Skírnir - 01.01.1939, Page 124
Skírnir
Logi
121
Og þú, Logi, varst fullkominn, fjör þitt og snilli
upp úr fjöturkvöl duftsins mig hreif,
inn í eilífðarveldi hins unga og sterka,
sem út yfir dægurlönd sveif.
Yfir mætti, sem brauzt út sem blossandi eldur,
lá þín blíða, sem roði um glóð.
Djúpt úr auga, sem logaði, sakleysi og sæla
skein mér sífellt og talaði hljóð.
Eins og barn varstu saklaus — og barnslegar tryggðir
fast þig bundu við hjarta míns þel.
Og í mannheimi átti eg engan að vini,
er mig elskaði og skildi jafn vel.
Þú ert horfinn, minn fagri og hjartkæri fákur,
en minn hugur á allt er þú gafst.
Þegar minningin vaknar, eg veit ei hve lengi,
undir viðum og blómum þú svafst —
né hve lengi þú barst mig í óskalönd — ofar
þeim óglaða, stritandi heim,
sem að lykur um daglífið, lamar þá vængi,
er þrá leiðir um alsælugeim.
Hvað, sem líður — þú gafst mér þá gjöf, sem ei fyrnist,
gafst mér sjálfan þig, líf þitt og snilld,
barst mig inn í þau lönd, sem eg einn hefði ei fundið,
rættir óskir, að hugar míns vild.
Barn og hestur — þau sakleysis verðmætin veit eg
verma bezt gegn um jarðstríðin trylld;
mér finnst allt af sem skyld séu augnaljós beggja:
hreinni öllu — sem guðsblessun mild.