Skírnir - 01.01.1939, Síða 174
Skírnir
Æfintýraatvik i Auðunar þætti vestfirzka
171
um helming launanna, eða hvort hann hefir líka þekkt
skrítlu-gerðina með helmingi höggvanna. Að báðar gerð-
irnar hafi verið húsgangar í tíð höfundarins má teljast
mjög líklegt af því, sem áður er sýnt um sögu Mas’udis.
En hví notaði höfundur Auðunar þáttar ekki skrítluna,
og lét Áka fá helming höggvanna, ef hann þekkti þá gerð
sögunnar? Flestum mundi nú verða, að velja þá gerðina
til að bæta söguna, því þá ekki höfundur þáttarins, sem
sýnilega kann að meta kímni og það á kostnað Auðunar
sjálfs? Eg held, að það verði sýnt með rökum, að Auðunar
þáttur sé betri án skrítlunnar. Liestöl hefir bent á það,
að Auðun var kristileg fyrirmynd, að sínu leyti eins og
Gunnar var hetjuleg fyrirmynd. Auðunn er kristin kempa,
fátækur og óframfærinn, guðhræddur og skyldurækinn, og
svo fastur í rásinni, að við flasi virðist liggja, um það sem
hann tekur sér fyrir hendur. Hann hafnar hvað eftir ann-
að öllum gæðum þessa heims fyrir guði kær verk: umsjá
með móður sinni, og suðurgönguna. Aleigu, lífi og limum
hættir hann til að koma áformum sínum fram. I úlfa-
kreppu hjá Haraldi konungi játar hann engu öðru en því,
sem honum sýnist. En það væri í fullu ósamræmi við þetta
lundarfar hans, ef hann brygði á slægð við Áka og beiddist
vandar-höggva af Sveini konungi, í stað þess eins, að kon-
ungur þægi gjöfina. Auðunn er alltof einfaldur og saklaus
til að beita slíkum brögðum. Eg er þess vegna sannfærður
um það, að þó að höfundur þáttárins hafi kunnað söguna
um vandar-höggin, þá hefði hann ekki getað fengið af sér
að nota hana í sambandi við Auðunn.
En hafi hann þekkt skrítluna — sem auðvitað er ósann-
að mál — þá er hér enn eitt gott dæmi um það, hversu
sagnaritarar löguðu efni í hendi sér og sáu jafnvel ekki í að
sleppa góðum skrítlum, ef þeir gátu ekki notað þær. Slík
dæmi eru auðfundin í Heimskringlu. Eins og Snorri hefir
höfundur þáttarins metið persónu-sköpunina meir en laust
ytra skraut. Og honum hefir ekki missýnzt. Auðunn verð-
ur tæplega skammlífari en skrítlan sjálf.