Tímarit lögfræðinga - 01.10.2002, Síða 96
embættið og undir yfirumsjá þess.10 Meginhlutverk þessarar stofnunar hefur
verið og er enn að skipuleggja og samræma allt hið mikla og flókna starf við
samningu einkaréttarlögbókarinnar og undirbúa lögtöku hennar stig af stigi,
eins og brátt verður nánar vikið að. Jafnframt er sérstakur skóli (akademía fyrir
lögfræðinga í framhaldsnámi), er tengist þessum nýju einkaréttarfræðum,
rekinn í nánum tengslum við stofnunina. Hefur stofnunin á að skipa allmörgum
sérfræðingum í fullu starfi, sem sinna þeim verkefnum, er hér voru nefnd, en
við lögbókarstarfið og skyld verkefni, þ. á m. kennsluna, hefur þó í mjög rfkum
mæli verið stuðst við vinnuframlag allmargra kunnra fræðimanna í lögum, ekki
síst háskólaprófessora (t.d. frá ríkisháskólunum í Moskvu og St. Pétursborg),
sem samið hafa drög að köflum bókarinnar, er tengjast sérsviðum þeirra, en
jafnframt hefur verið kallað eftir ráðgjöf ýmissa annarra fagmanna svo sem
hagfræðinga. Hefur umrædd stofnun síðan leitt samstarf þessara manna, skipu-
lagt sameiginlega fundi þeirra allra eða færri í einu, yfirfarið drög þeirra að
einstökum ákvæðum og köflum, kallað eftir viðbrögðum eða gagnrýni annarra
fræðimanna - og séð um samskiptin við erlenda fræðimenn, sem komið hafa að
verkinu í ráðgjafarhlutverki.
Allt frá vori 1992 hefur starfað sérstök lögbókamefnd undir forystu yfir-
manns fyrmefndrar stofnunar, og er hún ekki einvörðungu skipuð löglærðum
mönnum heldur einnig fulltrúum annarra faglegra sérsviða og vissra greina
atvinnulífsins.
Vert er að geta þess sérstaklega, að frá upphafi lögbókarstarfsins hefur verið
lögð áhersla á gott og virkt samstarf við ýmsa lögvísindamenn frá Vesturlönd-
um, einkum frá Vestur-Evrópu, en einnig frá Bandaríkjunum og Kanada. Lög-
bókamefndin, sem áður var getið um, fór, ásamt starfsmönnum sínum, all-
margar kynnis- og viðræðuferðir til Þýskalands, Italíu, Kanada (fyrst og fremst
til Quebec, þar sem byggt er á lögbókarhefð í frönskum anda og ný og vönduð
lögbók tók gildi fyrir nokkrum árum) og einnig Bandaríkjanna. Sýndu margir
fræðimenn frá þessum löndum frá upphafi þessu lögbókarverki í Rússlandi
mikinn áhuga og veittu drjúga sérfræði- og ráðgjafaraðstoð í því sambandi.
Fyrir allnokkrum árum var t.d. komið á mjög virkum tengslum milli rússnesku
rannsóknarstofnunarinnar í einkamálarétti annars vegar og sérstakrar fræði-
stofnunar innan lagadeildar McGill-háskólans í Montreal í Quebec hins vegar,
en sá háskóli hefur m.a. beitt sér mjög fyrir rannsóknum á sviði samanburðar-
10 í maímánuði 2002 heimsótti greinarhöfundur þessa stofnun og ræddi þar við yfirmenn um
starfsemi hennar og samningarferil borgaralögbókarinnar nýju, einkum dr. Alexey N. Zhiltsov og
dr. Oksana M. Kozyr, sem bæði hafa tekið virkan þátt í samningu tiltekinna kafla lögbókarinnar auk
hvers kyns stjómunarstarfa á því sviði. I sömu kynnisferð til Rússlands átti höfundur þess einnig
kost að fræðast um lögbókarstarfið og um mörg önnur atriði, er varða rússneskan rétt og
lagakennslu, með viðtölum við prófessor Evgyeni A. Sukhanov, forseta lagadeildar ríkisháskólans
í Moskvu, sem er mjög kunnur og áhrifamikill lögvísindamaður, og prófessor Aiexander P-
Sergeev, forstöðumann einkamálaréttarskorar lagadeildar ríkisháskólans í St. Pétursborg, en báðir
hafa þeir tekið virkan þátt í lögbókarstarfinu, hinn fyrmefndi allt frá upphafi, og samið mikilvæga
kafla bókarinnar. Þá var og rætt við ýmsa aðra lagakennara í St. Pétursborg.
290