Skírnir - 01.01.1939, Blaðsíða 35
32
Guðmundur Gíslason Hagalín
Skírnir
áreiðanlegt, að guð væri góður, þar sem hann hafði látið
mig til Þorgerðar, en ekki til Ragnhildar".
Sadismi Þorgerðar kemur greinilega fram þegar hún
finnur sig hafa orðið undir í deilunni við Þórð gamla. Hún
víkur sér þá að sveitardrengnum og skipar honum að vera
um nóttina í niðaþoku yfir ánum uppi í skarði. Og hún
segir:
„— Og þú veizt, hvað við liggur, drengur minn, ef þú
týnir einhverju af þeim“.
Þarna er Ólöf lifandi komin, hvíslandi um flengingu í
eyra Siggu litlu.
Árið 1911 kom svo framhald Ofureflis, skáldsagan Gull,
allstór bók. Þar eru ýmsar ágætar lýsingar, en ekki kemst
sagan samt til jafns við hinar beztu smásögur Einars
Kvarans. Hún er þó betur gerð en Ofurefli, og um lífs-
viðhorf höfundarins er hún hin merkasta. Einmitt í henni
kemur það fram, að höfundurinn hefir nú loks leyst, svo
að honum nægir, hina erfiðu gátu, sem hann og tugþús-
undir annara hafa velt fyrir sér. Hvernig getur guð, ef
hann er almáttugur og algóður, látið allt það viðgangast,
sem fram við mennina kemur — og ef hann ekki er al-
máttugur, er þá til hinn ægilegi myrkrahöfðingi og hin
eilífa útskúfun?
Inn í næstseinasta kafla Gulls er fléttað æfintýri. Þar
er drottinn látinn segja við engil sinn, að hann fyrirgefi
allt. Hann segir þar ennfremur, að hann sé sjálfur með í
leit mannanna að farsældinni. Hann sé sjálfur í sorginni,
sem þeir finni í farsældar stað, og loks segir hann:
„— Eg er sjálfur í syndinni . . .“
Þá féll engillinn fram á ásjónu sína fyrir miskunnsemd-
anna föður, sem hafði tekið sér bústað í öllu — og líka í
syndinni“.
Allt er í hendi guðs og hann er almáttugur og algóður
miskunnsemdanna faðir. Mennirnir þurfa að komast í
þrengingar sorgar og syndar til þess að finna leiðina til
hans. Þessvegna lenda þeir í erfiðleikum, en ekki af því að
hinn algóði og almáttugi guð vilji refsa þeim fyrir mis-