Tímarit lögfræðinga - 01.10.1999, Side 28
H 1996 980
K glataði rétti til skaðabóta vegna tjóns, er leiddi af þinglýsingarmistökum með því
að kanna ekki sjálfstætt, betur en opinber vottorð gáfu tilefni til, verðmæti fasteignar,
kanna ekki eldri uppboðsauglýsingu, vita ekki um eldra skjal, er bar með sér tilvist
veðskuldar, sem ekki kom fram á fimm skuldabréfum, sem öllum var þinglýst án
athugasemda um hana.
I öllum ofangreindum tilvikum lá fyrir að urn mistök var að ræða hjá þinglýs-
ingarstjóra, þannig að skilyrðum til skaðabóta var í sjálfu sér fullnægt. Spurn-
ingin er, hvort þær kröfur, sem gerðar eru til aðgæzlu af hálfu tjónþola, séu
eðlilegar. Inntakið í kröfum um aðgæzluskyldu tjónþola, sem fram kemur í
þessum dómum er, að þeir hafi ekki átt að treysta þinglýsingarvottorðum/veð-
bókarvottorðum, heldur borið að framkvæma sérstaka rannsókn á veðandlag-
inu, þeim skuldum sem á því hvíldu og jafnvel öðrum skjölum eða gögnum.
Jafnvel þótt gera megi ríkar kröfur til aðgæzluskyldu verðbréfafyrirtækja,
banka, sparisjóða og þess háttar stofnana við kaup verðbréfa, verður ekki litið
framhjá því, að eitt af yfirlýstum markmiðum bótareglunnar í 49. gr. þinglýs-
ingalaga er að auka aðhald starfsfólks við þinglýsingar og byggja upp traust á
þinglýstum heimildum og vottorðum um þær.44 Bótareglunum er ætlað að bæta
úr þegar mistök verða eða menn hafa með öðrum hætti beðið tjón við að treysta
áreiðanleika þinglýstra heimilda.45 I ljósi þess, að bótaskyld mistök lágu fyrir
má telja, að í þremur af þeim fjórum dómum, sem nefndir eru að framan, (þ.e.
öllum nema dóminum frá 1994) séu gerðar meiri aðgæzlukröfur til tjónþola en
eðlilegt má telja. Með svo ríkum kröfum um aðgæzluskyldu af hálfu tjónþola
er bótaábyrgð ríkisins þrengd til muna. Það má einnig varpa fram þeirri
spurningu hvort ekki sé líka gengið of langt í dóminum frá 1994, einkum þar
sem ekki verður framhjá því litið að skuldabréfinu var þinglýst án athugasemda
og jtess vegna tók H við bréfinu og féllst á að breyta viðskiptaskuldinni.
I forsendum sýknudóma hefur Hæstiréttur í einstökum tilvikum, t.d. H 1996
980, bent á, að tjónþoli hafi fengið skuldabréf frá aðilja, sem ekki var grandlaus
og það girði fyrir rétt hans til bóta. Áður hefur verið vikið að því, að háttsemi
þriðja manns, þótt saknæm kunni að vera, eigi samkvæmt almennum reglum
um sennilega afleiðingu ekki að leiða til þess, að sá sem er ábyrgur fyrir því
ástandi, sem leiðir til tjóns, losni undan ábyrgð. Hið sama á við í framan-
greindum dómi. Þann dóm verður þó einnig að skoða í sambandi við áður-
nefndar skýringar í greinargerð, að tjónþoli megi ekki leiða rétt sinn frá þeim,
sem á sök á tjóni, svo og ef starfsmaður hans hefur átt sök á tjóni eða annar, sem
tjónþoli ber ábyrgð á. Telja verður varhugavert að leggja meira upp úr þessum
orðum greinargerðar, sem ekki styðjast við orð lagatextans sjálfs, en leiða
myndi af almennum reglum um neikvæða samsömun. í því felst t.d., að vinnu-
veitandi yrði að sæta takmörkun eða niðurfellingu bótaréttar, ef starfsmaður
44 Alþingistíðindi 1959, A- deild, bls. 791.
45 Sjá t.d. Þorgeir Örlygsson: Þinglýsingar - Mistök í þinglýsingum - Réttarreglur, bls. 39.
180