Skírnir - 01.01.1939, Page 162
Skírnir
Gísli Brynjúlfsson og Byron
159
það ljóst fram, hversu hið stórfelda í náttúrunni heillar
huga hans.
Á titilblaði Norðrfara prentaði Gísli, á enskunni, sem
kjörorð ritsins 24. erindið úr IX. kviðu Don Jwan Byrons
(„And I will war at least in words“). í Ljóðmælum hans
er erindi þetta birt í íslenzkri þýðingu. Telur þýðandinn
vísur þessar gott dæmi „um frjálslyndi Byrons“, og mun
þar eiga við frelsisást hans og byltingahug, eins og þessi
vísa vottar:
„En fjanda allra
arnfleygs hugar
eru harðstjórar
og hræsnarar verstir;
mestar meinvættir
manna þjóðum,
höldum hvumleiðar
í heimi öllum“.
Loks er birt í Ljóðmælum Gísla, bæði á frummálinu og
í þýðingu, kvæðisbrot eftir Byron: „The Conquest“ (Land-
vinningin), er nefnist á íslenzku „Um Vilhjálm bastarð",
eins og efnið bendir til.
Af framanskráðu, þó sumstaðar hafi verið farið fljótt
yfir sögu, er auðsætt, að Gísli dáði Byron drjúgum meir
en almennt gerist og sýndi þá aðdáun ljósast í því, að hann
tók hinn enska lávarð sér til fyrirmyndar — stældi skáld-
skap hans. Mun óhætt mega segja, að Gísli eigi Byron
beinlínis stærri skuld að gjalda en nokkurt annað íslenzkt
skáld, nema ef vera skyldi Þorsteinn Erlingsson; en sá
er þó munurinn — og það skiptir eigi litlu í þessu sam-
bandi — að Gísli stældi Byron vísvitandi (sérstaklega í
Faraldi), en hjá Þorsteini koma hin byronsku áhrif fram
óbeinlínis, enda þótt hinn síðarnefndi væri einnig mikill
Byron-aðdáandi, og vonast eg til, að taka það efni til nán-
ari athugunar síðar.
Að öllu samanlögðu mun Gísli Brynjúlfsson því mega
teljast hreinræktaðasti túlkur hinnar byronsku lífsskoð-
unar eins og hún lýsir sér í íslenzkum bókmenntum.