Andvari - 01.01.2005, Síða 94
92
JÓN YNGVI JÓHANNSSON
ANDVARI
eða Mörð Valgarðsson. Mat Jóns Viðars á þessu umdeildasta verki Jóhanns
og túlkun hans á því sætir einna mestum tíðindum af því sem hann segir um
leikrit Jóhanns. Jón Viðar kveður upp um það að Mörður Valgarðsson sé
glæsilegt leikrit og alls ekki jafn gallað og margir gagnrýnendur hafa viljað
vera láta. Líkt og í umfjöllun um Fjalla-Eyvind og Galdra-Loft felst túlkun
Jóns Viðars meðal annars í því að frelsa verkið undan samanburðinum við
fyrirmyndina sem oft hefur kaffært verkið. Umfjöllun Jóns Viðars um Lygar-
ann er miklu traustari en um Galdra-Loft, en þar birtast líka forsendur sem
getur verið erfitt fyrir lesanda sem er Jóni Viðari ósammála í eilífðarmál-
unum að kyngja.
Að mati Jóns Viðars er Mörður Valgarðsson nátengdur öðrum verkum
Jóhanns, verkið fjallar fyrst og fremst um föðurvald sem kann sér ekki hóf og
reynir að beygja allt og alla undir sig. Þetta sýnir Jón Viðar á sannfærandi hátt,
en þar með er ekki öll sagan sögð. Kaflinn sem fjallar um Mörð Valgarðsson
heitir „Hver var lygarinn?“ og svar Jóns Viðars kann að koma á óvart, einkum
ef íslenskur titill verksins er hafður í huga. Að mati hans er Njáll á Bergþórs-
hvoli réttnefndur lygari verksins; vegna þess að Jóhann gerir Njál trúlausan
verður tal hans um trú á landið og friðinn ósannfærandi að mati Jóns Viðars.
Þessu má auðvitað andmæla með því að vitna til klassískrar hefðar harmleiks-
ins og benda á að þótt afleiðingar gerða Njáls séu skelfilegar gerir það hann
ekki að óheilum manni eða skúrki, harmleikir fjalla jú um menn af betra tagi
sem rata í ógöngur, oft vegna ofdrambs. En Jón Viðar gerir persónu Njáls og þá
jarðartrú sem hann boðar að sérstökum andstæðingi kristindómsins og kemst
þannig að þeirri niðurstöðu að í falli Njáls felist sigur Krists:
Hjarta mannsins er og verður samt við sig. Það veit kristindómurinn. Kristinn maður
gerir sér ekki of háar hugmyndir, hvorki um sjálfan sig né meðbræður sína, væntir ekki
of rnikils af þeim. Hann trúir ekki heldur á jarðneskar útópíur. Hann vonar að allt fari á
besta veg en hann reynir einnig að vera undir hitt búinn. Krossferill Krists er og verður
honum eilíft tákn og áminning þess að við lifum í heimi fullum af hatri. Þetta voru
hinum ókunna höfundi Njálu sjálfsagðir hlutir. Hvað með nútímamanninn Jóhann Sigur-
jónsson? Hafði hann loks skilið, eftir allar efasemdir, allan tvískinnung og umbrot, að
maðurinn getur aldrei orðið heill af sjálfum sér einum?13
Þótt það sé hvergi sagt berum orðum, og aldrei sett fram nema í formi spum-
inga, virðist niðurstaða Jóns Viðars sú að Jóhann hljóti að hafa endað ævi
sína sem trúaður maður. Lokaorð bókarinnar gefa þetta sterklega í skyn og
jafnframt felst í þeim ákveðinn dómur um gildi trúarinnar og fordæming á
öðrum lífsviðhorfum en þeim sem höfundur aðhyllist sjálfur.
Maðurinn verður að eiga sér eitthvert hæli, eitthvert athvarf í tilverunni - en það verður
að vera raunverulegt hæli, raunverulegt athvarf. Það dugir ekki að leita á náðir ímynd-
aðrar fortíðarsælu, reyna að lifa á minningu um gullin andartök liðna tímans. En ekki