Andvari - 01.06.1966, Blaðsíða 67
ANDVARI
ÞAK MÁLAÐ
65
nám. Þú getur látið hina krakkana skutlast gegnum alla skóla. Ég fer að vinna
núna eftir skylduna. Ég er búinn að segja það. Ég veit svo ekki hvað ég geri
seinna.
Víst ertu fær um þaÖ, hrópar móðirin. Miklu færari en systkini þín. Þú
bara vilt það ekki. Vilt bara slugsa og slagsa án þess að nenna að leggja nokkuð
á þig.^
Ég vil mála þakið, anzar pilturinn, allt í einu heiíur og espur. Ég vil ekki
hlusta á þetta lærdómsstagl alla daga. Ég er farinn.
MóÖirin gengur enn í veg fyrir hann.
Þú málar ekkert þak.
Víst, pabbi var húinn að leyfa það, áður en þú komst og fórst að skammast
og rífast. — Hann ýtir við móður sinni.
Hann átti ekkert með að leyfa það, æpir móðirin.
Pilturinn snýr sér við í dyrunum, horfir forviða á móður sína.
Hann átti ekkert með það, emjar móðirin frávita af hugaræsingu. Hann
getur ráðskazt með hina krakkana, en þig varðar hann ekkert um.
Hann er þó pabbi minn, segir pilturinn óeðlilega stillt.
Hann er ekkert pabbi þinn. Um leið og konan hefur sleppt orðinu, dregur
úr henni allan mátt; hún hörfar aftur á bak og lyppast niður á eldhúskoll.
Pilturinn gengur hægt og seint til móður sinnar, þar sem hún hímir á
stólnum, stígur þungt í fætuma, stendur ógnandi yfir henni.
Það er þá satt, tautar hann milli samanbitinna tanna. Það er þá satt.
Það er þá satt.
Móðirin lítur á hann, skelkuð og örvita, másar óðamála:
Nei, Hallmundur, nei, ég meinti þetta ekki, nei, nei, en þú mátt ekki fara
þér að voða, þú mátt ekki fara þér að voða.
Það er þá satt, tautar pilturinn enn og hefur upp höndina, eins og til höggs.
Kannski er ég þá útlendingsgerpi, eins og krakkarnir kölluðu mig, meðan þau
þorðu til við mig, þegar þau urðu vond.
Nei, Hallmundur, nei, fyrirgefðu mér, ég ætlaði ekki að segja þetta.
En þú hefur alltaf gegnt mér. Þú mátt til að gegna mér. Röddin er gráti nær
og svipurinn aumkunarverður og biðjandi.
Hann horfir á hana um stund, stífur eins og steyptur í mót, höndin hefur
staðnæmzt hátt uppi. Svo slakar hann á, sígur saman, tvílráður og hvarflandi.
Konan tekur varfærnislega í hönd hans, og þá rankar hann snögglega við
sér. Hann ýtir hendi hennar hrottalega frá sér, hefst upp að nýju, snýst á hæli
og stmnsar til dyra. í dyrunum snýr hann sér við, segir fast og þungt:
5