Skírnir - 01.01.1939, Qupperneq 47
44
Kristján Albertson
Skírnir
nema tunguna til hlítar, og jafnóðum og hún eykur við
orðaforðann.
Málið, sem talað er t. d. í Reykjavík, er sérstakt við-
fangsefni, sem ekki skal frekar rætt að þessu sinni. En
öllum má vera Ijóst, hvað af því myndi leiða ef fremstu
rithöfundar veittu allt í einu flóði af útlendum orðum inn
í ritmálið. Það myndi fara eins og Guðmundur Finnboga-
son segir; mönnum myndi þykja sem þeir væru nú leystir
undan þeirri skyldu, að þurfa að læra íslenzku. Hlutskipti
útlendu orðanna yrði þá ekki það eitt, að fylla í eyður
tungunnar, heldur myndu þau jafnframt útrýma íslenzk-
um orðum og orðatiltækjum og setjast í hið auða sæti. Það
er ekki lengur hægt að opna svo þau af blöðunum, sem rit-
uð eru á óvönduðustu máli, að þessi hætta blasi ekki við
svo að segja á hverri síðu. Sögnin að yfirdrífa er að sigr-
ast á sögninni að ýkja; stríð og byltingar hefjast ekki
lengur né skella yfir, heldur brjótast út, mál eru ekki leng-
ur íhuguð, heldur yfirveguð, og menn ekki framar skipaðir
í stjórn eða í stöðu, heldur útnefndir.
Sá höfundur, sem lengst fer í notkun erlendra orða, er
Þórbergur Þórðarson. í bók hans um för sína til Rússlands
er m. a. þessi orð að finna: konfirmeraður, dúmmheðer,
keisarabílæti, skilerí, nervös (því ekki nervus, eins og sagt
er á íslandi?), diplomatískur, kaffiselskap, hysterískur,
blaseraður, tatóveraður, sálararistokrat, stúdíó, slurkur,
gullgallóneraður, að útþrykkja, mórall, móralskur, huggu-
legur, óhuggulegur, bomba, að marséra, að fýra af skoti,
slúður, trannsportéra, lifibrauð, agitatorískur, júblandi,
þvers og kruss, seremóníur, skopfígúra, að dumpa inn í
e-ð, bugta sig og beygja, húmorlaus, teóríur, kapítal, balk-
kon, músíkantar.
Nú ber þess að gæta, að Þórbergur Þórðarson skrifar
mjög sérkennilegan og persónulegan stíl. Þaö má ekki taka
öllum þessum slettum sem fúlustu alvöru, því að dönskunni
ætlar hann oft það sérstaka hlutverk, að bregða skopleg-
um blæ yfir það, sem hann segir. Engu að síður dylst
manni ekki, að hér er hurðinni lokið upp á gátt fyrir að-