Skírnir - 01.01.1939, Qupperneq 60
Skírnir
Þýðingar
57
Það er mikil skemmd á vísunni, og ætti hún því framvegis
að fá að halda upphaflegri mynd sinni. —
Ef vér nú víkjum að þýðingum á óbundnu máli, þá er
auðsætt, að þær eru í eðli sínu auðveldari en ljóðaþýðing-
ar. Þó er þar margs að gæta. Óbundið mál hefir líka sitt
form, sína hrynjandi, sinn stíl. Yfir stíl hvers frumlegs
höfundar er blær, sem á engu minni rétt á sér en bundið
mál og verður því að koma fram í þýðingunni, að svo
miklu leyti sem hann getur samþýðzt lögum þess máls,
sem þýtt er á. En meðferðin verður í hvert skiptið að fara
eftir því, um hvers konar rit og rithátt er að ræða. Á
sumum bókum er enginn sjálfstæður, persónulegur stíll,
sem eftirsjá væri að. Slík rit eru þá þýdd sökum efnis
þeirra, og má telja þakkavert, ef því er skilað heilu og
höldnu á sæmilegu máli. Og ekki má ætlast til þess, að í
þýðingu sé haldið setningaskipun, sem er svo fleyguð og
flókin, tvinnuð og trússaraleg, að langa umhugsun þarf
til þess að gera sér ljóst, hvað átt er við. Slíkur ritháttur
er ósvífni frá höfundarins hendi við lesendurna, og hann
má þakka fyrjr, ef hún kemur ekki fram í þýðingunni, og
að vísu væri rétt að geta þess í formála, þegar svo hefir
verið farið með höfund, til þess að honum verði ekki þakk-
að annað en það, sem hann á.
En þegar segja má með sanni, að „stíllinn sé maður-
inn“, þegar í stílnum birtast tök höfundarins á efninu,
viðhorf hans, hugarþel og andardráttur, þá verður þýð-
andinn að reyna eftir mætti að halda honum í þýðingu
sinni, því að hann er þá það andans veður, sem efnið lifir
°g hrærist í. Það er því algerlega rangt að ætlast til þess,
a<5 þýðandi hafi allt af á þýðingum sínum þann stíl, sem
er á því, sem hann frumsemur sjálfur. Það væri álíka og
að ætlast til þess, að leikari sýndi allar persónur, sem hann
leikur, í gerfi sjálfs sín óbreyttu og hefði orðbragð sjálfs
sín á hverri setningu, er hann segði í þeirra nafni. Eng-
inn skal ætla, að Sveinbjörn Egilsson hafi ávalt ritað frá
eigin brjósti sama stíl og er á Hómersþýðingum hans. Það