Andvari - 01.01.2002, Qupperneq 172
170
JÓN Þ. ÞÓR
ANDVARI
Handritasafn Hins íslenska bókmenntafélags varð honum einnig drjúgt til
fanga og niðurstöður rannsókna sinna bar hann jafnan saman við niðurstöð-
ur og röksemdafærslu annarra fræðimanna, sem ritað höfðu um hliðstæð efni
annars staðar á Norðurlöndum. Hann gagnrýndi ýmsar hugmyndir þeirra um
húsagerð á Islandi á söguöld og færði fram nýjar kenningar og hugmyndir,
sem vörpuðu nýju ljósi á viðfangsefnið. Þar naut hann þess að hafa betri
þekkingu á íslenskri tungu en ýmsir fyrri höfundar og þekkti íslenskar heim-
ildir betur. Þá var honum og styrkur að því að þekkja af eigin raun lokastig
þeirrar húsagerðar, sem hann fjallaði um, og jafnframt stóð hann í bréfaskipt-
um við ýmsa eldri menn, sem sumir höfðu fengist við húsagerð, búið í torf-
bæjum og unnið að byggingu þeirra.
Ymsum kann að þykja heimildaval Valtýs býsna einhliða og víst er, að nú-
tímafræðimenn mundu hika við að byggja svo mjög á fornritum og -kvæð-
um. Þessar heimildir geyma þó margvíslegan fróðleik og lýsingar þeirra á
ýmsum þáttum daglegs lífs, þ. á m. húsagerð og híbýlaháttum, geta verið
giska sannferðugar. Ber þá og að hafa í huga, að þeir, sem hugðust rannsaka
þetta viðfangsefni, höfðu að fáum öðrum heimildum að hverfa. Fornleifa-
rannsóknir á Islandi voru enn skammt á veg komnar og þær rannsóknir, sem
gerðar höfðu verið, voru undantekningarlítið unnar af áhugamönnum, sem
ekki höfðu numið fornleifafræði. Valtýr notfærði sér þó þessar rannsóknir,
þar sem því varð við komið, en hafði tilhneigingu til að bera þær saman við
ritheimildir. Eins og fleiri íslenskir fræðimenn, fyrr og síðar, treysti hann rit-
uðum heimildum betur en fornleifarannsóknum og greip gjarnan til
orðskýringa til að færa enn betri rök fyrir máli sínu. Engu að síður gerði hann
sér ljóst, að ekki inátti taka frásagnir ritheimilda of bókstaflega. Eins og góð-
um fræðimanni sæmdi, rýndi hann heimildir sínar, bar þær saman og reyndi
ávallt að finna sem flest dæmi er stutt gætu röksemdir hans. í ritgerðinni var
að finna allmargar skýringamyndir og uppdrætti, er sýndu húsaskipan og
húsagerð Islendinga á söguöld, og jafnframt hafði hún að geyma nokkrar
ljósmyndir.
Doktorsritgerð Valtýs var vitaskuld barn síns tíma og um flest ólík þeim
ritsmíðum, sem nú eru settar saman og lagðar fram til doktorsvamar. Hann
dregur ekki saman niðurstöður nema að mjög takmörkuðu leyti og setur ekki
fram neina heildarkenningu. Meginmarkmið hans var að sýna hvernig húsa-
gerðinni hefði verið háttað, að draga fram sem mestar upplýsingar og skýra
sem ítarlegast og nákvæmast frá viðfangsefninu og staðreyndum þess. Var
það í fullu samræmi við þá stefnu, sem efst var á baugi í evrópskum sagn-
fræði- og þjóðfræðirannsóknum á þessum tíma.