Morgunblaðið - 14.01.2007, Page 20
20 SUNNUDAGUR 14. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Eftir Ásgeir Sverrisson
asv@mbl.is
VÍSAST fær enginn flúið söguna en
er æskilegt að ísakaldir vindar henn-
ar leiki jafnan um samfélagið? Og
ber kristnum mönnum ekki að fyr-
irgefa misgjörðir meðbræðra sinna?
Eða er það svo að ákveðið athæfi er
einfaldlega ófyrirgefanlegt? Sautján
árum eftir hrunið glíma menn við
spurningar sem þessar í fyrrum
kommúnistaríkjum Mið- og Austur-
Evrópu og hvergi sýnist skuggi hins
liðna stærri en í Póllandi þar sem
sagan hefur knúið fram afsögn eins
helsta leiðtoga katólsku kirkjunnar
og valdið hugmyndafræðilegum
landskjálfta.
Um liðna helgi sagði Stanislaw
Wielgus af sér embætti erkibiskups
Varsjárborgar einungis hálftíma áð-
ur en vígja átti hann til starfans og
þar með hefja hann upp í hóp valda-
mestu manna katólsku kirkjunnar í
Póllandi. Wielgus hafði um nokkurra
vikna skeið varist ásökunum um að
hann hefði starfað fyrir öryggislög-
reglu kommúnistastjórnarinnar og
haldið því fram að fyrirliggjandi upp-
lýsingar í þá veru væru ýmist stór-
lega ýktar eða tilbúningur.
Að lokum fékk Wielgus ekki leng-
ur haldið uppi vörnum; upplýsingar
um störf biskupsins í þágu öryggis-
lögreglunnar komu jafnvel dyggustu
stuðningsmönnum hans á óvart. Á 20
ára tímabili átti Wielgus rúmlega 50
fundi með fulltrúum öryggislögreglu
kommúnistastjórnarinnar, hann
sótti þriggja daga „námskeið“ fyrir
leyniþjónustumenn og undirritaði
tvö plögg, hið minnsta, hvar hann hét
því að njósna fyrir stjórnvöld á ferð-
um sínum til útlanda. Gögn þessi
birti dagblaðið Rzeczpospolita, sem
nýtur virðingar i Póllandi. Wielgus
hafði verið staðinn að ósannindum og
hann grét er hann greindi frá því að
hann gæti ekki þegið vígslu sem
erkibiskup Varsjárborgar.
Í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu
glíma menn enn við þá spurningu
hvernig taka beri á njósnurum, upp-
ljóstrurum og öðrum samverka-
mönnum öryggislögreglu kommún-
ista. Í Tékklandi komust menn
snemma að þeirri niðurstöðu að
skaðlegt myndi reynast samfélaginu
að efna til réttarhalda og uppgjörs.
Horfa bæri til framtíðar í þessu efni
sem öðrum. Í Slóvakíu var svipuð
leið farin. Í Ungverjalandi og Rúm-
eníu glíma menn enn við hina komm-
únísku fortíð og í þessum ríkjum
valda upplýsingar um samstarf
stjórnmálaleiðtoga og annarra þjóð-
þekktra manna við öryggislögreglu
kommúnista reglulega uppnámi.
Uppgjör talið nauðsynlegt
Hvergi hefur þó verið gengið
lengra í þessu efni en í Póllandi. Þar
hafa forsetinn og forsætisráð-
herrann, bræðurnir Lech og Jaros-
law Kaczynski, skorið upp rétt-
nefnda herör gegn samstarfs-
mönnum kommúnista. Í júlímánuði á
nýliðnu ári samþykkti þing landsins
lög sem gera stjórnvöldum og at-
vinnurekendum kleift að víkja sam-
verkamönnum öryggislögreglunnar
úr starfi. Bræðurnir sem eru einlæg-
ir trúmenn og þjóðernissinnar fylgja
þeim „skóla“ sem boðar að slíkt upp-
gjör sé nauðsynlegur liður í framþró-
un samfélagsins og regluverki þess.
Ákaft er nú hvatt til þess að saga fjöl-
margra stjórnmálamanna, blaða-
manna, listamanna og skriffinna
verði tekin til ítarlegrar skoðunar.
Fjölmargir hafna á hinn bóginn
þessari nálgun og telja að kristnum
mönnum beri að fyrirgefa misgjörðir
meðbræðra sinna. Skrifað stendur:
„Ef þér fyrirgefið mönnum mis-
gjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar
himneskur fyrirgefa yður,“ (Matt.
6:14). Að auki sé það einungis til
skaða fallið að efna til „nornaveiða“.
Mál Stanislaws Wielgus var að
margra mati fallið til að kljúfa kat-
ólsku kirkjuna í Póllandi og þar með
þjóðina alla. Í Póllandi búa rúmlega
38 milljónir manna og um 90% þjóð-
arinnar játa katólska trú. Um helm-
ingur Pólverja sækir messu.
Nú þegar fyrir liggur að Wielgus
verður ekki erkibiskup Varsjár
spyrja margir í Póllandi hvort ráða-
mönnum kirkjunnar beri ekki að líta
í eigin barm. Furðu hefur vakið að
kirkjan skyldi standa þétt að baki
Wielgus þegar ásakanir á hendur
honum komu fram. Spurt er hvort
forustumenn kirkjunnar skorti
„jarðsamband“ og er þá vísað til þess
að Páfagarður hafi í raun leyst úr
vanda þessum með því að fallast á af-
sögn erkibiskupsins. Skoðanakann-
anir hafa leitt í ljós að yfirgnæfandi
meirihluti pólsku þjóðarinnar getur
ekki fellt sig við að fyrrum sam-
starfsmenn SB-öryggislögreglunnar
(p. „Sluzba Bezpieczenstwa“) gegni
háum embættum innan kirkjunnar.
Þar eystra telja margir að „lýðræðis-
væðing“ innan katólsku kirkjunnar
sé nú óhjákvæmileg.
Hafa ber í huga í þessu viðfangi að
hvergi í ríkjum Evrópu er katólska
kirkjan svo áhrifamikil sem í Pól-
landi. Saga kirkju og þjóðar verður
ekki sundur slitin. Í seinni tíð ber
ekki síst að rekja þessa stöðu til
þeirrar eindregnu afstöðu sem kirkj-
an tók gegn hugmyndafræði og
stjórnkerfi kommúnismans. Kirkjan
studdi Samstöðu, óháðu verkalýðs-
hreyfinguna, dyggilega á níunda ára-
tugnum í Póllandi. Hún veitti menn-
ingarlega og siðræna leiðsögn og
Pólverjar eru stoltir af því að hafa
verið í fararbroddi þjóða álfunnar er
þær leituðust við að hrinda af sér oki
kommúnismans. Hinn pólski Jó-
hannes Páll II páfi var andlegur
stefnuviti þjóðarinnar og fullyrða má
að heimsókn hans til fósturjarðar-
innar í júnímánuði árið 1979 hafi
markað þáttaskil í þeirri baráttu.
Í ljósi þessa vekja viðbrögð kat-
ólsku kirkjunnar í Póllandi við máli
Wielgus enn meiri furðu. Honum var
ekki ætlað að leysa smámenni af
hólmi; Wielgus átti að verða eftir-
maður Jozefs Glemp kardínála sem
nýtur mikillar virðingar fyrir fram-
lag sitt sem einn af andlegum leið-
togum frelsisbaráttu þjóðarinnar.
Auk þeirra Glemps og Jóhannesar
Páls II ber og að nefna hér til sögu
katólska prestinn Jerzy Popieluszko
sem var nátengdur Samstöðu og
pólskir öryggislögreglumenn myrtu
í októbermánuði árið 1984. Hann er
nú haldinn í tölu hinna blessuðu.
Katólska kirkjan í Póllandi átti því
glæsta og mikilvæga arfleifð að verja
þegar Benedikt páfi tilnefndi Stan-
islaw Wielgus erkibiskup af Varsjá 6.
desember. Þegar ásakanir um
myrka fortíð hans birtust fyrst
tveimur vikum síðar kölluðu þær
fram heiftarleg viðbrögð af hálfu
margra biskupa, presta og katólskra
blaðamanna, sem komu Wielgus til
varnar. Dagblaðið Gazeta Polska
birti 4. þessa mánaðar 68 síðna
skýrslu um Wielgus og eftir það varð
ljóst að hann gæti aldrei tekið við
embætti erkibiskups.
Upplýsingar þessar er að finna í
skjalasafni svonefndrar Minningar-
stofnunar Póllands (p. „Instytut Pa-
mieci Narodowej“) sem komið var á
fót árið 1998 í því skyni að rannsaka
glæpaverk sem unnin voru í nafni
nasisma og kommúnisma þar eystra.
Í skjölunum kemur m.a. fram að
Wielgus féllst árið 1967 á að starfa
fyrir öryggislögregluna en þá var
hann 28 ára gamall heimspekinemi.
Þar er og að finna upplýsingar sem
gefa til kynna að samstarfið hafi ver-
ið náið á níunda áratugnum.
Wielgus hélt því fram að hann
hefði aldrei verið samverkamaður
öryggislögreglunnar. Hann hefði á
hinn bóginn jafnan átt fundi með
starfsmönum þessarar hötuðu stofn-
unar áður en hann fór til útlanda. Á
þessum árum fengu Pólverjar ekki
leyfi til að fara úr landi án þess að
ræða við fulltrúa SB og gilti það
einnig um kirkjunnar menn.
Föstudaginn 5. janúar viður-
kenndi Wielgus á hinn bóginn að
hafa starfað fyrir öryggislögregluna
en kvaðst jafnframt sannfærður um
að hann hefði með þeirri framgöngu
sinni aldrei skaðað nokkurn mann.
„Ég játa mistök þau sem ég gerðist
sekur um fyrir mögum árum líkt og
ég hef játað fyrir yðar heilagleika,“
sagði m.a. í bréfi því sem Wielgus
sendi Benedikt páfa og hann las upp
á sunnudag.
Tíundi hver prestur sam-
verkamaður öryggislögreglu?
Framganga Páfagarðs í máli
þessu hefur og vakið nokkra undrun.
Með ólíkindum þykir að ráðamönum
þar hafi ekki verið kunnugt um fortíð
erkibiskupsins. Spurt er hvort Bene-
dikt páfi hafi kosið að líta framhjá
staðreyndum málsins og þá ef til vill
sökum vináttu við Wielgus. Tals-
menn Páfagarðs fullyrða að þar á bæ
hafi upplýsingar um Wielgus komið
mönnum í opna skjöldu en margir
telja þá staðhæfingu ósannfærandi.
Í Póllandi er það hald sérfróðra að
tíundi hver prestur katólsku kirkj-
unnar hafi verið samverkamaður ör-
yggislögreglunnar. Lög þau sem
minnst var á hér að ofan ná á hinn
bóginn ekki til þjóna kirkjunnar sem
fram til þessa hafði komið sér hjá því
að ræða tengsl fulltrúa stofnunarinn-
ar og stjórnvalda í tíð kommúnista.
Hugsun Kaczynski-bræðra var enda
sú að hlífa kirkjunni við þess háttar
uppgjöri. Nú hefur orðið breyting
þar á en margir hvetja til þess að
varlega verði farið og fyrirgefningin,
einn af hornsteinum kristinnar trú-
ar, verði höfð að leiðarljósi. Í þeim
hópi er Jozef Glemp kardínáli sem
telur að dómur hafi verið kveðinn
upp yfir Wielgus á afar hæpnum for-
sendum.
Öryggislögreglan lét til sín taka á
öllum sviðum samfélagsins í valdatíð
kommúnista. Rannsóknir hafa leitt í
ljós að ástæða er til að efast um
margt það sem kemur fram í skrám
þessara illræmdu stofnana. Skrám
var breytt og án nokkurs vafa er þar
að finna slúður, ýkjur og bláberan
tilbúning sem runninn er undan rifj-
um óvina viðkomandi einstaklinga
eða starfsmanna sem reyndu að rétt-
læta tilveru sína og ganga í augun á
yfirboðurum. Vandinn er því ekki
síst sá að leggja mat á raunverulegt
„framlag“ viðkomandi til eftirlits-
þjóðfélagsins og hversu viljugur við-
komandi var til starfans.
Á grundvelli þessa vilja stjórnvöld
í Póllandi leggja mat á hvort tiltek-
inn einstaklingur sé fær um að sinna
tilteknu starfi þótt ekki hafi verið í
ráði að láta slíkt uppgjör taka til
kirkjunnar. Í máli Stanislaws Wiel-
gus er niðurstaðan skýr og um leið
þykir sýnt að búast megi við frekari
„hreinsunum“ innan katólsku kirkj-
unnar í Póllandi. Fjölmiðlar þar fara
nú hamförum, Janusz Bielanski, pró-
fastur í Kraká, hefur neyðst til að
láta af embætti sökum ásakana um
að hafa verið meðreiðarsveinn SB og
vera kann að forystumenn katólsku
kirkjunnar í landinu standi frammi
fyrir erfiðu uppgjöri við fortíðina.
Herför Kaczynski-bræðra kann því
að reynast þeim bjúgverpill sem hitt-
ir fyrir vini þeirra innan kirkjunnar
og að lokum þá sjálfa.
Pétur spurði Krist hversu oft hann
ætti að fyrirgefa bróður sínum mis-
gjörðir. Pétur virtist telja sjö sinnum
við hæfi en fékk það svar að „sjö
sinnum sjötíu“ væri til vitnis um
rétta kristilega afstöðu. Krafan um
fyrirgefningu er afdráttarlaus og
ekki sú eina sem mannfólkið fær
tæpast staðið undir.
REUTERS
Afsögn Stanislaw Wielgus (fyrir miðju) kemur til messu í dómkirkjunni í Varsjá um liðna helgi. Wielgus greindi frá því að hann gæti ekki þegið embætti erkibiskups vegna ásakana um að hann
hefði verið samverkamaður öryggislögreglu kommúnista. Wielgus telur að hann hafi engan skaðað en í Póllandi er það hald manna að Páfagarður hafi hvatt Wielgus til að hafna embættinu.
Í HNOTSKURN
»Stanislaw Wielgus fæddist23. apríl 1939 í þorpinu
Wierzchowiska nærri borg-
inni Lublin í Póllandi.
»Hann þáði prestsvígslu ár-ið 1962. Árið 1973 þegar
hann var kennari við Katólska
háskólann í Lublin fékk hann
styrk til framhaldsnáms í
Þýskalandi. Þá hóf hann að
starfa fyrir öryggislögregl-
una. Í Þýskalandi kynntist
hann Joseph Ratzinger, nú-
verandi páfa.
»Wielgus varð rektor há-skólans í Lublin árið 1989
og tíu árum síðar biskup borg-
arinnar Plock. Því starfi sinnti
hann þar til páfi útnefndi hann
erkibiskup Varsjárborgar.
Reuters
Hreinsanir Lech Kaczynski forseti
hugðist hlífa kirkjunnar þjónum.
Skuggi sögunnar
ERLENT»
Erfitt uppgjör við hið liðna kann að
bíða katólsku kirkjunnar í Póllandi
Erlent | Katólska kirkjan í Póllandi var í kalda stríðinu tákn andófs, en eftir að verðandi erkibiskup þurfti að draga
sig í hlé vegna ásakana um sasmtarf við öryggislögreglu blasir við uppgjör. Kóngafólkið | Verðandi prinsessa fær
ekki frið. Tækni | Iphone er blanda af síma, tölvu og ipod. Svipmynd | Getur Beckham komið knattspyrnu á kortið í Bandaríkjunum?
VIKUSPEGILL»