Tímarit lögfræðinga - 01.10.2002, Blaðsíða 62
nálgast hana. Þá er eðlilegt að gera þá kröfu til slíkra auglýsinga að þar sé tekið
fram að þær einar og sér geti ekki verið grundvöllur að mati á verðbréfunum
heldur þurfi fjárfestar að kynna sér skráningarlýsinguna.48
Þá er sett sú regla í 4. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 434/1999 og 4. mgr. 29.
gr. reglna KI nr. 2 að öll önnur gögn, t.d. auglýsingar, bæklingar eða bréf, sem
útgefandi eða annar á hans vegum hefur gefið út vegna skráningarinnar, beri að
senda kauphöllinni. Þessi gögn verða með sama hætti og auglýsingar í dagblöð-
um að bera með sér hvar unnt sé að nálgast skráningarlýsinguna. Þá er tekið
fram í ákvæðinu að í þessum gögnum megi ekki felast neinn áróður eða hvatn-
ing til þess að almenningur kaupi verðbréf útgefandans. Með þessu ákvæði er
útgefendum settar þröngar skorður um kynningar á skráningu verðbréfa og eftir
atvikum útboði þeirra. Er þetta í samræmi við það meginsjónarmið að skrán-
ingarlýsingin, sem á að vera hlutlæg og uppfylla sérstakar kröfur, eigi að vera
nægjanlegur grundvöllur til að kynna verðbréfin. Ekki er heimilt að auglýsa
skráningu verðbréfa með þeim hætti sem almennt tíðkast með aðrar vörur, svo
sem notaða bíla eða megrunarkúra í sjónvarpsmarkaði. Markmiðið er að draga
ekki athygli frá skráningarlýsingunni með auglýsingum og kynningarefni.49 Af
þessu leiðir að útgefendur verða að fara varlega í óbeinum auglýsingum, svo
sem almennum auglýsingum um vörur eða þjónustu félags og blaðaviðtölum
urn útboðið og starfsemi félagins að öðru leyti. Ef í slíkum gögnum felst hvatn-
ing til almennings um að kaupa verðbréf væri það brot á reglunum.
11. GAGNKVÆM VIÐURKENNING SKRÁNINGARLÝSINGA
Samkvæmt 22. gr. skráningarreglugerðar nr. 434/1999 er kauphöllum heim-
ilt að viðurkenna skráningarlýsingar sem samþykktar hafa verið af lögbærum
yfirvöldum á Evrópska efnahagssvæðinu. Skilyrði þessa er að samþykkt skrán-
ingarlýsingarinnar hjá hinni erlendu kauphöll sé ekki eldri en þriggja mánaða.
I 38. gr. kauphallatilskipunar nr. 2001/34/EC er mælt fyrir um skyldu aðildar-
ríkja til þess að viðurkenna skráningarlýsingar sem lögbær yfirvöld í öðrum
aðildarríkjum hafa samþykkt. Orðalag 22. gr. reglugerðarinnar gengur of skammt
þar sem hún mælir einungis fyrir um heimild til viðurkenningar en ekki skyldu.
Er þetta brot á skyldum íslenska ríkisins samkvæmt ákvæðunt EES-samnings-
ins um að innleiða efni tilskipananna á þessu sviði, sbr. lög nr. 2/1993, sbr. og
7. gr. Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
48 Sjá Erik Werlauff: B0rs- og kapitalmarkedsret, bls. 179.
49 Til upplýsingar má geta þess hér að í bandarískum rétti er lögð rík áhersla á að félög sem eru að
undirbúa skráningu stundi ekki óbeinar auglýsingar á útboðinu með fréttatilkynningum eða
viðtölum. Mismunandi reglur gilda um heimildir bandarískra félaga til að veita upplýsingar eftir
því hvenær á skráningarferlinu upplýsingar eru veittar. Reglumar flokkast eftir tímabilum í „pre-
filing period", „waiting period" og „post effective period". Megináherslan er á að skriflegar upplýs-
ingar um tilboð um sölu á hlutafé séu ekki veittar nema í formi skráningarlýsingar. Nánari útlistun
á þeim reglum sem gilda á mismunandi tímabilum er finna hjá Hazcn: The Law of Securities
Regulation, bls. 78-106.
256