Morgunblaðið - 09.01.2005, Qupperneq 33
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9. JANÚAR 2005 33
frá ríkisstjórnum Evrópuríkja sem voru að
vinna að hagsmunum sinna eigin flugfélaga.
Hvers vegna létu bandarísk stjórnvöld ekki
undan þeim þrýstingi? Vegna þess að hags-
munir Bandaríkjanna voru meiri af því að hafa
þá aðstöðu hér á Íslandi sem þeim hafði verið
tryggð með gerð varnarsamningsins 1951. Þeir
vildu ekki styggja íslenzk stjórnvöld og Íslend-
inga almennt.
Við Íslendingar stóðum í miklum átökum á al-
þjóðavettvangi í aldarfjórðung til þess að
tryggja yfirráð okkar yfir fiskimiðunum við
landið. Sú barátta hófst með útfærslu lögsög-
unnar í fjórar mílur, síðan í 12 mílur, eftir það í
50 mílur og lok í 200 mílur. Við unnum öll þessi
þorskastríð og höfðum okkar fram. Í raun var
sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar ekki lokið fyrr
en 1. desember 1976 þegar síðasti brezki tog-
arinn sigldi á brott frá Íslandsmiðum.
Hvers vegna vann þessi litla þjóð alltaf stríð-
in um þorskinn gegn Bretum sem hvað eftir
annað sendu herskip hingað til lands og gátu
þess vegna haft ráð okkar í hendi sér?
Vegna þess að alltaf þegar í óefni var komið
blönduðu Bandaríkjamenn sér í málið og
þvinguðu Breta til að láta undan síga.
Þótt Bandaríkjamenn hafi alltaf sýnt okkur
mikla vinsemd byggðust þessi afskipti þeirra
ekki á vináttu í okkar garð heldur þeirra eigin
hagsmunum. Þeir þurftu á þessum tíma á að-
stöðunni á Íslandi að halda alveg eins og í
heimsstyrjöldinni síðari og þeir sáu að hætta
væri á því að þeir misstu þá aðstöðu vegna
þorskastríðanna. Almenningur á Íslandi reidd-
ist Bretum mjög og spurði, hvort Bandaríkja-
menn væru ekki hér til að verja landið, hvaðan
sem árásin kæmi.
Með lokum kalda stríðins, þegar Berlínar-
múrinn féll, veldi Sovétríkjanna í Austur-Evr-
ópu hrundi og Sovétríkin svo sjálf að lokum,
gjörbreyttist staða okkar í utanríkismálum.
Bandaríkjamenn, og raunar bandamenn þeirra í
Evrópu, þurftu ekki með sama hætti á aðstöð-
unni á Íslandi að halda og áður. Við Íslendingar
töldum hins vegar að við þyrftum á vörnum að
halda. Nú var svo komið að Bandaríkjamenn
höfðu ekki sömu hagsmuni af því og áður að
halda uppi þeim vörnum. Við vorum komnir í
utanríkispólitískt tómarúm að nokkru leyti og
með nokkrum rökum má segja, að stjórnmála-
flokkarnir allir hafi vanrækt það hlutverk sitt
að taka upp umræður um það hvað gæti komið í
staðinn.
Þetta hefur komið skýrt í ljós á undanförnum
misserum og árum. Embættismenn í Wash-
ington voru komnir býsna langt með það að
hafa hagsmuni okkar að engu og horfa einungis
til bandarískra hagsmuna í umræðum um fram-
tíð varnarstöðvarinnar í Keflavík. Þeir voru
komnir svo langt að það munaði einungis hárs-
breidd að þeir hefðu sitt fram og Ísland yrði
varnarlaust.
Nú tryggði hernaðarlegt mikilvægi Íslands
ekki lengur hagsmuni okkar eins og verið hafði í
hálfa öld.
En þá kom til skjalanna nýr þáttur í sam-
skiptum okkar og Bandaríkjamanna, sem menn
höfðu almennt ekki áttað sig á. Í forsætisráð-
herratíð sinni hafði Davíð Oddsson rækt sam-
skipti sín við þrjá Bandaríkjaforseta af mikilli
natni, fyrst við Bush eldra, síðar Clinton og síð-
ast en ekki sízt Bush yngra. Þetta hafði fyrrver-
andi forsætisráðherra gert annars vegar með
þeim persónulegu tengslum sem skapast á milli
forystumanna þjóða á alþjóðlegum fundum og
hins vegar með mjög eindregnum stuðningi við
Bandaríkjamenn á vissum lykilfundum, sem
þeir töldu augljóslega að skipti máli fyrir sig.
Þessi tengsl skiluðu þeim árangri á árunum
2003 og 2004, að Bush forseti tók sjálfur upp
hanskann fyrir Íslendinga og sendi nánustu
samstarfsmönnum sínum orð um það, að hann
vildi ekki að Íslendingar yrðu skildir eftir og þá-
verandi forsætisráðherra Íslands yrði fyrir von-
brigðum með afstöðu Bandaríkjamanna til ör-
yggismála Íslendinga. Vegna þessara persónu-
legu tengsla var komið í veg fyrir, að
varnarstöðinni í Keflavík yrði nánast lokað.
Nú er auðvitað ljóst að ekki er hægt að
byggja framtíðarhagsmuni okkar Íslendinga í
utanríkismálum á tengslum og sambandi
tveggja manna. Hins vegar er hægt að draga
eftirfarandi lærdóm af þessari sögu: þegar við
Íslendingar getum ekki lengur byggt með sama
hætti á hernaðarlegu mikilvægi Íslands fyrir
nágrannaþjóðir okkar verðum við að taka upp
ný vinnubrögð í samskiptum við þær. Og þá
ekki sízt Bandaríkjamenn. Þótt öll spjót standi
nú á Bandaríkjamönnum á alþjóðavettvangi
vegna Íraksstríðsins og af öðrum ástæðum er
alveg ljóst að þeir munu gegna lykilhlutverki í
alþjóðlegri pólitík næstu áratugi. Þeir sem efast
um það ættu að lesa merkilega bók eftir
Zbigniew Brzezinski, sem er einn af áhrifa-
mestu mönnum í litlum hópi í Washington, sem
láta sig utanríkismál varða og fyrrum ráðgjafi í
Hvíta húsinu (faðír hins unga Brzezinskis, sem
er einn helzti andstæðingur okkar í Pentagon
og kom hingað vorið 2003) sem nefnist The
Choice. Þar fjallar höfundur um stöðu Banda-
ríkjamanna á alþjóðavettvangi og þá kosti sem
Bandaríkjamenn standi frammi fyrir. Rök-
semdir hans eru svo sterkar fyrir því að þeir
muni meira og minna gegna óbreyttu hlutverki
fram eftir 21. öldinni, að ekki er hægt að ganga
fram hjá þeim.
Í þessu ljósi og vegna nýfenginnar reynslu
hlýtur niðurstaðan að verða sú að eitt mikilvæg-
asta verkefni okkar á sviði utanríkismála á
næstu misserum og árum eigi að vera að byggja
skipulega upp samskipti og tengsl við lykilaðila
í stjórnkerfinu í Washington. Þótt við Íslend-
ingar séum svo heppnir að fyrrnefnd persónu-
leg tengsl hafi orðið til á milli núverandi forseta
Bandaríkjanna og fyrrverandi forsætisráðherra
Íslands verðum við að byggja framtíðarsam-
skipti okkar við Washington á víðtækara
tengslaneti, sem nær til Hvíta hússins, utan-
ríkisráðuneytis, varnarmálaráðuneytis og valins
hóps manna í bandaríska þinginu.
Til þess að ná þessum árangri hljótum við að
leggja áherzlu á að byggja upp sendiráð okkar í
Washington og skipa það eingöngu úrvalshópi
manna úr utanríkisráðuneytinu hér. Líklegt má
telja að það geti skipt miklu máli að menn með
reynslu af stjórnmálum skipi sendiherrastöðuna
í Washington eins og stundum hefur verið. Á
nokkrum árum á að vera hægt að byggja upp
tengslanet í Washington, sem gæti skipt sköp-
um á vissum úrslitapunktum í samskiptum okk-
ar á alþjóðavettvangi þegar hagsmunir Íslands
koma við sögu.
Írak og Ísland
Þegar deilt er á ríkis-
stjórn Íslands, og þá
alveg sérstaklega þá
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Davíð
Oddsson utanríkisráðherra vegna afstöðu þeirra
til Íraksstríðsins, verða menn að hafa þennan
bakgrunn í huga. Við erum lítil þjóð hér í
Norður-Atlantshafi. Stundum geta ákvarðanir á
alþjóðavettvangi skipt sköpum fyrir okkur. Við
höfum notið góðs af nánum samskiptum okkar
við Bandaríkjamenn, eins og hér hefur verið
rakið. Það er ekkert vit í öðru en líta svo á að
samskiptin við Bandaríkin verði áfram lykilþátt-
ur í utanríkisstefnu okkar. Forsetar koma og
fara. Bush, núverandi forseti, fer í taugarnar á
mörgum Íslendingum, eins og raunar á við um
fólk í flestum Evrópuríkjum sem kann illa því
lífsviðhorfi hans að sjá allt í hvítu og svörtu.
Einstrengingsleg trúarleg viðhorf, sem virðast
blandast inn í pólitík hans, m.a. af pólitískum
ástæðum innan Bandaríkjanna, fara líka fyrir
brjóstið á mörgu fólki. Við getum hins vegar
ekki byggt samskipti okkar við Bandaríkin á
því, hvort okkur líkar vel eða illa við einn tiltek-
inn forseta.
Saddam Hussein var harðstjóri í Írak. Hann
kom ekki betur fram við andstæðinga sína í Írak
en Hitler gerði í Þýzkalandi eða ráðamenn á
Balkanskaga gerðu gagnvart þjóðarbrotunum
þar. Við tókum hins vegar ekki jafnmikið eftir
því vegna þess að Írak er í meiri fjarlægð frá
okkur. Við tókum heldur ekki eftir því sem var
að gerast í Rúanda fyrr en löngu seinna vegna
þess að þar var um að ræða fjarlægt land. Í
þessu felst kannski hræsni og tvískinnungur
okkar Vesturlandabúa. Við tökum eftir því sem
gerist nálægt okkur en hirðum minna um það
sem gerist í meiri fjarlægð.
Það hefur hins vegar dregið úr trausti á for-
ystumenn Bandaríkjamanna og Breta að þeir
hafa ekki getað sýnt fram á að meginforsend-
urnar fyrir innrásinni hafi staðizt. En gagnrýn-
endur þeirra geta heldur ekki haldið því fram að
afskipti af málefnum sumra þjóða séu í lagi en
annarra ekki ef svipaðar aðstæður eru til staðar.
Í samskiptum þjóða í milli fær enginn allt fyr-
ir ekkert. Það á líka við um okkur Íslendinga.
Við fáum ekki allt fyrir ekkert. Í þeim efnum
skiptir engu hvaða ríkisstjórn situr hér að völd-
um. Ríkisstjórn sem skipuð væri fulltrúum Sam-
fylkingar og Vinstri grænna mundi standa
frammi fyrir álitamálum varðandi íslenzka hags-
muni sem gætu falið í sér erfiðar ákvarðanir fyr-
ir slíka ríkisstjórn á alþjóðavettvangi. Og ráða-
menn þeirra flokka eiga að horfast í augu við
það. Ella væru þeir ekki starfi sínu vaxnir.
Um þessar mundir er að hefjast barátta fyrir
kjöri Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Um þá baráttu er þverpólitísk samstaða. Þegar
betur er að gáð er kannski spurning, hvort skyn-
samlegt sé fyrir okkur Íslendinga að leita eftir
því sæti. Hitt er víst, að í þeirri baráttu munum
við verða að lofa stuðningi við málefni annarra
þjóða – til þess að fá atkvæði þeirra – sem ekki
mun hugnast öllum Íslendingum.
Við getum ekki hagað okkur í utanríkismálum
eins og við séum bláeygir sakleysingjar.
Morgunblaðið/RAXGönguferð í rokinu.
Til þess að ná þess-
um árangri hljótum
við að leggja
áherzlu á að byggja
upp sendiráð okkar
í Washington og
skipa það eingöngu
úrvalshópi manna
úr utanríkisráðu-
neytinu hér. Líklegt
má telja að það geti
skipt miklu máli að
menn með reynslu
af stjórnmálum
skipi sendiherra-
stöðuna í Wash-
ington eins og
stundum hefur ver-
ið. Á nokkrum árum
á að vera hægt að
byggja upp tengsla-
net í Washington,
sem gæti skipt sköp-
um á vissum úr-
slitapunktum í sam-
skiptum okkar á
alþjóðavettvangi
þegar hagsmunir Ís-
lands koma við
sögu.
Laugardagur 8. janúar
REYKJAVÍKURBRÉF