Andvari - 01.01.2002, Side 186
184
GUÐRÚN KVARAN
ANDVARl
1924, og miklu efni var bætt í próförk alveg fram á síðustu stundu. Alls eru að
sögn Bjargar um 500 rit í heimildaskrá. „Hafa margir átt hjer hlut að máli, sem
nærri má geta“ (1928:2). Sjálf hef ég talið titlana og eru þeir 399 og hlýtur
Björg að eiga við bindi en ekki einstök ritverk (Guðrún Kvaran 1997:12).
Ekki verður með neinni vissu komist nær um hlutdeild Bjargar í orðtöku og
dæmaleit á um 17 árum en víst er að hún hlýtur að hafa verið mjög veruleg.
Viðtökur og umsagnir
Orðabókin var gefin út í tveimur hlutum. Kom sá fyrri út 1922 og eru til
nokkur bréf sem vitna um viðtökurnar. Svo virðist sem ýmsir hafi fengið
fyrri hlutann sendan sem gjöf frá Sigfúsi og Jóni Ofeigssyni en ekki frá
Björgu. T. d. skrifaði Geir Zoéga 3. september 1922:
... þakka jeg yður fyrir fyrri helming yðar miklu orðabókar, sem Jón Ófeigsson færði
mjer undir yðar nafni og sínu. Mjer þykir vænt um hana. Hún er stórvirki. Þjer hafið
unnið mjög þarflegt og ágætt verk, sem mun verða yður til gleði og ættlandi yðar til
gagns og sóma. Margir þeirra, sem kunna að nota bókina, munu ekki renna grun í hve
mikil heilabrot og andlega áreinslu slíkt verk hefir kostað höfundinn (Lbs. 3461 4to).
Alexander Jóhannesson var einnig meðal þeirra sem fengu bókina að gjöf. í
bréfi frá 2. október 1922 þakkar hann fyrir sig með þessum orðum: „Línur
þessar eiga að færa þér kært þakklæti mitt fyrir orðabók þína er ég fékk senda
frá þér og Jóni Ófeigssyni“ (Lbs. 3467 4to).
Fjölmörg bréf eru til frá Halldóri Hermannssyni prófessor til Sigfúsar
(Lbs. 3462 4to). Þegar hann nefnir orðabókina talar hann alltaf um hana sem
„orðabókina þína“ og hvergi minnist hann á þátt Bjargar. Sama er að segja
um Holger Wiehe. Frá honum eru til á níunda tug bréfa til Sigfúsar og aðeins
í einu er drepið á hlutdeild Bjargar við fjáröflunina.
Áhugavert er að líta í blaðið Óðin árið sem fyrri hlutinn kom út. Þar var
birt mynd af starfsliði því sem vann við orðabókina á íslandi 1917-18. Sagt
er frá því að fyrri helmingur bókarinnar væri nú kominn út og að á tilblaði
séu þrjú nöfn auk nafns höfundarins. Síðan eru þau talin upp „Björg Þ. Blön-
dal, kona höfundarins, Holger Wiehe, þá docent við Háskólann hjer, og Jón
Ofeigsson kennari við Mentaskólann. ... Hefur S.B. lengi unnið að þessari
bók“ (1922:84). Á síðunni á móti er mynd af Björgu ásamt smá texta sem
hefst svona: „Frú Björg Þ. Blöndal, kona Sigf. Blöndals bókavarðar og orða-
bókarhöfundar" (1922:85). Síðan er þess getið hverra manna hún sé, hún hafi
tekið stúdentspróf og heimspekipróf, fengið Hannesar Árnasonar styrk til
frekara náms og sé á Islandi þekkt fyrir þýðingar. Hvergi er minnst á orða-
bókarvinnuna í hátt á annan áratug.