, þótt hann hafi stillt sig um að setja aug- ljós leikstjórnarleg fingraför út um allt. Það er fágun og öryggi yfir bæði staðsetningum, uppbyggingu og tempói sýningarinnar sem vitnar um vinnubrögð leikstjóra sem á framtíðina fyrir sér. Reyndar eiga þeir það allir þrír. Þorvaldur nær sífellt sterkari tökum á formi og máli, Þorleifur eflist og eflist. Og af Sveinsstykki að dæma getur Arnar Jónsson allt. Dragðu ekki það að elska LEIKLIST Hið lifandi leikhús Höfundur: Þorvaldur Þorsteinsson. Leik- stjóri: Þorleifur Örn Arnarsson. Leikari: Arnar Jónsson. Leikmynd og búningar: Stígur Steinþórsson. Lýsing: Björn Berg- steinn Guðmundsson. Aðstoðarleikstjóri: Arndís Þórarinsdóttir. Loftkastalanum 4. desember. SVEINSSTYKKI Þorgeir Tryggvason Morgunblaðið/Árni Sæberg „Sveinsstykki er verulega áhrifamikil sýning – magnaður flutningur á frábæru leikriti.“ Í DRAUMINUM um Ísland eru þrjár aðalpersónur. Fyrst má telja Sally, sem er jafnframt sögumaður, þá Magnús, föður hennar og ferða- félaga, manninn sem bókin er um. Þriðja persónan er Laxamýri, tapað konungsríki ættarinnar, sem í er falin táknræn saga fjölskyldunnar. Magn- ús Magnússon er jafnstoltur af ís- lenskum uppruna sínum og Íslend- ingar eru af honum. Börn hans vaxa úr grasi í Skotlandi, við upphafnar sögur af landinu, og þau móðir hans næra Sally á sögunni um hina ein- stæðu Laxamýrarætt og fall hennar úr hásæti þegar jörðin var seld vandalausum á þriðja tug 20. aldar. Fyrir þrjátíu árum eða svo hófu blakkir Bandaríkjamenn að leita sögu sinnar með því að fara á söguslóðir í Afríku. Undanfarna tvo áratugi eða svo hafa þeir sem teljast til annarrar kynslóðar innflytjenda í mörgum Vestur-Evrópulöndum fengist nokk- uð við að skrifa bækur sem takast á við sjálfsímynd þeirra sem hafa aðrar menningarrætur en obbi lands- manna. Nóbelsverðlaunahafinn Nai- paul er vísast þekktastur þessara rit- höfunda, þótt hann hafi skipt um þjóðerni fullorðinn. Hann ferðaðist um æskuslóðir og sagði frá því í bók og skrifaði aðra um föður sinn, sem tilheyrði hópi innflytjenda í gamla landinu. Sally Magnússon vinnur eftir þess- ari hefð. Hún fær föður sinn Magnús til að fara með sér til Íslands og skoða Laxamýri, svo hún geti raðað saman sögubrotunum af landinu og fjöl- skyldunni. Bókin er af- raksturinn, þótt mark- mið hennar virðist vera að öðlast samhengi svo hún geti komið sögunni áfram til sinna barna. Í bókinni er lýsing á þessari ferð og því sem þau feðginin komast að, en í leiðinni mynd af Magnúsi og sambandi þeirra. Eins og Sally fær að vita er draum- urinn um Ísland um margt ólíkur veru- leikanum, því sögurnar sem hún hefur heyrt frá því í barnæsku standast ekki allar þegar hún grennslast fyrir um þær. Til dæmis lýsing á rassstærð danska kóngsins sem heimsótti Ísland árið 1874. Magnús hafði fullyrt að hann hefði ekki getað setið hest, en Sally ákveður að kanna málið betur, eftir að hafa séð ljósmynd af glæsimenni sem átti að vera þessi sami kóngur. En hún finnur líka að veruleikinn er ekki endilega verri en draumurinn þegar hún kemst í snertingu við sögu föð- urafa síns, því Magnús er auðvitað ekki af Laxamýrarfólki í báðar ættir, þótt amma Sallyar hefði aldrei viljað talað um hinn legg fjölskyldunnar. Það er ekki alveg ljóst fyrir hvern bókin er skrifuð, því hún er mjög sjálfhverf, eins og sjáfsímyndarskrif verða að vera, en þó svo íslensk að maður á bágt með að sjá fyrir sér út- lendinga sem nenna að lesa hana. Bókin er þýdd, þótt hvorki komi fram hvað hún heitir á frummálinu, né að hún hafi verið gefin út annarstaðar. Þýðingin, sem er að sjálfsögðu unnin af frænda hennar, hefur á sér dálítinn flýtiblæ. Hún virðist stirðari en lipur hugsunin sem er aðalsmerki bókar- innar, en án samanburðar er ekki hægt að fullyrða það. Og ég er ekki viss um að Sally hafi endanlega jarðað hugmyndina um að hún sé af aðalsættum, því hún virðist sjaldan hafa hitt Íslendinga sem eru ekki í háum embætt- um eða þekktir fyrir eitthvað annað. En raunar eru engar staðreyndir í þessari bók sem Íslendingar vita ekki. Á köflum er það hálfvandræðaleg útgáfa af Íslandssögunni sem Sally rekur. Ekki fyrir höfundinn, því hann hef- ur á þetta hæfilega fjarlægð og marga fyrirvara, og yfirferðin, þar sem engri klisju um íslenskt þjóðerni eða sögu er gleymt, er á köflum bráðfyndin. Það sem er vandræðalegt er að ég heyrði ekki betur en að þetta væri bergmál af okkur sjálfum. En Íslendingur hefur hvort eð er meiri áhuga á draumnum um Magnús Magnússon, sem í okkar augum hefur allt það sem góðan Íslending má prýða, því hann er frægur í útlöndum. Sagan af honum er jafnupphafin á Ís- landi og Íslandssagan sem hann hefur fyrir börnum sínum og kynnir í Stóra- Bretlandi. En fyrir Sally er hann pabbi. Gleyminn, stundum uppstökk- ur og óþægilega ómannglöggur. Hann reykir af fullkomnu tillitsleysi og manni skilst jafnvel að hann hafi misst bílprófið. Kostina þarf ég ekki að rekja. Og þegar Sally þótti vænt um að finna forfeður sína sem voru ómerkilegri en hið goðumlíka Lax- amýrarfólk, þá hlýnaði mér um hjartaræturnar við að finna að Magn- ús Magnússon er mannlegur eins og við hin. Blátt land, blátt blóð BÆKUR Endurminningar Sally Magnusson. Árni Sigurjónsson þýddi. Útg. Mál og menning 2003. Kápu- hönnun: Loftur Ó. Leifsson. 256 bls. DRAUMURINN UM ÍSLAND. Á FERÐ MEÐ MAGNÚSI MAGNÚSSYNI. Magnús Magnússon Lára Magnúsardóttir VEISLA í orðum og tónum nefnist skemmtikvöld sem verður í Hlaðvarpanum á sunnudag kl. 20. Það er Hrók- ur alls fagnaðar sem býður til skemmtunarinnar. Fram koma átta skáldkonur og kvenrithöf- undar og lesa úr bókum. Þá mun Eivör Pálsdóttir syngja lög af nýútkomnum geisladiski. Eftirtaldir höfundar koma fram: Vigdís Grímsdóttir (Þeg- ar stjarna hrapar), Linda Vil- hjálmsdóttir (Lygasaga), Unn- ur Þóra Jökulsdóttir (Eyjadís), Hlín Agnarsdóttir (Að láta lífið rætast), Rúna Tetzschner (Ljóð til engils), Elín Pálmadóttir (Eins og ég man það), Kristín Helga Gunnarsdóttir (Stranda- nornir) og Elísabet Jökulsdótt- ir (Vængjahurðin). Kynnir kvöldsins verður Guð- fríður Lilja Grétarsdóttir skákkona og sérstakur heiðursgestur verður skáldið og leikkonan Didda. Hrókur alls fagnaðar, HAF, er einskonar lista- og skemmtideild Skákfélagsins Hróksins, en innan félagsins eru fjölmargir listamenn, skáld og aðrir fulltrúar hinna skapandi stétta. Aðgangur er ókeypis. Veisla í orðum og tónum Eivör Pálsdóttir er meðal veislugesta. Morgunblaðið/Árni Torfason Eva og Adam – Á síðasta snúning er eftir Måns Gahrton og Johan Unenge, í þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur. Þetta er sjöunda bókin í flokknum um Evu og Adam. Sögurnar lýsa því þegar lífið er dans á rósum og líka þegar allt virðist komið á síðasta snúning. Kvikmynd um þau er sýnd hér á landi um þessar mundir. Eva fær Adam til að fara með sér á rokknámskeið – en hann er sannarlega betri í boltanum. Adam finnst Alexander, besti vinur hans, svíkja bæði sig og liðið. Eva vill að Adam verði besti vinur Tómasar, dansherra hennar. Adam kýs helst að Alexander verði með Önnu – en Eva óskar þess að Tómas verði náinn vinur hennar. Útgefandi er Æskan. Bókin er 165 bls. Steinholt prentaði. Unglingar

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.