Skírnir - 01.01.1939, Page 43
40
Kristján Albertson
Skírnir
hvaða ástæða var þá til þess að úrskurða, að frá 1835
mætti ekki framar taka nein ný erlend orð upp í málið ?
í snjöllu og viturlegu erindi um Yndilindir orðaforðans,
sem prentað er í Tímariti verkfræðingafélags íslands 1918,
gerir dr. Björn Bjarnason frá Viðfirði grein fyrir rökum
sínum gegn einvaldri hreintungustefnu og kemst m. a. svo
að orði: „Við verðum að gæta að því, að eðlislög og þjóð-
erni málsins er fólgið í málfræðiskerfi þess og hljómeðli,
en ekki í efniviði orðaforðans. Getum við ekki smíðað hag-
virki úr erlendum efniviði eins á því sviði sem öðrum?
Ekki ber því að neita; það hefir reynslan sýnt. Einmitt af
því að eg ann íslenzkunni umfram allt, vil eg ekki láta loka
þeirri leið með þverbanni. Hagsýnis og fegurðarvalið verð-
ur að hafa frjálsar hendur; það mun reynast hollast þeg-
ar öllu er á botninn hvolft. Ef tungumál er algerlega ein-
angrað og á að yngjast upp eingöngu af innlendum efni-
við, getur naumast hjá því farið, að það verði eintrján-
ingslegt og þunglamalegt með tímanum. Á það bendir saga
málanna. Þó að yngilindir þess séu miklar og margbreyti-
legar, geta þær samt reynzt ónógar í mörgu falli og runnið
til þurrðar, ef því bætast engin aðföng utan að. Og hitt er
líka vert að athuga, að heimsmenningin hnígur nú æ meir
og meir í sömu áttina, síðan samgöngur greiddust og sím-
ar tengja eyra við eyra og hönd við hönd, svo að segja
hvarvetna á byggðu bóli. Þjóðunum hlýtur því að verða
töluverður hagur að því að eignast að nokkru leyti sam-
eiginlegan heitaforða á megintækjum og meginhugtökum
þessarar sameiginlegu heimsmenningar ... Alþjóðleg (in-
ternational) lögheiti í listum og vísindum gæti því komið
til mála að taka upp innan vissra takmarka, — en aðeins
alþjóðleg, og þá helzt valin í samráði af vísindamönnum
hverrar greinar ...“. Þó að hér komi fram eindregin skoð-
un og skarplega rökstudd, kennir þó hiks hjá höf. við að
fylgja henni fram með fullri festu. Hann bætir við: „Mér
fyrir mitt leyti finnst íslenzkan vel á vegi stödd í bráðina,
þó að hún búi ein að sínu að mestu leyti. Til erlendra orða
ættu menn því ekki að grípa fyrr en á síðustu forvöðum“.