Tímarit lögfræðinga - 01.10.1999, Blaðsíða 95
tækjakost, fjármagn, sérþekkingu eða nokkuð annað það sem I. ehf. var fengur í, varð
ekki annað séð en að sameignarfélagið hafi verið algerlega óþarfur milliliður í vöru-
innflutningi I. ehf. Þegar viðskipti fyrirtækjanna voru þannig skoðuð í heild þótti
ekki leika nokkur vafi á að þau voru verulega frábrugðin því sem almennt gerðist í
slíkum innflutningsviðskiptum. Dóminum þótti liggja ljóst fyrir að til slíkra
viðskipta hefði ekki komið nema vegna þess að þau fyrirtæki sem hlut áttu að máli
voru að mestu í eigu sömu manna og því um skattaðila að ræða sem óumdeilanlega
tengdust fjárhagslega. Þá þótti einnig ljóst að eini sýnilegi tilgangurinn með
viðskiptunum var að færa tekjur frá fyrirtæki sem greiða hefði þurft skatt af þeim til
félags sem gat nýtt yfirfæranlegan tapsfrádrátt.
Kröfum I. ehf. var því synjað og fjámám vegna skattahækkunar skattstjóra var stað-
fest. Ennfremur staðfesti héraðsdómur álag á vantalinn skattstofn.
Þessi úrskurður var ekki kærður til Hæstaréttar.
Hér má velta fyrir sér hvort dómstóllinn hefði komist að sömu niðurstöðu
væri 1. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981 ekki til staðar. Spyrja má hvort unnt hefði
verið að byggja niðurstöðu málsins á ólögfestri grunnreglu réttarins um að
skattlagning byggist á raunverulegum ráðstöfunum. Skattaðilar geti því ekki
krafist þess að skattlagning sé byggð á óvenjulegum samningum eða ráðstöf-
unum sem hafa engan rekstrarlegan tilgang og eru bersýnilega gerðir í þeim
eina tilgangi að komast hjá því að greiða skatt.
7.2 Úrskurðir ríkisskattanefndar og yflrskattanefndar þar sem byggt er
á 1. mgr. 58. gr. Iaga nr. 75/1981
Úrskurður yfirskattanefndar nr. 340/199664
TS var eignalaust hlutafélag og engin starfsemi hafði verið þar undanfarin ár en
félagið átti ónotað rekstrartap frá fyrri árum. Eigendur TK hf. keyptu félagið og hófu
að kaupa þjónustu af þeim. Þjónustan var veitt af starfsmanninum JM sem fyrir þann
tíma hafði starfað hjá TK hf. en flutti sig yfir til TS hf. í þá tvo mánuði sem viðskiptin
áttu sér stað og fór síðan til baka til TK hf. Kærandi dró enga dul á það að tilgangur
umræddra viðskipta milli félaganna hafi verið sá einn að nýta skattalegt hagræði og
lágmarka skattgreiðslur félaganna í heild, enda teldi hann það fullkomlega lögmætt
sjónarmið þar sem viðskiptin haft byggst á fullgildum samningum milli félaganna
sem á engan hátt hafi brotið í bága við lög og verðlagning viðskiptanna hafi verið í
samræmi við það sem almennt tíðkast í sambærilegum viðskiptum. Skattstjóri taldi
hins vegar að 1. mgr. 58. gr. ætti við og felldi niður gjaldfærslu allrar álagningar á
viðskiptunum þannig að einungis væri frádráttarbær raunverulegur launakostnaður
JM. Yfirskattanefnd taldi ekki ástæðu til að draga sérstaklega í efa að verðlagning
þjónustunnar hafi verið sambærileg við það sem almennt gerist í slíkum viðskiptum
og hefði skattstjóri ekki heldur gert það. Þá væri ekki heldur ástæða til að telja, eins
og skattstjóri hefði haldið fram, að viðskiptin væru til málamynda, enda hafi sú
þjónusta sem TS hf. innti af hendi verið í samræmi við tilgang þess félags eins og
64 Sambærilegt mál er að finna í úrskurði yfirskattanefndar nr. 1053/1997, ST 1997:228, og
úrskurðum nr. 461/1998, 1054/1998 og 101/1999.
247