Skírnir - 01.01.1939, Síða 30
Skírnir
Einar Hjörleifsson Kvaran
27
ympraði ekki einu sinni á því með einu orði, til hvers
henni mundi auðnast að nota valdið“.
Með sögunni Örðugasti hjallinn setti Einar Kvaran í há-
sæti ábyrgðartilfinningu, sjálfsafneitun og samúð. Og nú
tekur hann til athugunar einn af verstu þröskuldunum í
vegi þessara lífsdyggða, freistnina til að eignast vald, án
þess að hugsa um, til hvers það skuli notað. Misbeiting
valdsins hafði Einar Kvaran séð á öllum sviðum, og nú
verður hún honum ljósari en nokkru sinni áður. í næstu
sögu, Fyrirgefning, sem þegar hefir verið ýtarlega á
minnzt, dregur hann svo saman þræði athugana sinna,
sýnir misnotkun valdsins í átakanlegri mynd, misnotkun
þess gegn varnalausum og saklausum smælingja, sýnir,
hvernig hugsunarlaust og samvizkulaust eru jafnvel not-
uð trúarbrögðin, sem eiga að vera manninum það æðsta,
til þess að hrjá og hrella einn af mestu smælingjunum.
I Ólafarhöndunuvi sameinast líkamlegt og andlegt ofbeldi,
ofbeldi persónu, sem falin er forsjá lífsins unga og við-
kvæma gróðrar, og svo er okkur sýnd mótsetningin, mann-
eðlið, eins og það er í raun og veru, þegar það hefir ekki
verið afskræmt til fulls af Ólafarhöndunum, er sýnt okk-
ur með Siggu litlu, sem fyrirgefur og biður fyrir þeirri
manneskju, sem hefir verið henni verst allra og fyllt henn-
ar unga hug af beiskju og kulda. Einar Kvaran lýsir þarna
yfir trú sinni á hið góða í manneðlinu um leið og hann
fordæmir misbeitingu valdsins, andlegs og líkamlegs, og
eignar því afskræmingu hins unga gróðrar.
Þriðja sagan í Smælingjum, Þurrkur, skrifuð 1905, er
einhver frægasta saga Einars, svo stutt sem hún þó er. Og
þetta er ekki að ástæðulausu. Annarsvegar sjáum við iðju-
leysi og allsnægtir, hinsvegar bláfátækan barnamann, sár-
veikan. Ýtandi frá sér áhyggjum og ábyrgð í sambandi
við vandræði þessa manns segir læknirinn við hann:
„Yður legst eitthvað til“.
Maðurinn svarar:
„Mér hefir aldrei lagzt neitt til“.
Fám dögum síðar dó hann, og skáldið spyr: