Skírnir - 01.01.1939, Blaðsíða 172
Skírnir
Æfintýraatvik i Auðunar þætti vestfirzka
169
segir hann þessa sögu af sjálfum sér. Dag einn, er eg var
að segja sögur, rakst eg á gelding nokkurn og sagði þá
þegar sögu af geldingi. Nú leið nokkur stund, þá kom þessi
geldingur til mín og sagði, að saga mín hefði fallið prinsi
hinna sanntrúuðu svo vel í geð, að hann hefði sent sig eftir
mér, — „en eg krefst helmings launanna, sem hann gefur
þér“, sagði geldingurinn. Eg reyndi að fá hann til að gera
sig ánægðan með sjöttung eða fjórða part, en við það var
eigi komandi. Þegar eg kom fyrir Kalífann, lofaði hann
mér fimm hundruð dihrama, ef eg gæti komið sér til að
hlæja, að öðrum kosti átti að berja mig tíu högg með full-
um poka. Nú sagði eg allar mínar sögur en kom ekki svo
miklu sem brosi út á prinsinum. „Eg hefi nú aðeins eina
sögu í viðbót“, sagði eg: „Þú hefir lofað mér tíu höggum:
bættu tíu við“. Þegar eg hafði meðtekið tíu högg, var eg
nálega snúinn úr hálsliðnum, með sárt bak og suðu fyrir
eyrum, þá kallaði eg upp: „Herra, Múhameðstrúarmaður
ætti að standa við orð sín; eg hefi lofað geldingnum, sem
hleypti mér inn, helming launanna; látið hann fá sinn
skerf“. Við þetta veltist Kalífinn um í hlátri og skipaði
geldingnum að taka við sínum höggum. Geldingurinn mælti
í móti. „Þetta er þinn hluti“, sagði eg, „þú vildir ekki sætta
þig við sjöttung eða fjórða part“. Þetta svar jók enn á
hlátur prinsins, enda gaf hann okkur þá fimm hundruð
dihrama að skipta milli okkar.
Þessi saga er að vísu fjarskyldari Auðunar þætti en þær
evrópisku sögur, sem áður hafa verið tilfærðar, en hún
tekur af allan vafa um það, að höggva-skerfssagan var vel
þekkt svo öldum skipti, áður en Auðunar þáttur var í let-
ur færður.
Þessi forna arabiska saga gefur líka, að því er mér
virðist, greinilega bendingu um uppruna höggvaskerfs-
sögunnar. Þótt illt geti verið að ákveða uppruna sagna
eftir því, hversu þær passa inn í meira eða minna vafa-
söm menningar-umhverfi, þá virðist manni sem sagan eigi
illa heima í norrænu umhverfi. Tiltæki Áka brýtur í bág
við norræna gestrisni, og mútur og drykkjupeningar hafa