Andvari - 01.01.2002, Qupperneq 34
32
SIGURÐUR RAGNARSSON
ANDVARI
hafði meirihluti alþingis hafnað tillögu um stofnun menntaskóla á
Akureyri. Varð því að ráði að hefja kennslu í réttindalausri lærdóms-
deild haustið 1924. Sigurður Guðmundsson leitaði eftir því, að vænt-
anlegir nemendur lærdómsdeildarinnar fengju að loknu ársprófi 4.
bekkjar að setjast í 5. bekk Menntaskólans í Reykjavík, en kennara-
fundur MR synjaði þeirri beiðni. 22 nemendur hófu nám í framhalds-
deildinni haustið 1924, næsta ár lásu 12 nemendur 5. bekkjarfræði og
vorið 1927 fóru sex af þeim níu nemendum, sem þá sátu í 6. bekk,
suður til að þreyta stúdentspróf. Þeir stóðust það allir, þótt þeim væri
gert að skila öllu námsefni þriggja ára til prófsins. Þessi frammistaða
sýndi ótvírætt, að kennarar Akureyrarskóla voru færir um að búa nem-
endur undir stúdentspróf, og hún átti sinn þátt í að menntaskólamálið
komst í höfn. Það gerðist þegar Jónas Jónsson lét það verða eitt sitt
fyrsta embættisverk sem kennslumálaráðherra haustið 1927 að gefa út
ráðherrabréf, sem veitti Gagnfræðaskólanum á Akureyri heimild til að
brautskrá stúdenta.
Einari var ætlað að kenna dönsku, ensku og þýsku í 4. bekknum,
sem settist í skólann haustið 1924, og síðan í hinum bekkjunum, en
einnig kenndi hann fornaldarfræði. Hafði hann mikla ánægju af að
vinna að uppbyggingu og þróun hins nýja menntaskóla. Pálmi Hann-
esson, síðar rektor MR, kom brátt að skólanum líka. Hann var á
þessum árum eindreginn kommúnisti og tók mjög virkan þátt í starfi
Jafnaðarmannafélagsins. Kveður Einar hann hafa verið sér nánastan af
pólitískum félögum sínum á þessum árum, en einnig stóð hann í reglu-
legu bréfasambandi við fornvin sinn og félaga, Stefán Pjetursson, sem
enn var við nám erlendis.12) Aldarfjórðungi síðar, eftir að Sigurður
Guðmundsson hafði látið af embætti og flust suður, hittust þeir Einar
á förnum vegi í Austurstræti og tóku tal saman. Þá sagði Sigurður:
„Alltaf fannst mér skólinn bestur hjá mér meðan ég hafði ykkur Pálma
báða“. Þau orð eru til marks um, að leikið hefur ljómi um þessi fyrstu
brautryðjenda- og baráttuár í huga hins aldna meistara. Einar gegndi
kennarastarfinu við Gagnfræðaskólann til ársins 1928, er hann var ráð-
inn einn af forstjórum Síldareinkasölunnar. Við starfslok hans komst
Sigurður skólameistari svo að orði um feril hans við skólann: „Er skól-
anum mikil eftirsjá að svo dugandi kennara, kappsömum og fylgnum
sér í starfinu“.13)
Starfsþrek og eldmóður Einars þessi árin hefur verið með hreinum
ólíkindum, því að auk starfa sinna að kennslu, stjórnmálum og