Eimreiðin - 01.09.1968, Blaðsíða 73
EFLING ÍSI.ENZKRA bókmennta
219
erlendis erum við enn, miðað við ýmsar aðrar þjóðir, tiltölulega
einangraðir.
Þjóðir, sem tala og skrifa á lítt þekkta tungu, eins og t. d. Finnar,
Ungv'erjar og íslendingar, svo að dæmi séu tekin, eiga við stöðuga
og erfiða einangrun að stríða í menningarlegu tilliti. Einkum kem-
ur þetta hart niður á bókmenntum þessara þjóða, meira niður á
bókmenntunum sjálfum en annarri listsköpun, því að tónlistin er
alþjóðleg, og svo er myndlistin og fleiri listir. En þráfaldlega kemur
það fyrir, að úrvalshöfundar hafa ekki orðið kunnir utan heima-
lands síns vegna þess að ekki var hægt að koma þeim á framfæri
á fjöllesnum tungum. Hið líttþekkta og einangraða mál, sem þeir
skrifuðu á, var þeim fjötur um fót. Og hvert og eitt ríki á hags-
muna að gæta í þessu efni, og það er óhætt að fullyrða, að eftir því
sem þjóðin er fámennari, eru hagsmunirnir meiri, sem í veði eru.
Viðhorf milli þjóða innbyrðis mótast líka mikið af verðmætum,
sem felast í góðum listum og sterkum menningararfi. Þar hafa fram-
úrskarandi einstaklingar, snillingarnir, meiri áhrif en tölur, sem
sýna mannfjölda. Þetta á ekki sízt við um ísland . . . Nóbelsværð-
launin í bókmenntum juku miklu við stærð okkar sem þjóðar, og
rithöfundar hafa bæði fyrr og síðar aukið ntjög hróður landsins út
á við. En sjálfsagt hefði sá hróður getað orðið meiri, hefði íslenzka
verið lesin af milljónaþjóðum.
En það hefur reynzt erfitt að koma íslenzkum skáldverkum á
framfæri erlendis, meðal annars vegna þess, hve fáir það eru í raun
og veru, sem færir eru um það að þýða úr íslenzku á önnur tungu-
mál. Og frá hinum Norðurlöndunum er sömu sögu að segja, þótt
það sé þó ólíkt greiðara um þýðingar úr þeim málum yfir á fjöl-
lesnustu tungur heimsins en úr íslenzku. Og Finnar, sem eru ein-
angraðir í þessu tilliti eins og við, hafa t. d. farið þá leið til þess
að auka möguleikana á því að fá hæfa þýðendur, að þeir hafa ráðið
til sín árlega, ég held 35 stúdenta frá háskólunum í Oxford og
Cambridge í Bretlandi, stúdenta, sem lögðu stund á málvísindi eða
tungumál; réðu þá til starfa í Finnlandi til kennslu og ferðalaga
milli skóla þar í landi og til þess að þeir lærðu málið, finnskuna.
Þetta hefur gefið mjög góða raun, og einhverjir ötulustu þýðendur
af finnskri tungu á enska munu nú vera úr hópi þessara stúdenta. . .
En þótt við séum svo einangraðir eins og raun ber vitni varðandi
kynningu á bókmenntum okkar, fer forvitnin um íslenzkar bók-
menntir vaxandi, einkum meðal frændþjóðanna á Norðurlöndum.