Skírnir - 01.01.1939, Page 127
124
Baldur Bjarnason
Skírnir
En ekki var stjórn Ung-Tyrkja að skapi hans, og urðu
þeir Enver Pasha og Djavid Bey, aðalleiðtogar þeirra,
svarnir óvinir hans. Stjórn Ung-Tyrkja reyndist illa, allt
ríkið logaði í óeirðum, fjárhagurinn var í kaldakoli og
nágrannarnir notuðu tækifærið og unnu lönd af Tyrkj-
um í tveim mannskæðum styrjöldum. Italía vann af þeim
lönd þeirra í Afríku í Trípolisstyrjöldinni 1911—12 og í
Balkanstríðinu 1912—13 unnu Balkanríkin af þeim öll
lönd þeirra í Evrópu vestan Maritzafljóts.
Mustafa Kemal gat sér ágætan orðstír í styrjöldum
þessum, en honum var haldið niðri af ráðandi mönnum í
Konstantínópel og hlaut hann engin völd eða vegtyllur.
Hann var síóánægður með stjórnarfarið, og til að losna
við hann sendi stjórnin hann til Sofía í Búlgaríu sem
tyrkneskan, erindreka. I Búlgaríu gerðist Mustafa Kemal
tíður gestur í veizlusölum og samkvæmisstöðum heldra
fólksins. Hann gerði sér far um að vinna hylli og ástir
fagurra búlgarskra kvenna, sem hlotið höfðu vestræna
menntun og í öllu báru af hinu menntunarsnauða kven-
fólki, sem hann hafði kynnzt í heimalandi sínu. Sam-
kvæmiskonur borgarinnar höfðu þjóðerni hans að háði
og spotti og þótti hann of grófur og ruddalegur í fram-
komu. Danslist hans þótti líka mjög svo léleg og fóru svo
leikar, að hann hvarf úr samkvæmissölum borgarinnar
og lagði lag sitt við lauslætisdrósir skuggahverfanna.
Fékk hann kynsjúkdóma upp úr svallinu og var lengi
þungt haldinn. Varð hann aldrei heill meina sinna, kvala-
fullur nýrnasjúkdómur ásótti hann stöðugt síðan. Á hin-
um löngu herferðum, sem hann átti í síðari hluta æfinn-
ar, hvort sem hann var staddur á hinum sólbrenndu hæð-
um Gallipoliskaga, í steikjandi sólskini eða á glóandi sand-
auðnum Syríu, alltaf þjáðist hann af þessum ægilega sjúk-
dómi. I nístandi næturfrosti á hásléttum Litlu-Asíu og í
fárviðri og steypiregni austur á Armeníufjöllum var hann
oft viðþolslaus af kvölum. En svo miklir voru andlegir
kraftar þessa manns og líkamsbygging hans svo sterk, að