Tímarit lögfræðinga - 01.11.2003, Page 24
nefna að hafi gestur á veitingahúsi pantað nautasteik, en vilji hana síðan ekki af
því að framreiðslan tekur of langan tíma, má vera að hægt sé að bjóða steikina
einhverjum öðrum, en sá möguleiki er að sjálfsögðu að verulegu leyti háður því
hversu margir aðrir gestir eru á staðnum sem ekki hafa fengið afgreiðslu. Einnig
má nefna kaup á gleraugum. Lítill vandi er að setja annað gler í umgjörð en
aftur á móti er glerið sjálft mjög oft sérstaklega hannað fyrir kaupandann. Af
þeim sökum hefur seljandinn aðeins mjög takmarkaða möguleika á að ráðstafa
því.
Annað sérstakt skilyrði riftunar af hálfu kaupanda í pöntunarkaupum er að
tilgangur hans með kaupunum raskist verulega vegna greiðsludráttarins. Það
nægir því ekki að greiðsludráttur sé verulegur eða valdi kostnaði og óþægind-
um ef því skilyrði er engu síður ekki fullnægt að tilgangur kaupanna raskist
verulega.
Akvæði greinarinnar eiga þá fyrst við þegar gerð hlutar hefur hafist að marki
eða seljandinn hefur gert svipaðar ráðstafanir til undirbúnings efndum. Ef selj-
andinn hefur á hinn bóginn hvorki lagt í umtalsverða vinnu né kostnað, sem
ónýtist við riftun, er ekki ástæða til þess að takmarka riftunarrétt kaupanda. Þótt
ekki leiði þetta beinlínis af orðalaginu er til þessara atriða að líta við beitingu
ákvæðisins.
2.7 Hlutur afhentur of seint - Frestur kaupanda til að krefjast riftunar
Ef hlutur er afhentur of seint getur kaupandi ekki rift kaupum nema hann
tilkynni það seljanda innan sanngjams tíma frá því að hann fékk vitneskju um
afhendinguna, sbr. 29. gr. kpl.29 Sambærilegt ákvæði er í 2. málsl. 1. mgr. 23.
gr. neyt.kpl.
Segja má að regla 29. gr. kpl. sé ekki eins ströng og regla eldri laga því að kaupand-
inn þarf ekki að senda hlutlausa tilkynningu vegna greiðsludráttar (um galla gilda
aðrar tilkynningarreglur, sbr. 32. gr. laganna). Við setningu nýrra kpl. þótti ekki
ástæða til þess að krefjast sérstakrar tilkynningar vegna kröfu um skaðabætur þegar
söluhlutur er afhentur of seint. Seljandanum er í flestum tilvikum ljós greiðsludráttur
og hann getur því alltaf búist við skaðabótakröfum af því tilefni. Riftun er á hinn
bóginn svo afdrifaríkt úrræði að ekki er óeðlilegt að krefjast þess að kaupandinn
skýri frá því innan sanngjams tíma ef hann ætlar að neyta þess úrræðis. Þá verður
einnig að hafa í huga að tilkynningarfresturinn er ekki eins strangur og þegar um
hlutlausa tilkynningu er að ræða samkvæmt eldra rétti.
29 Ákvæðið svarar til a-liðar 2. mgr. 49. gr. Sþ-sáttmálans. í 27. gr. eldri kaupalaga kom fram sú
regla að kaupandi varð að skýra frá því að hann ætlaði að bera fyrir sig greiðsludrátt (hlutlaus
tilkynning), ef í ljós kom að söluhlutur hafði verið afhentur of seint. I verslunarkaupum varð að
tilkynna slíkt þegar í stað en ella án ástæðulauss dráttar. Ætlaði kaupandinn að rifta kaupum varð
hann að skýra sérstaklega frá því án óþarfrar tafar, ella missti hann þann rétt. Á hinn bóginn var
ekki þörf sérstakrar tilkynningar þegar um aðrar kröfur var að ræða.
234