Andvari - 01.01.2002, Side 68
66
SIGURÐUR RAGNARSSON
ANDVARI
þeirra. „Þegar merkjasölustaðir voru opnaðir, þyrptist þangað múgur
manns og varð sala merkja og myndanna gífurlega mikil, svo að
óvenjulega margir sáust bera merki 1. maí þennan dag.“9)
Það er af þeim þremenningum að frétta, að eftir að til Skotlands
kom, voru þeir fluttir með lest frá Glasgow til London, þar sem þeir
voru vistaðir í Royal Patriotic School, kvennaskóla í suðurhluta borg-
arinnar. Þar upplifðu þeir svæsnar loftárásir Þjóðverja á borgina, en
orustan um Bretland var þá enn í algleymingi. Meðan þeir dvöldust í
kvennaskólanum, náðu þeir fundi Péturs Benediktssonar, sendifulltrúa
íslendinga í Bretlandi, og einnig tókst þeim að koma bréfi til Williams
Gallachers, þingmanns breska Kommúnistaflokksins, sem tók mál
þeirra upp í breska þinginu. Hinn 6. júní voru þeir félagarnir fluttir til
dvalar í Brixtonfangelsi í miðri London, en þar höfðu pólitískir fangar
löngum verið vistaðir. Þeir voru settir hver í sinn einkaklefa, og þar
urðu þeir að dúsa 19 tíma á sólarhring. Tvisvar á sólarhring var föng-
unum leyft að fara út undir bert loft í fangelsisgarðinum, hálftíma í
hvort skipti. Sigurður Guðmundsson, blaðamaður og síðar ritstjóri, gaf
Einari síðar þá einkunn, að hann hefði verið „fyrirmyndar tugthúsfé-
lagi“. Fleiri voru greinilega sama sinnis, því að Einar var ekki búinn að
vera lengi í Brixtontugthúsi, þegar grískir og pólskir sjómenn, sem
kunnu nær enga ensku, voru famir að leita til hans með að skrifa fyrir
sig bréf til Herberts Morrisons, innanríkisráðherra Breta, til að leita
skýringa á þeim misskilningi, að þeir skyldu teknir fastir.l0) Sunnudag-
inn 22. júní fór Sigfús, sem var guðfræðingur að mennt, til messu í
fangelsiskirkjunni. Þegar hann kom til baka, gat hann sagt félögum
sínum þau tíðindi, að þennan sama dag hefðu Þjóðverjar gert innrás í
Sovétríkin. Brátt tók að styttast í fangavistinni. I tengslum við gerð
herverndarsamningsins við Bandaríkin í júlí 1941 gerði ríkisstjórn
Islands þá kröfu, að Bretar létu lausa íslenska þegna, sem sætu í
breskum fangelsum, og í samræmi við það voru þeir Þjóðviljamenn
látnir lausir. Þeir komu heim 3. ágúst og hófu fljótlega störf við Nýtt
dagblað, sem Gunnar Benediktsson hafði gefið út frá 1. júlí til að láta
reyna á blaðabann Breta. Þeir létu kyrrt liggja, þótt hér væri nánast um
að ræða Þjóðviljann í dularklæðum. Þjóðviljinn kom hins vegar ekki
aftur út undir eigin nafni fyrr en 13. maí 1942.
A árunum 1941-1942 varð grundvallarbreyting á pólitískri vígstöðu
Sósíalistaflokksins. Að þeirri breytingu stuðluðu atburðir jafnt á inn-
lendum sem erlendum vettvangi. Vaxandi óánægja var með stefnu