Skírnir - 01.01.1939, Side 61
58
Guðm. Finnbogason
Skírnir
var stíll Hómers, sem hann vildi ná og náði, að svo miklu
leyti sem verða mátti í óbundnu máli. Það er listin.
Þegar þýdd eru rit um efni, sem ekki hefir áður verið
ritað um á því máli, sem þýtt er á, verður sjaldan alveg
hjá því sneitt, að málið fái eitthvað óvenjulegan blæ. Það
kemur af því, að málinu er beitt við nýjar hugmyndir og
hugtök. Til þess verður að sveigja það á ýmsa lund, taka
upp gömul orð í nýrri merkingu, smíða ný orð, skýra hug-
tak í heilli setningu eða gleypa útlenda orðið hrátt, en
það er raunar uppgjöf af hálfu þýðandans, því að færi
hann svo með hvert orð, yrði ekkert úr þýðingunni. Hvert
nýyrði verður að dæma eftir því, hve ljóst, stutt og lag-
gott það er, og auðvitað verður það að vera myndað sam-
kvæmt lögum málsins. En ný orð koma oft í fyrstu ókunn-
uglega fyrir, þó að þau reynist ágæt, þegar menn venjast
þeim. Oft er fundið að nýyrði fyrir þá eina sök, að menn
vita, að það er nýtt, og stara á það eins og naut á nývirki,
reiðubúnir að reka í það hornin. I málinu eru fjölmörg
ævagömul en fátíð orð, sem fá mundu alveg sömu útreið,
ef menn vissu ekki, að þau eru gömul og hafa fengið á sig
helgi ellinnar. Því meira sem menn kynnast hinum nýju
hugmyndum, sem orðin flytja, því tamari verða þau, og
þýðing, sem í fyrstu virðist á óvenjulegu máli, getur þá
síðar virzt blátt áfram og eðlileg. Svo er um allar nýjung-
ar í meðferð málsins. Menn hnjóta um þær í fyrstu og
þurfa nokkurn tíma til þess að venjast þeim og gera sér
þær innlífar.
En því má ekki gleyma, að þýðingar eru sá þáttur bók-
menntanna, sem málinu er hættast í. Þar kemur greini-
legast í ljós sókn og vörn tungunnar, átökin milli hins
innlenda og hins útlenda, togstreitan milli hins erlenda
máls, sem þýtt er úr, og móðurmálsins, og þar er víða hált
á svellinu. Til þess að vel fari, verður þýðandinn að hafa
vakandi gát á lögum móðurmálsins og hafa ráð undir rifi
hverju. Slíkt er ekki allt af heiglum hent, og því verða
þýðingar stundum aumustu afkvæmi málsins.
Um hitt er þó meira vert, að í glímunni við erlend rit