Tímarit lögfræðinga - 01.10.1999, Page 58
Þarna er sú niðurstaða dregin saman að brot EFTA-ríkis á samningsskuld-
bindingum sínum samkvæmt EES-samningnum geti leitt til ábyrgðar þess á
grundvelli þjóðaréttar. Slíkt brot geti hins vegar ekki orðið grundvöllur bóta-
kröfu einstaklings á hendur aðildarríki með stoð í meginreglunni sem Evrópu-
dómstóllinn sló fastri í Francovich-málinu. Þá meginreglu leiði eingöngu af
réttarkerfi Evrópubandalagsins.
3.2.4 Niðurstaða
í ljósi þess sem hefur verið rakið er eðlilegt að fara varlega við túlkun álitsins
og reyndar er í 63. lið álitsins gerður beinn fyrirvari um það að í EES-
samningnum felist ekki framsal löggjafarvalds, sbr. það sem segir í kafla 3.2.2.
Má þegar af þeirri ástæðu draga þá ályktun að bótareglan sem EFTA-dóm-
stóllinn telur hluta EES-samningsins sé ekki sama bótareglan og leiðir af stofn-
sáttmála Evrópubandalagsins. Slíkt væri í samræmi við þau sjónarmið sem
rakin eru í ráðgefandi álitinu en þau eru ekki sömu sjónarmið og liggja bóta-
reglu bandalagsréttarins til grundvallar, sbr. það sem segir í kafla 3.2.1. Enn
fremur er ljóst að slíkt væri í samræmi við þau sjónarmið sem lögsögumaður
Evrópudómstólsins gerir að sínum í áliti frá 19. janúar 1999, sbr. það sem segir
í kafla 3.2.3.
Mikinn fyrirvara hlýtur að þurfa að setja við hugleiðingar í forsendum
EFTA-dómstólsins um hvemig haga skuli túlkun laga sem leiða EES-samn-
inginn í landsrétt einstakra aðildamkja. Það er alveg ljóst að íslenskir dómstólar
eiga síðasta orðið um hvernig íslensk lög verða túlkuð. EES-samningurinn felur
engar heimildir í sér til handa EFTA-dómstólnum að veita ráðgefandi álit um
túlkun íslenskra laga, ekki frekar en slíkum heimildum er til að dreifa í rétti
Evrópubandalagsins. Má halda því fram að með hugleiðingum sínum í þessa átt
hafi EFTA-dómstóllinn gengið nokkuð nærri sjálfstæði íslenskra dómstóla án
viðhlítandi heimilda.18
Af hugleiðingum EFTA-dómstólsins um framsal fullveldis og túlkun lands-
laga verður dregin sú ályktun að dómstóllinn telur að leiða þurfi skaðabótareglu
EES-réttarins í landsrétt líkt og aðrar reglur EES-réttarins. Ef EFTA-dóm-
stóllinn teldi að svo væri ekki hefði hann ekkert þurft að fjalla um það í 63. lið
álitsins hvemig „eðlilegt“ væri að túlka lög sem lögfesta meginmál samnings-
ins. Þessi ályktun verður enn fremur studd með 7. gr. EES-samningsins sem
EFTA-dómstóllinn vitnar einmitt til í 63. lið álits síns. Enn fremur verður dregin
sú ályktun að samkvæmt bókun 35 við EES-samninginn hvfli sú skylda á
aðildarríkjunum að þjóðarétti að tryggja bótareglu EES-samningsins forgang
18 Sjá Óttar Pálsson: „Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli Erlu Maríu Sveinbjömsdóttur
gegn íslenska ríkinu - Meginregla um skaðabótaábyrgð". Tímarit lögfræðinga. 1999, bls. 119, en
þar er tekið fram að EFTA-dómstóllinn virðist með ummælum sínum í 63. lið hafa farið út fyrir þau
valdmörk sem honum eru sett f 1. mgr. 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlits-
stofnunar og dómstóls.
210