Valsblaðið - 11.05.1972, Page 62
60
VALSBLAÐIÐ
telja og hafði og hefur raunar ekki
síðan, varið neitt í líkingu við þetta.
Allt þetta hjálpaði til við að brjóta
okkur niður.
Hermann Gunnarsson:
Ég hygg að menn hafi álitið liðið
orðið það gott að það væri nánast
formsatriði að ljúka mótinu, titillinn
væri í höfn, sem sagt algert vanmat
á andstæðingnum, og það gengu allir
inn á völlinn í þetta skipti öruggir
um að vinna þennan leik létt. Síðan,
þegar menn sáu að allt var að komast
í óefni, vorum við bara ekki menn
til að rétta við. Þarna kemur til að
liðið er ungt, mjög ungt, og hefur
ekki þá reynslu, sem þarna hefði ör-
ugglega bjargað liðinu frá tapi. Leik-
reynt lið hefði aldrei látið fara svona
með sig.
Gunnsteinn Skúlason fyrirliði:
Þarna fór sjálfsagt saman mikil
óheppni hjá okkur með allt sem við
reyndum í leiknum og eins býður mér
í grun, að við höfum mætt til leiks
of öruggir um að það væri nánast
formsatriði að ljúka leiknum. Og svo
þegar við sáum alvöruna tókst okk-
ur ekki að laga þetta, aðrar skýr-
ingar hef ég ekki getað fundið á þess-
um furðulega leik. Nú og svo auð-
vitað þessi stórkostlega maxkvarzla
Guðmundar Gunnarssonar í ÍR-mark-
inu, hún kom okkur algerlega í opna
skjöldu. Að maðurinn skyldi verja
7 vítaköst í leiknum segir sína sögu
um hvað gerðist. Ofan á þessa frá-
bæru markvörzlu bættist svo það,
að allt virtist heppnast hjá skotmönn-
um lR. Hvert skotið af öðru upp í
vinklunum eða þá útvið stangirnar,
næstum óverjandi og ég man vart
eftir annarri eins skotnýtingu hjá
nokkru liði fyrr eða síðar. Þetta var
allt á þann veg að okkur var um megn
að rísa gegn þessu.
Ólafur Benediktsson:
Við vorum í fyrsta lagi allt of ör-
uggir um að vinna þennan leik létt.
Stórsigurinn yfir FH stuttu áður virt-
ist hafa þau áhrif, að við álitum okk-
ur einhverja ofsakarla, sem gætum
allt og værum ósigrandi. Nú mark-
varzla Guðmundar í iR-markinu var
stórkostleg og hann átti meiri þátt
í að brjóta okkur niður en nokkuð
annað. Svo vil ég kenna mér um
stóran þátt í þessu tapi með slæmri
markvörzlu, alveg hörmulegri. Menn
voru að segja að þetta hefðu verið
óverjandi skot, en það er bara ekki
alls kostar rétt, ég átti að geta tekið
miklu fleiri bolta en mér tókst. Mér
var bent á það í leikhléinu að öll skot
þeirra væru uppi og ég fann þetta
einnig sjálfur í fyrri hálfleik, en ég
fann mig bara aldrei allan leikinn.
Nú vörnin okkar á sjálfsagt sinn þátt
í þessu, því að hún hefur varla leikið
verr en þarna.
Reynir Ólafsson þjálfari:
Ég var alltaf hræddur við þennan
leik. Bæði var það, að Val hefur allt-
af gengið frekar illa með ÍR og eins
óttaðist ég að velgengnin í leiknum
við FH myndi koma piltunum upp
í skýin, sem og varð raunin. Ég fann
að liðið fór óvenju bjartsýnt inn á
völlinn og það kann aldrei góðri lukku
að stýra, enda kom það í Ijós að eng-
inn reis upp úr meðalmennskunni,
hvorki útispilarar né markmenn. Ég
reyndi báða markverðina, en ég hygg
að þeir boltar sem varðir voru hafi
ekki náð tölunni 6. Þetta tap 24:15
er það mesta sem Valur hefur fengið
síðan ég tók við þjálfun liðsins. Ef
ég ætti að taka eitt orð yfir þetta þá
varð þarna liðsbrot, algert liðsbrot.
Ég kallaði þetta þessu nafni strax
eftir leikinn og þótt maður hafi farið
yfir þennan leik í huganum oft og
mörgum sinnum hef ég ekki getað
fundið aðra skýringu á þessu. Þetta
sýnir liði, sem er komið í seilingu
við titil, hvað það þarf að varast
andstæðingana mikið í stað þess að
vanmeta þá. Það þarf að bera full-
komna virðingu fyrir andstæðingn-
um hverju sinni, hver svo sem hann
er. Það hefur mér fundizt vanta í
stóran hluta liðsins, ég segi ekki allt
liðið en stærri hlutinn á það til að
vanmeta andstæðinginn og það vita
allir sem nálægt íþróttum hafa kom-
ið hvað slíkt þýðir.
Ólafur H. Jónsson:
Eftir á, þegar ég fór að hugsa
um þennan leik, fannst mér þetta
beinlínis vera örlög. Það er í eina
skiptið eftir leik, sem ég hef haft
þessa tilfinningu. Það var alveg eins
og þetta ætti bara að gerast. Sjáðu
til, það vantaði ekki að við kæmumst
í færi, en þá annað hvort hittum við
ekki markið eða þá að skotin voru
varin, jafnvel 7 vítaköst. Hvað er
svona lagað ef ekki örlög? Ef við
hefðum engin tækifæri skapað okk-
ur þá er lítið við þessu að segja ann-
að en klaufaskapur, en þegar maður
veður í marktækifærum, dauðafærum
hvað eftir annað og ekkert tekst,
hvað er það? Þetta gerist svo sára
sjaldan í handknattleik, að þetta virð-
ist mér sláandi dæmi um örlög. Ég
er ekki á þeirri skoðun, að um tómt
vanmat hafi verið að ræða á ÍR-ing-
unum hjá okkur. Þótt við spiluðum
ekki góðan leik, þá áttum við mýgrút
af marktækifærum, sem fóru svona
eins og ég sagði í upphafi, þannig að
við lékum okkur eins vel í gegnum
ÍR-vörnina og flestar aðrar varnir, en
dæmið gekk bara ekki upp.
Stefán Gunnarsson:
Það vantaði allan neista í liðið, á
því leikur enginn vafi. Liðið var alls
ekki líkt því sem það hafði verið í
öllum leikjum mótsins fram að þess-
um leik. Og mér fannst sem þessi
neisti kveiknaði ekki í þeim leikjum,
sem eftir voru, svo sem gegn Víkingi
og Efterslægten og svo ég tali ekki
um úrslitaleikinn við FH. Sjálfsagt
hafa menn verið orðnir þreyttir og
jafnvel leiðir, vegna of margra æfinga
og leikja þarna í lokin. Ég læt mér
detta þetta í hug. Ég held að vanmat
hafi ekki komið þarna til greina. Við
vorum búnir að leika oft við ÍR og
alltaf gengið illa með það lið, svo að
ég held að það komi ekki til greina.
Hins vegar er ég á því að markvörð-
ur ÍR hafi brotið okkur niður með
stórkostlegri markvörzlu, sérstaklega
í sambandi við þessi 7 vítaköst sem
hann varði, og þar átti sér stað mikið
slys og á ég þar við að það reyndu
allir að taka vítaköstin, þegar einum
brást kastið, kom sá næsti. Þetta er
rangt. Það á að láta beztu vítaskytt-
una taka vítið aftur þótt honum mis-
takizt einu sinni eða tvisvar.
Jón Karlsson:
Ég hef hugsað mikið um þetta, en
þó hef ég ekki fundið neina eina við-
hlýtandi skýringu á þessu ennþá. Og
ég treysti mér ekki til að gefa neina
ákveðna skýringu á þessu. En ef við
lítum á leikinn í heild, þá sjáum við
að varnarleikurinn hjá okkur var ekki
sá sami og áður í mótinu. Við skor-
um, sjáðu til, 15 mörk, sem er ekki
svo lítið, en við fáum bara á okkur
24. Slíkt hafði ekki gerzt og hefur
ekki aftur gerzt. Vissulega voru ÍR-
ingarnir sérstaklega heppnir með
skotin, svo heppnir, að þeir hafa
aldrei náð öðru eins, en það er alveg
sama, við áttum að geta komið í veg
fyrir mörg mörk þeirra. Nú svo má
nefna vítaköstin okkar. Að láta mark-
vörð verja 7 vítaköst nær engri átt.
Þar var einnig galli í framkvæmd-
inni, að láta ekki vítaskyttu liðsins
taka vítin aftur þótt það fyrsta hafi
brugðizt. Það voru settir 3 eða 4 menn
í að taka vítin og það finnst mér allt-
af rangt. Ég útiloka hins vegar þá
kenningu sumra að við höfum van-
metið ÍR-ingana, það tel ég ekki koma
til greina. Hitt má vera að við höf-
um ofmetið sjálfa okkur og verið í
sigurvímu eftir stórsigurinn yfir FH
stuttu áður. Sá leikur setti okkur upp
í skýin. Þá er þess einnig að gæta,
að þetta er einn af þessum leikjum, þar
sem allt heppnast hjá öðru liðinu en
ekert hjá hinu og ég sagði einhvern
tíma í fyrra „Colchester vann líka
Leeds“ og við vitum að það getur allt
gerzt í íþróttum.