Morgunblaðið - 19.11.2004, Qupperneq 16
16 FÖSTUDAGUR 19. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
LANDSPÍTALI – háskólasjúkrahús
gekkst í gær fyrir árlegri ráðstefnu
um fjármögnunarleiðir í heilbrigðis-
kerfinu, undir yfirskriftinni „Auð-
legð í heilbrigðiskerfinu“. Aðallega
var fjallað um reynslu sjúkrahúsa
hér og erlendis af svonefndu fram-
leiðslumælikerfi, DRG, sem er nokk-
urs konar sjúkdómamiðuð flokkun á
aðgerðum og afköstum sjúkrahúsa.
Af erindum og samtölum við fyr-
irlesara má ráða að innleiðing þessa
kerfis hér á landi er langt komin og
reynsla af því betri en víða annars
staðar. Þannig hefur aðferð LSH við
innleiðingu kerfisins vakið athygli
sjúkrastofnana erlendis og tilboð
m.a. borist um samstarf frá Svíþjóð.
Dr. Birgir Jakobsson, barnalækn-
ir og forstjóri St. Göran sjúkrahúss-
ins í Stokkhólmi, flutti tvö erindi á
ráðstefnunni í gær. Hann hefur verið
búsettur í Svíþjóð í meira en aldar-
fjórðung og stýrir nú eina einka-
rekna bráðasjúkrahúsi Svíþjóðar.
Þar starfa um 1.500 manns og veltir
sjúkrahúsið um einum milljarði
sænskra króna á ári, eða tæpum 10
milljörðum króna.
Birgir segir í samtali við Morgun-
blaðið að DRG-kerfið sé bara einn
hluti þeirra bóta sem koma þurfi á í
heilbrigðiskerfinu en engu að síður
afar nauðsynlegur. Mikilvægt sé að
fá kunnáttu heilbrigðisstarfsmanna
til að nýtast sem best í þessu starfi.
Hann segir engan vafa leika á því að
hagstætt sé fyrir Íslendinga að koma
inn í þá vinnu sem fram fari á sjúkra-
húsum á Norðurlöndum í að bæta
rekstur þeirra og hagkvæmni. Í dag
séu Íslendingar að mörgu leyti
komnir lengra í þessari vinnu en
önnur Norðurlönd.
„Svíar eru komnir langt í að nota
kerfið en hérna er búið að þróa það
mjög vel. Mikilvægast er að sjá til
þess að kerfið sé notað í raun. Hug-
myndaauðgi er mikil hér á landi og
margir möguleikar á að koma góðum
hlutum til leiðar,“ segir Birgir og
tekur sem dæmi hvernig lyfjakostn-
aði er dreift á Landspítalanum og
hvernig honum er skipt á sjúklinga.
Þetta sé nokkuð sem hafi tekið 15 ár
að ræða um í Skandinavíu án lausn-
ar.
Ánægð með Íslendinga
Dr. Jugna Shah flutti erindi um
uppruna og þróun DRG-kerfis í
Bandaríkjunum og reynslu af flokk-
unarkerfi á legu- og göngudeildar-
sjúklingum þar í landi. Hún hefur
sérhæft sig í breyttri fjármögnun í
ferliþjónustu og stýrir fyrir hönd
tveggja bandarískra stofnana inn-
leiðingu á breyttri fjármögnun í heil-
brigðisþjónustu í Austur-Evrópu.
Hún segist í samtali við Morgun-
blaðið hafa orðið undrandi á að sjá
hvað Landspítalinn hafi áorkað
miklu undanfarin fjögur ár í að
breyta fjármögnun sinni. Í fyrstu
hafi hún spurt sig þeirrar spurning-
ar af hverju lítið land á borð við Ís-
land hafi þurft að nota mælikerfi á
borð við DRG. Þeirri spurningu hafi
verið auðsvarað þegar hún áttaði sig
á hve rekstur og starfsemi Landspít-
alans væri umfangsmikil. Góð
reynsla og þekking sé til staðar og
DRG-kerfið hafi í raun þegar verið
komið í notkun áður en farið var að
tala um breytta fjármögnun í rekstri
spítalans. „Ég er mjög ánægð að sjá
hve Íslendingar hafa náð miklum ár-
angri á jafnskömmum tíma og
óvenjulegt hvernig frumkvæðið
kemur meira frá sjúkrahúsinu held-
ur en stjórnvöldum,“ segir Shah.
Hún segir reynsluna í Bandaríkj-
unum af notkun DRG-kerfis vera
góða. Í upphafi hafi verið efasemd-
araddir um að þjónusta sjúkrahúsa
myndi versna og gæðin um leið. Sá
ótti hafi reynst ástæðulaus.
Hún segir það ekki miklu skipta í
þessu tilliti hvort sjúkrahús eru í op-
inberri eigu eða einkarekin. Í hvoru
tilviki fyrir sig þurfi allir kaupendur
þjónustunnar, þ.e. stjórnendur
sjúkrahúsa, stjórnvöld og sjúkling-
ar, að vita hvað þeir séu að kaupa.
Kerfi eins og DRG gefi möguleika á
samanburði milli sjúkrahúsa. Þannig
megi velta fyrir sér og skoða ástæð-
ur þess að tvö sambærileg sjúkrahús
hafi annars vegar 5 legudaga að
meðaltali og hins vegar 12 daga.
Upplýsingar sem þessar geti skipt
stjórnvöld eða eigendur sjúkrahúsa
máli þegar leggja þurfi til fjármagn í
reksturinn.
Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir,
verkefnisstjóri LSH í breyttri fjár-
mögnun, kynnti stöðu þessa verkefn-
is, sem hefur verið í gangi frá árinu
2000. Af máli hennar mátti ráða að
verkefnið væri langt komið og DRG-
kerfið yrði komið í notkun á flestum
deildum á næsta ári. Þjónustusamn-
ingur yrði jafnvel gerður við ríkið á
næsta ári og árið 2006 mætti tala um
að breytt fjármögnun LSH væri
endanlega orðin að veruleika.
Guðrún sagði verkefnið hafa verið
kynnt á erlendis og fengið mjög góð
viðbrögð og nokkra athygli. Sagði
hún tilboð vera komið frá sjúkrahúsi
í Svíþjóð um samstarf við innleiðingu
DRG-kerfis. Þar hefði athyglin m.a.
beinst að því hve nákvæm sýn feng-
ist við kostnað af rekstri sjúkrahúsa
með því að flokka þjónustuna eftir
sjúkdómum og aðgerðum.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir,
sviðsstjóri lyflækningasviðs I, sagði
að þrátt fyrir stutta reynslu af notk-
un DRG-kerfis á legudeildunum
hefði margt áunnist. Þessi vinna færi
fram um leið og illa gengi að ná end-
um saman við rekstur sviðsins. Stöð-
ug aukning væri á legutíma á dag- og
göngudeildum, legurýmum hefði
fækkað úr 200 fyrir þremur árum
niður í 166 í dag og á þessu ári
stefndi í 7% umframkeyrslu fjár-
heimilda, hátt í 200 milljónir króna.
Ef vel tækist til við notkun kerfisins
yrði hægt að rökstyðja betur þá fjár-
muni til deildanna sem óskað væri
eftir. Mestu skipti að þjónustan við
sjúklingana minnkaði ekki, starfs-
menn sjúkrahúsa yrðu ávallt að
muna að þeir væru þar til staðar fyr-
ir sjúklingana og enga aðra.
Ráðstefna Landspítalans um nýjar fjármögnunarleiðir í heilbrigðiskerfinu
Ísland komið lengra í
mælingu á afköstum
TENGLAR
..............................................
www.lsh.is/drg
Morgunblaðið/Sverrir
Ráðstefna Landspítalans var fjölsótt. Fyrir miðju á fremsta bekk er Jóhannes M. Gunnarsson, settur forstjóri LSH.
Birgir
Jakobsson
Jugna
Shah
FRAMLEIÐSLUMÆLIKERFIÐ
DRG (Diagnosis Related Groups),
eða sjúkdómamiðuð flokkun, er
bandarískt að uppruna og hefur náð
hvað mestum vinsældum meðal sjúk-
lingaflokkunarkerfa á sjúkrahúsum.
Er kerfinu ætlað að skilgreina starf-
semi sjúkrahúsa í formi „afurða“ og
halda utan um allan kostnað sem ligg-
ur að baki hverri aðgerð. Byggist
kerfið á flokkun sjúklinga eftir sjúk-
dómsgreiningum, aðgerðum og með-
ferðum, kyni, aldri og eðli útskriftar í
500 greiðsluflokka. Markmiðið er að
sjá nákvæmlega í hvað fjármunum
spítalans er varið og verður þannig til
nokkurs konar verðskrá.
Eftir nokkurt hlé var kerfið tekið
upp að nýju hér á landi fyrir fjórum
árum, við sameiningu Sjúkrahúss
Reykjavíkur og Ríkisspítalanna. Ver-
ið er að þróa séríslenska útgáfu,
DRG-IS, á Landspítalanum og hefur
það verið innleitt á flestum deildum.
Fá þær framlög með tilliti til afkasta
en algengast er að um þriðjungur af
fjármagni til deilda LSH er tengdur
afköstum, annað fjármagn er á föst-
um framlögum.
Er allur kostnaður færður á með-
ferð sjúklinga nema stofn- og við-
haldskostnaður, S-merkt lyf á dag- og
göngudeildum og kennslu- og vís-
indakostnaður. Þannig sýnir DRG-
kerfið að meðalkostnaður við meiri
háttar aðgerð í brjóstholi var 830 þús-
und krónur á síðasta ári. Alls fóru 68
sjúklingar í slíka aðgerð en kostnaður
við sjö „dýrustu“ sjúklingana var frá
1,3 milljónum kr. upp í 2,1 milljón, eða
um 20% af heildarkostnaði af stórum
brjóstholsaðgerðum. Ef skoðun spít-
alans leiðir í ljós að aukinn kostnaður
er vegna innra skipulags, mismun-
andi aðferða, skráningar eða þess að
reglur eru óskýrar er tækifæri til um-
bóta, segir í nýjum bæklingi Land-
spítalans um breytta fjármögnun.
Hvað er DRG-kerfi?
EITT af markmiðum framleiðslu-
mælikerfis, DRG, á Landspít-
alanum er að ganga frá öllum upp-
lýsingum í sjúkraskrá og draga úr
hættu á rangri skráningu. Í erindi
sviðsstjóra lyflækningasviðs I, Guð-
laugar Rakelar Guðjónsdóttur, kom
m.a. fram að eftir fyrstu níu mánuði
þessa árs hefðu um 16% sjúkra-
skráa á lyflækningasviðinu verið
ófrágengnar og stefnan væri sett á
1% hlutfall. Fyrir ári var þetta hlut-
fall í um 30%. Í lok september sl.
átti sem sagt eftir að ganga frá um
1.200 sjúkraskrám af 7.500 útskrif-
uðum sjúklingum á legudeildum
Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir,
verkefnisstjóri breyttrar fjármögn-
unar hjá Landspítalanum, fullviss-
aði ráðstefnugesti um að kerfið léti
örugglega vita ef karlmaður væri
skráður fyrir fæðingu barns eða ef
aldraður sjúklingur væri skráður í
sjúkraskrá með nýburagulu. Slíkar
skráningar ættu að uppgötvast í
tæka tíð.
Lætur vita ef karl er
skráður fyrir fæðingu!