Saga - 1987, Síða 9
Björn Þorsteinsson
20. marz 1918 - 6. október 1986
I
Dr. Björn Þorsteinsson, prófessor, lézt í Reykjavík 6. október 1986 eft-
ir þungbær veikindi um rúmlega tveggja ára skeið.
Björn gegndi störfum forseta Sögufélags í 12 Vi ár, frá september
1965 til marzloka 1978. Hann var einnig ritstjóri Sögu á árunum 1960-
72.
Fyrir hönd Sögufélags vil ég minnast hér á þessum vettvangi Sögu
hins mæta forystumanns félagsins, um leið og tjáðar eru hugheilar
þakkir fyrir mikil störf hans í þágu þess, sem einlægt voru unnin af
ríkum áhuga, atorku og ósérplægni.
Við andlát Björns Þorsteinssonar sækja á hugann minningar frá
fjögurra áratuga kynnum, - allt frá haustinu 1945, er hann varð kenn-
ari minn í íslenzku í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga (Ágústarskóla), og
tveimur árum síðar sögukennari í sama skóla. Þessi kynni urðu því
nánari sem tímar liðu, og um langt skeið átti ég við hann nánari sam-
vinnu en flesta aðra menn. Við sátum saman í stjórn Sögufélags, vor-
um sögukennarar í Menntaskólanum við Hamrahlíð, unnum að
samningu íslandssögu í Alfræði Menningarsjóðs, og ég aðstoðaði hann
við útgáfu eigin bóka. Þetta samstarf leiddi til tíðra samfunda, bæði í
önn dagsins og á gleðistundum, og ég minnist þess einlægt með
miklli ánægju, en jafnframt söknuði, þegar Björn er fallinn frá um ald-
ur fram. Ég minnist þessa góða vinar míns sem hins lífsglaða, örgeðja
og dálítið óþolinmóða eldhuga, sem alltaf var frjór af hugmyndum,
ákafur að koma þeim á framfæri og gera að veruleika. Það var einkar
skemmtilegt og hressandi að fá hann gustmikinn óvænt inn úr dyrun-
um í því skyni að eiga spjall yfir kaffibolla og vindli, heyra hann af
eldmóði reifa hugmyndir sínar, framtíðarsýnir og áætlanir um fram-
gang íslenzkra sögurannsókna og útgáfu sögurita. Það er skarð fyrir
skildi, þegar slíkir menn sem Björn Þorsteinsson falla í valinn, áður
en dagsverki er að fullu lokið. Sagan hefur misst einn sinn fremsta
liðsmann á íslandi.