Eimreiðin - 01.04.1954, Blaðsíða 64
Öxin Rimmugýgur.
Vnr öxin Rimmugýgur hvergi til, nema í hugarheimum?
Það virðist vera nokkuð útbreidd skoðun meðal fornfræðinga,
að öxin Rimmugýgur hafi aldrei verið til, að minnsta kosti ekki
í líkingu við það, sem Njála gefur í skyn um hana. Ekki hef ég
þó heyrt önnur rök færð fyrir þessu en þau, að engin slík öxi hafi
fundizt í jörðu á íslandi, né annars staðar á Norðurlöndum. En
afsannar það nokkuð tilveru hennar eins og henni var lýst?
Gerir sagan sér ekki einmitt dálítið títt um hana, af því að hún
hefur ekki verið venjulegt vopn á sinni tíð hér á landi?
Hvað kemur til, að þá er ekki eins neitað tilveru atgeirs Gunnars
á Hlíðarenda? Hann virðist þó ekki hafa verið venjulegt vopn
heldur í þá tíð, og ekki er heldur kunnugt um, að hans líki hafi
fundizt í jörðu. Þar virðist ástæðan auðsæ: Njála greinir ítarlega
frá því, hvernig Gunnar eignaðist atgeirinn, og alþýðunni fannst
það mikla vopn hæfa svo vel þeim glæsilega garpi, að hvorugt
verður nefnt öðruvísi en hitt komi í hugann. Þegar Matthías
Jochumsson semur „Útilegumenn" sína, lætur hann Skugga-Svein,
þann mikla ægiskelfi, bera atgeir, og þykir það hæfa bezt þeim
voða-manni. En þarna hleypur ofurlítil snurða á þráðinn. Þegar
leikurinn er settur á svið, er Skugga-Sveinn látinn bera vopn, sem
nefnt er „atgeir“, en er allt annað og óskylt vopn (býzönzk öxi)
og samkvæmt lögun sinni meiri til sýnis en stórræða. Hefur þessi
leiða meinloka jafnvel komizt í sjálft Þjóðleikhúsið. Listamaður
sá, sem gjörði fornmannamyndirnar, sem seldar voru hér mikið
á póstkortum á bilinu frá 1910—1930, var það snjallari að sýna
Gunnar á Hlíðarenda með rétt gerðan atgeir. Er okkur það varla
vansalaust að sýna meira kæruleysi og vanþekkingu um okkar
eigin þjóðfræði heldur en útlendingar.
Sama máli gegnir um Skarphéðin og Rimmugýgi sem Gunnar
og atgeirinn, að hvorugt verður nefnt, án þess að hugsað sé til
hins. Hætt er við, að mörgum þætti hetjan Skarphéðinn setja
eitthvað ofan, ef endilega á að telja okkur trú um, að hann hafi
haft að vopni axar-kjagg eitt, svo sem 2—3 þumlunga fyrir egg,