Morgunblaðið - 14.01.2007, Qupperneq 6
6 SUNNUDAGUR 14. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
H
jónin Steinar Steins-
son og Guðbjörg
Jónsdóttir slá ekki
slöku við þó þau séu
bæði komin á níræð-
isaldur. Þegar Steinar fór á eftirlaun
fyrir rétt rúmum 11 árum tók hann
til við að hanna og þróa búnað til
fiskflokkunar sem nýtist einyrkjum í
fiskeldi. Hann ver því ófáum stund-
um úti í bílskúr þar sem hann prófar
sig áfram með tækjabúnaðinn, þess á
milli sem hann situr við tölvuna og
lagar tækniteikningar að bún-
aðinum.
Guðbjörg er mikil hannyrðakona
og meistari í því að skapa skemmti-
legar fígúrur úr perlum. Saman deila
þau áhuga á steinum og hafa farið
ófáar ferðir um landið og einnig til
útlanda í því skyni að finna og safna
sérstökum steinum sem þau síðan
slípa.
„Það er nú ýmis sérviskan hér á
þessu heimili,“ segir Steinar bros-
mildur þegar hann tekur á móti
blaðakonu í heimsókn skömmu eftir
þrettándann. Jólin eru nýliðin en
jólatréð stendur enn í stofunni
skreytt m.a. með heimagerðu jóla-
skrauti sem Guðbjörg hefur útbúið.
Undir jólatrénu er útsaumaður dúk-
ur með ýmsum jólalegum myndum
ásamt nöfnum og fæðingarárum
barnanna þriggja og barnabarnanna
sjö. „Ég á enn eftir að sauma nöfn og
fæðingarár langömmubarnanna
þriggja,“ segir Guðbjörg og sýnir
blaðakonu stolt ljósmyndir af um-
ræddum kornabörnum sem komu í
heiminn á síðasta ári.
Gott að verða frjáls maður
Í samtali við Steinar og Guðbjörgu
verður ljóst að þau eru mikið fjöl-
skyldufólk. Sjálf fagna þau á næsta
ári demantsbrúðkaupi, en 2. júní nk.
verða liðin sextíu ár síðan þau giftu
sig. Aðspurð hvort þau muni þá blása
til stórveislu svarar Steinar því neit-
andi, en tekur jafnharðan fram að
líklega megi búast við því að börnin
standi fyrir einhverri uppákomu.
„Raunar vill svo skemmtilega til að
nokkur fjöldi afkomenda okkar hefur
valið þennan sama brúðkaupsdag til
þess að gifta sig,“ bætir Guðbjörg við
og tekur fram að sökum þessa sé
þetta ávallt mikill hátíðisdagur.
Steinar er fæddur í október 1926
og uppalinn í Reykjavík. Guðbjörg er
fædd í maí 1924 á Eskifirði og bjó
þar fram á táningsaldur, en þá flutti
fjölskyldan suður. Leiðir þeirra
Steinars og Guðbjargar lágu saman í
Ingimarsskólanum, þ.e. Gagnfræða-
skóla Reykjavíkur. Steinar gekk
menntaveginn, lærði vélsmíði í Iðn-
skólanum í Reykjavík, þaðan lá leiðin
í Vélskólann og síðan til Danmerkur í
vélatæknifræðinám og rekstr-
arskipulagsfræði. „Síðan hef ég bara
látið lífið kenna mér og það hefur
verið besti skólinn,“ segir Steinar
þegar hann er inntur eftir því hvað
hann hafi lært á lífsleiðinni.
Að námi loknu starfaði Steinar á
teiknistofu í Friðrikshöfn í þrjú ár.
Þaðan lá leiðin aftur heim þar sem
við tók starf hjá Héðni. Í átta sumur
var Steinar verksmiðjustjóri á Rauf-
arhöfn og þar hannaði hann sína
fyrstu fiskflokkunarvél sem flokkaði
síldarflök eftir stærð. Steinar stofn-
aði og rak m.a. vélsmiðjuna Norma í
nokkur ár, auk þess að kenna við
Iðnskólann í Hafnarfirði. Hann var
síðan skólameistari skólans í tæpa
tvo áratugi eða þar til hann lét að
störfum 69 ára að aldri.
Spurður hvort ekki hafi verið mikil
viðbrigði að hætta að vinna svarar
Steinar því neitandi. „Ég hef alltaf
haft nóg að gera. En auðvitað fannst
mér gott að vera orðinn frjáls mað-
ur,“ segir Steinar, sem, eftir að hann
fór á eftirlaun, hóf að þróa og hanna
fiskflokkunarvélar sem nýtast vel í
fiskeldi víðs vegar um land. Tekur
hann fram að hann fáist aðeins við
hönnunina, því smíði vélanna og
markaðssetning hefur verið í hönd-
um fyrirtækisins Vaka, en vélar
Steinars má finna víða um land auk
þess sem þær hafa m.a. verið seldar
til Noregs, Skotlands, Hollands,
Chile og Bandaríkjanna.
Að sögn Steinars er annars vegar
er um að ræða vél sem flokkar seiði
og hins vegar fullorðna fiska á leið til
slátrunar sem flokka þurfi eftir
stærð. Segir Steinar mikilvægt að
geta flokkað fiskseiði eftir stærð þar
sem fóður til handa minni fiskum er
mun dýrara en fóður eldri fiskanna.
Aðspurður segist Steinar hafa það að
markmiði við hönnun fiskflokk-
unarvéla sinna að þær nýttust ein-
yrkjum í fiskeldi. Það sé því skilyrði
að þær taki lítið pláss, séu léttar,
meðfærilegar og auðvelt að setja
þær saman og taka í sundur.
Heimilið var nokkurs konar
félagsmiðstöð hverfisins
Aðspurð segist Guðbjörg alla tíð
hafa verið heimavinnandi húsmóðir
og unað hag sínum vel. „Ég gat ekki
hugsað mér að fara út á vinnumark-
aðinn og skilja börnin ein eftir heima.
Mér fannst svo mikilvægt að búa
þeim gott heimili og vera til staðar
fyrir þau,“ segir Guðbjörg og tekur
fram að það hafi verið hægt í gamla
daga þegar mannmargar fjölskyldur
gátu lifað af einum tekjum. „Þetta
virðist því miður ekki lengur hægt,
því báðir foreldrar þurfa að vera úti-
vinnandi til þess að ná endum sam-
an,“ segir Guðbjörg. Aðspurð segir
hún oft hafa verið heilmikið líf og fjör
á heimilinu. „Ég var eina heimavinn-
andi húsmóðirin í hverfinu og því
leituðu vinir barna okkar eftir því að
koma í heimsókn. Hér var því alltaf
fullt hús af litlum börnum. Þetta var
því eins konar félagsmiðstöð hverf-
isins,“ segir Guðbjörg kímin.
Heimili þeirra hjóna er á rólegum
og grónum stað í Kópavoginum. Að
sögn Steinars eru á þessu ári liðin 50
ár síðan þau byggðu húsið sem þau
enn búa í. Heimilið ber þess glöggt
merki að þar er mikið hagleiksfólk á
ferð. Þannig hefur heimilisfaðirinn
smíðað ófá húsgögn, þeirra á meðal
skrifborð, kommóður og skápa svo
fátt eitt sé nefnt, en húsmóðirin hef-
ur slípað fjölda steina auk þess að
sauma út dúka og perlað hina ýmsu
skrautmuni. Aðspurð um steina-
áhuga þeirra hjóna segist Guðbjörg
alltaf hafa haft mikið dálæti á stein-
um og ung farið að safna fallegum og
áhugaverðum steinum í náttúrunni,
hvort heldur það eru jaspis, basalt,
baggalútur, hrafntinna eða agat svo
fáeinar tegundir séu nefndar. „Oft
getur leynst mikil dýrð inni í steini
sem virkar ljótur að utan en er léttur
miðað við stærð því þá er hann hol-
ur,“ segir Guðbjörg og vísar þar m.a.
til steinategunda á borð við ametyst.
Í steinunum leynist
lækningamáttur
Spurð hvar þau leiti steina segir
Guðbjörg það vera út um allt land.
„Við keyrum vítt og breitt um landið.
Við förum upp í fjöll og niður í fjöru.
Núna erum við reyndar hætt að fara
í skriður að leita steina, því við get-
um það ekki lengur,“ segir Guðbjörg.
Aðspurð segir hún misjafnt hversu
mikið þau kjósi að slípa eða vinna
steinana á slípivélum sem Steinar
hefur hannað og smíðað. Bendir
Guðbjörg á að sumir steinar séu fal-
legastir eins og þeir komi frá náttúr-
unnar hendi. „Eins og t.d. þessi
steinn hér. Ég hef ekki tímt að slípa
hann, því hann er alveg eins og Eld-
ey í laginu,“ segir Guðbjörg og réttir
blaðakonu fagurrauðan og grænan
jaspisstein. „Það býr mikill kraftur
og lækningamáttur í steinunum.
Þannig getur steinninn gert þig heil-
brigðan,“ segir Guðbjörg og tekur
fram að hún tali þar af eigin reynslu.
Í ljósi þessa liggur beint við að
spyrja hvort þau þakki steinunum
það hversu heilsuhraust þau hjónin
bæði eru og ern eftir aldri. „Kannski
að ákveðnu leyti. Hins vegar held ég
að það skipti ekki síður máli hversu
virk við höfum alla tíð verið, bæði í
vinnu og við að ferðast bæði erlendis
og hér innanlands í því skyni m.a. að
safna steinum. Við höfum alltaf haft
nóg að hugsa um og nóg við að vera,“
segir Guðbjörg og bendir á að nú um
jólin hafi alls 23 fjölskyldumeðlimir
og makar þeirra setið við mat-
arborðið. „Við höldum alltaf stór fjöl-
skylduboð tvisvar á ári. Annars veg-
ar á jólunum og hins vegar á
þorranum,“ segir Steinar og Guð-
björg bætir við: „Á jólunum höfum
við fyrir sið að dansa alltaf öll í kring-
um jólatréð og á þorranum stjórnar
Steinar hinum ýmsu heimatilbúnu
leikjum og þrautum,“ segir Guðbjörg
og tekur fram að þá gefist fullorðna
fólkinu tækifæri til þess að bregða á
leik með krökkunum líkt og það væri
aftur gengið í barndóm.
silja@mbl.is
Lífið er besti skólinn
Steinar og fiskar eiga
hug og hjarta hjónanna
Steinars Steinssonar
og Guðbjargar Jóns-
dóttur. Meðan hann
þróar fiskflokkunarvél-
ar fyrir fiskeldi, slípar
hún steina og býr til úr
þeim fallega skraut-
muni. Silja Björk
Huldudóttir leit í heim-
sókn til þessara skap-
andi hjóna.
Vélar sem nýtast einyrkjum Í bílskúrnum gerir Steinar tilraunir með fiskflokkunarvélar sem hann hannar og nýtast vel einyrkjum í fiskeldi. Stundum
fær Steinar lifandi fiska gefins sem hann geymir í fiskkari á lóðinni og notar þá sem tilraunadýr í vélum sínum.
Morgunblaðið/Ásdís
Skapandi hjón Steinar Steinsson og Guðbjörg Jónsdóttir eru mikið hagleiksfólk og ber heimili þeirra þess vitni.