Skírnir - 01.01.1939, Side 111
108
GuSbr. Jónsson
Skírnir
og var orðin gerskemmd og alveg komin að því að eyðast,
er dr. Ratti gerðist prestur klaustursins. Hann sá, að við
svo búið mátti ekki standa, og hóf að rita um myndina og
efna til samskota til viðhalds henni; gekk honum það greið-
lega, en mikið var fyrir viðgerðinni haft, enda bjargaðist
auðvitað ekki nema það, sem eftir var af myndinni; fyrir
hinu, sem horfið var, varð að bæta inn eftir beztu eftir-
myndum, sem til voru.
Rithöfundarstarf dr. Ratti, sem svo að segja ailt er unn-
ið meðan hann var í Milano, er að efni til ákaflega dreift.
Meginhlutinn eru vísindarit sagnfræðilegs efnis, en nokk-
ur teljast til fagurra bókmennta. Vísindaritin dreifast
einnig um mjög mörg svið, þau fást við staðarsögu, al-
menna sögu, stjórnmálasögu, menningarsögu, listasögu og
kirkjusögu, og hann hefir gefið út mjög mikið af fornum
skjölum og ritum, enda fékk hann orð á sig sem fornrita-
fræðingur (palaeograph). Þetta víða svið kann að þykja
einkennilegt og vekja grun um, að hér gæti verið margt
í mörgu og lítið í öllu, en svo var ekki, því að öll rit dr.
Rattis hafa hlotið hið mesta lof fræðimanna. Skýringin
kann að liggja í orðum, sem hann hafði við mann, er gekk
fyrir hann. Orðin voru eitthvað á þessa leið: „Við lifum
á tímum sérfræðinnar. Það er gott og blessað. Áður fyrri
sáu menn naumast einstök atriði fyrir heildinni, en nú
sjá menn naumast heildina fyrir einstökum atriðum. Svona
eru mennirnir, þeir hendast öfga milli, en hvort tveggja
er þetta jafnvont, því að hvernig er hægt að draga upp
ábyggilega heildarmynd, ef menn þekkja ekki einstök at-
riði, og hvernig er hægt að skilja einstök atriði, ef menn
hafa ekki yfirlit yfir heildina“.
Hér er aðeins hægt að telja helztu verk dr. Rattis. 1896
kom út eftir hann yfirlit yfir þróun hins ambrosianska
siðar, sem tíðkaður er í Milano, „La chiesa Ambrosiana“,
og svo sem til að fullkomna þetta verk gaf hann 1913 út
„Missale duplex Ambrosianum" með miklum sögulegum
inngangi; er þetta eina fræðirit páfa, sem sá, er þetta rit-
ar, hefir notað, og er ekki hægt nógsamlega að lofa hinn