Sjómannablaðið Víkingur - 01.12.1946, Blaðsíða 37
— Lízt þér kannske ekki á hann? spurði Árni.
— 0g hann gerir bölvað veður, því máttu
trúa, — norðan áhlaup og manndrápsveður,
sagði Hermann.
— Það ratast oft kjöftugum satt á munn,
því er ver. En hvað hefur það að segja fyrir
ykkur, þessa hraustu menn. Þið verðið líklega
ekki hræddir, þótt gutli á.
— O, ætli það, sagði Hermann og spýtti, —
en þá er ekki verra að hafa þig með.
— Verið þið ekki að þessu kjaftamagni, kall-
aði formaðurinn, — við skulum ýta í guðsnafni,
— hinir eru löngu farnir.
Þeir reru út með landi. Logn var, en vottaði
fyrir undiröldu strax og kom út að Núpstöng-
um, utan víkurinnar. Þaðan reru þeir til hafs, en
sveigðu heldur til vesturs. Til austurhafsins sást
örla fyrir þokubakká, og dökk blika var yfir
norðurf jöllum. Þeir reru lengst af þegjandi, tóku
löng árartog, hölluðu sér langt aftur á bak í
sæti, rykktu sér út á hliðina, um leið og þeir
luku árartoginu, og skældu sig í andliti, hver á
sinn hátt. Gísli reri miðskipa á bakborð. Hann
mælti ekki orð að fyrra bragði, og andlit hans
bar óvenjulega hörkulegan svip. Einstaka sinn-
um rufu þeir Hermann og Árni þögnina.
— Þetta er meiri þrældómurinn, Gísli. Eru
ekki handleggirnir alveg að detta af þér? lcall-
aði Árni.
— Ég ræ ekkert, sagði hann og snippaði við.
— Þið róið.
— Ætlarðu að svíkjast um, helvízkur! sagði
Hermann.
— Ég hefi ekkert að svíkja, — þið hafið kraft-
ana.
— Nú fáum við suðaustan spýju í land, karl
minn, hélt Hermann áfram, —• og þá er bezt
fyrir þig að binda handleggina við þig, svo að
þú missir þá ekki út með árinni.
— Þið haldið ykkar, og það er ekki hætt við,
að við komumst ekki á þeim í land.
Nú reis formaðurinn upp í sínum myndugleik
og bannaði að vera með nokkrar hrakspár á
sjó, slíkt væri ekki kristinna manna siður og
mundi hefnast fyrir.
Þegar róið hafði verið tæpa tvo tíma undan
Núpstöngum og komið var niður á ljóst Bratta-
nes að vestan og Hvassanúp að austan, þótti
Halldóri nógu langt róið, enda sást nú til hinna
bátanna tveggja. Þeir voru litlu austar og sýnd-
ust langt komnir að leggja.
Enn var sama lognið, en bakkinn til hafsins
fór hækkandi og undiraldan þyngdist.
— Haldið þið, að hann ætli strax að rjuka
upp aftur?, spurði Iialldór, þegar hann hafði
lagt átta lóðir.
Bakkinn færðist nær, og Halldóri sýndist ekki
betur en hinir væru strax farnir að draga.
— Það þarf víst ekki að efa það, að þetta veð-
ur helzt ekki lengi, sagði Gísli.
— Þú heldur það, sagði Halldór. — Ætli hann
hangi samt ekki uppi fram eftir deginum eftir
öll þessi ósköp?
— Þú ætlar þó ekki að láta karlfjandann telja
úr þér kjark? sagði Hermann.
— Við stingum upp í hann, ef hann ekki þeg-
ir, bætti Árni við.
— Þið eruð nú svo miklir menn, að Halldór
veit, hvað hann má sín. En ég hélt, að hver mað-
ur sæi útlitið.
— Ég veit ekki, hvað gera skal, sagði Halldór.
— Mér sýnist þeir vera farnir að draga, hinir,
og það er satt, að hann fer ljótkandi.
— Til hver andskotans á maður að vera að
hanga við róðra, ef maður notar ekki góðviðrið?
sagði Hermann.
— Það er bezt að leggja lóðirnar í flórinn hjá
Gísla, sagði Árni.
— Það er nú leiðinlegt, að koma ekki lóðunum
í sjóinn, þá einu sinni að farið er, sagði Há-
varður.
— Nú, við rífum þær þá strax inn, ef okkur
lízt svo á, sagði Jónas.
Halldór hélt áfram að leggja.
Þeir tóku upp nesti sitt, meðan þeir höfðu
leguna, og lék sumum forvitni á að sjá, hvað
geymdist í skjóðu Gísla bónda. En hann sýndi
þorskhaus, hálft flatbrauð og lýsisbræðing. í
skjóðuna fékk enginn að sjá. Að lokum brá hann
höfði í skjóðuopið, þar sem hann hafði komið sér
fyrir fram í barka, og sá þá enginn, hvað hann
hafðist að. Og áður en fengist úr því skorið,
kallaði annað til aðgerða.
Veðrabrigði voru nú auðsjáanlega nærri.
Bakkinn til hafsins færðist óðfluga nær, teygð-
ist upp á loftið og sendi út framsveitir sínar,
svarta skýflóka, sem tættust sundur og færðust
saman á víxl með þeysings hraða. Snarpar vind-
þotur gáruðu sjóinn.
■— Við skulum róa að duflinu, sagði Halldór
formaður og kenndi áhyggju í málrómi og svip.
Þegar þeir höfðu dregið fyrstú lóðirnar, sáu
þeir, að undið var upp segl á hinum bátunum,
og stefndu þeir báðir til lands.
— Svona er að komast seint á sjóinn, sagði
Halldór, um leið og hann goggaði inn ýsuseiði.
— Það eigum við vini okkar að þakka, sagði
Hermann, sem dró lóðina.
Það var reytingslegur afli, og þeir drógu lóð-
ina í kapp við komandi óveður. Þegar allar lóð-
irnar voru komnar inn, var komið drifaveður,
úfinn sjór og sortabylur. Halldór hlessti sér
niður á þóftuna. Andlit hans var teygt, meðan
hann skimaði út í sortann.
— Hvað skal nú gera? sagði hann, eins og
meira við sjálfan sig en hina.
V I K I N G U R
325