Andvari - 01.06.1966, Blaðsíða 105
ANDVARI
BLÓÐ OG JÁRN FYRIR EINNI ÖLD
103
þessu rétta hinni borgaralegu stjórnar-
andstöðu sáttarhönd. En hönd hans var
klædd járnglófa og hann náði slíku taki
á borgaralegu frjálslyndi Þýzkalands, að
það fékk aldrei losað sig úr krumlu hans.
Þegar fulltrúadeild Landsþingsins veitti
Prússakonungi aflát eftir sigurinn hjá
Königgratz viðurkenndi hún sjálf póli-
tískan ósigur sinn. Bismarck gaf borgara-
stéttinni þær sárabætur að framkvæma
höfuðverkefni byltingar sjálfrar hennar
að stnum hætti, hætti hins prússneska
junkara. Ungur hafði Bismarck kallað
þýzku borgarana skraddara. Þegar lífs-
hlaup hans var á enda runnið voru þessir
skraddarar orðnir að einhverri auðugustu
og þóttamestu borgarastétt Evrópu, og
sjálf bar hún þá nokkurn keim af þeim
junkara, er hafði sameinað handa henni
Þýzkaland. Því framar öllum öðrum stétt-
um nutu borgararnir ávaxtanna af því
sögulega afreki, er Bismarck vann.
I upphafi þessa máls var drepið á
örlögin í sögu Þýzkalands. Um það verð-
ur ekki deilt, að Bismarck varð þýzku
þjóðinni mikill örlagavaldur og enn í
dag ber hún merki fingrafara hans. En
sjálfur var Bismarck háður sögulegum
örlögum — kannski í ríkara mæli en
nokkur annar stjórnmálamaður Evrópu
honum samtíða. Hann hóf pólitískan
feril sinn með því að ganga fram fyrir
skjöldu og verja prússneska fortíð, lénska
miðaldahætti riddaragóssanna, fríðindi
aðals í ríki og þjóðfélagi, og sameiginlegt
tákn alls þessa: konungsvald Prússlands.
Og hann hjó í hið sama far, er hann fékk
tekið þátt í leiknum búinn því valdi
er ráðherradómur og kanslaraembætti
veittu honum. En þær sögulegu dáðir er
hann drýgði fóru allar á einn veg: að
alefla og örva vöxt og viðgang borgaralegs
þjóðfélags og borgaralegra lífshátta, sem
honum var í nöp við allt til enda, voru
honum persónulega framandi og jafnvel
fjandsamlegur heimur. Um þetta fékk
hann engu ráðið: hann hafði að vísu náð
handfesti á klæðafaldi þess drottins, er
sögunni stjórnar, en síðan réð Bismarck
ekki förinni. Og þegar ríki Bismarcks,
Annað ríkið í sögu Þýzkalands, brotnaði
í spón í lok styrjaldar og í upphafi bylt-
ingar 1918, sökk dýrð furstanna, kon-
unganna og keisarans sjálfs í djúpið, en
uppi stóð Þýzkaland borgarastéttarinnar.
í ljósi þessa er stjórnmálasaga Bismarcks,
hins ofstækisfulla junkara, sem varð ein-
hver mesti byltingarmaður í sögu Þýzka-
lands, þótt hann bæri gagnbyltingu stétt-
ar sinnar í hjarta sér, bæði heillandi og
forvitnileg.