Skírnir - 01.01.1939, Qupperneq 105
102
Guðbr. Jónsson
Skírnir
Fjórði sonurinn var fæddur 31. maí 1857 og daginn eft-
ir skírður Ambrósíus Damíanus Achilles Ratti. Þegar þar
að kom, fór hann í barnaskóla þorpsins, og var svo til ætl-
azt, að við þá kennslu sæti. f barnaskólanum hafði þegar
verið tekið eftir frábærum gáfum drengsins, og hafði með-
al annars föðurbróðir hans, síra Damíanus Ratti, sem var
sóknarprestur nyrzt á Langbarðalandi í þorpi, er Asso
heitir, einnig veitt þessu eftirtekt, og tók hann því að sér
að koma drengnum til mennta. Hann kom honum í mennta-
skólann Ginnasio di San Pietro í Milano, síðan í annan
menntaskóla í borginni og síðast í skólann Giuseppe Pari-
ni, og þar lauk Achilles Ratti stúdentsprófi.
Þegar hér var komið málum, stóð Achilles Ratti á vega-
mótum. Það hafði á skólaárunum borið mjög á andlegri
skerpu hins unga manns; hann hafði sýnt mikinn áhuga
á náttúrufræðum og einlæga hneigð til stærðfræðiiðkana.
Þegar að loknu stúdentsprófi hafði honum boðizt kennara-
staða í stærðfræði við skóla einn í Torino, og ef af því
hefði orðið, var jafnframt ráðið, að hann skyldi leggja
fyrir sig háskólanám í stærðfræði og náttúruvísindum.
Hefði það tekizt, hefði öll æfibraut hans orðið önnur en
varð, en hins vegar sér þessarar hneigðar mjög greinileg-
an stað í síðasta æfiþættinum, þegar hann sat á Péturs-
stóli.
Um þessar mundir var maður sá erkibiskup í Milano, er
Nazari di Calabiana hét, og var hann oft gestur hjá síra
Ratti í Asso, því hann þótti klerkur hinn bezti og var í
miklu áliti, en hjá honum dvaldi Achilles stúdent Ratti á
sumrum. Kynntist Monsignore Calabiana honum, og þótti
mikið til skerpu hans og gáfna koma, en ekki sízt til al-
vörugefni hans, enda kallaði hann hann að jafnaði hinn
„unga öldung“. Þótti honum illt, að kirkjan skyldi missa
slíks manns, og sótti það fast, að hann skyldi sækja presta-
skólann í Milano, og varð það að ráði. Að loknu námi þar
tók Achilles Ratti djáknavígslu, og fór síðan með styrk
föðurbróður síns og Monsignore Calabiana til framhalds-