Tímarit lögfræðinga - 01.10.1999, Side 24
þeim viðskiptum. Tjón [L] er því ekki talið sennileg afleiðing mistakanna í skilningi
49. gr. þinglýsingalaga". Að því búnu er bent á, að L sé opinber lánastofnun og hafi
ekki aflað sjálf gagna um heimildarskjöl að bátnum eða veðsetningu hans. Hafi L því
ekki sýnt þá aðgæzlu, sem gera eigi kröfu til. Þá hafi H ekki verið grandlaus um
tilvist skuldarinnar við verðbréfafyrirtækið. Að öllu þessu athuguðu þótti Hæstarétti
ekki vera fyrir hendi skilyrði til að dæma L bætur á grundvelli 49. gr. þinglýsinga-
laga.
Einnig í þessu máli eru mistökin viðurkennd. Hins vegar sýnist bæði byggt á
því, að reglur 49. gr. þinglýsingalaga um sennilega afleiðingu, eigin sök L og
grandsemi H, eigi að leiða til algers brottfalls bótaréttar.
H 1998 128
S átti hlut í fasteign í Reykjavík, sem félagið hafði keypt í apríl 1992. f júní það ár
fengu fyrirsvarsmenn S veðbókarvottorð um eignina og kom þar fram ein veðskuld
við Iðnlánasjóð að fjárhæð kr. 1.800.000, en sú skuld var í raun að fjárhæð kr.
8.000.000. Leituðu fyrirsvarsmenn S til L um kaup á skuldabréfi að fjárhæð kr.
1.315.000 tryggðu með veði í eigninni. Féllst L á það og var skuldabréf að þessari
fjárhæð þinglýst athugasemdalaust á eignina. Keypti L bréfið. Eignin var síðar seld
nauðungarsölu og kom þá fram, hver hin rétta fjárhæð skuldarinnar við Iðnlánasjóð
var. Fékk L ekkert upp í kröfur sínar af söluandvirði eignarinnar. Bú S var tekið til
gjaldþrotaskipta skömmu síðar og fékk L ekkert upp í kröfur sínar. L höfðaði mál á
hendur ríkinu og krafðizt skaðabóta á grundvelli 49. gr. þinglýsingalaga, enda hæpið
í meira lagi að skuldabréfið hefði verið keypt ef ekki hefði verið um framangreind
mistök að ræða. í dómi Hæstaréttar segir, að í tilefni lánsumsóknar S hafi L aflað til
viðbótar veðbókarvottorði einungis vottorðs skráningardeildar fasteigna um bruna-
bóta- og fasteignamatsverð eignarinnar. Voru þau matsverð misvísandi. Segir, að
þrátt fyrir það hafi L ekki aflað nýlegs kaupsamnings um eignina, en þar hafi komið
fram rétt fjárhæð skuldarinnar við Iðnlánasjóð. Yrði að telja, að L sem opinber
lánastofnun hafi ekki sýnt af sér þá aðgæzlu, sem gera ætti kröfu um. Viðsemjandi L
hafi ekki verið grandlaus og hafi nýtt sér mistök þinglýsingarstjóra. Hefði svo ekki
verið hefðu mistökin að mati Hæstaréttar ekki leitt til tjóns. Rétturinn taldi því, að
tjón L væri ekki sennileg afleiðing mistakanna í skilningi 49. gr. þinglýsingalaga. Af
þessari ástæðu væru ekki skilyrði til þess að dæma L skaðabætur úr hendi ríkisins.
I síðast greindum dómi liggur einnig ljóst fyrir, að mistök hafa orðið. Með
rökum, sem svipa mjög til röksemda í H 1997 2779 er hins vegar talið, að reglur
49. gr. um sennilega afleiðingu, svo og eigin sök L, girði að fullu fyrir það, að
réttur til skaðabóta stofnist.
H 1998 1227
E og eiginmaður hennar höfðu keypt fasteign af H við Aðaltún í Mosfellsbæ. Hafði
Búnaðarbanki lánað H umtalsverða fjárhæð, sem þinglýst hafði verið á landspildu,
sem síðar varð að tilgreindum lóðum. Mosfellsbær hafði veitt H veðleyfi fyrir
skuldinni. Þegar útbúið var sérstakt blað fyrir Aðaltún 22, eign E, í tilefni af lán-
veitingu Byggingasjóðs ríkisins, láðist að færa inn tryggingabréf Búnaðarbankans.
Síðar fékk Búnaðarbankinn viðurkenndan rétt sinn sem veðhafi m.a. í eign E. E
176