Skinfaxi - 01.10.1937, Blaðsíða 35
SKINFAXI
131
Smábárur grúfðu við grænleit sker
og grétu við lón og flúð.
Á sundinu skriðu skipin tvö
í skrautklæðum, stillt og prúð;
tindarnir hurfu, en hafið lék
á haustsins fiðlu — í ró,
og dagskrúðans bjarmi hugann hreif,
er hafgolan andann dró.
Á skipi þínu var þögn og kyrrð,
og þorrið var glens og fjör.
Sorgbitnum augum þú horfðir heim
um hafið — svo frjáls og ör.
Þá leyndist eigi hin ljósa þrá,
er ljúfast í hug þér brann.
Hin ljóðsterka, sanna ættlands ást
sinn auð við þitt hjarta fann.
Og höfgur blærinn um hár þitt rann
og hönd þína kyssti blítt;
hann söng þér kvæði um sólrík kveld
og sumarið bjart og hlýtt ....
Þá sagði ég hryggur: Hræðstu ei
þín hraun eða brunasand;
þín ást er ei tengd við auð og frægð,
en aðeins þitt föðurland.
Svo fjarlægðust skipin, hægt og hljótt,
og hurfu í blámann yzt.
Sál mín var ung, á leið út i lönd,
er löðuðu drauma-kysst.
Hið innra var líf mitt laugað þrá
til lífsins í feðra byggð.
Sólgeislar léku við báru brot
og brostu — í sælli hryggð.........
9*