Saga - 1987, Qupperneq 11
BJÖRN ÞORSTEINSSON
9
ræðu og riti. Lokaritgerð hans fjallaði um „konungseignir í Rangár-
þingi fyrir siðaskipti".
Samhliða háskólanámi stundaði Björn kennslu, fyrst sem stunda-
kennari í Iðnskólanum í Reykjavík (1942-45) og síðan í Gagnfræða-
skóla Reykvíkinga frá 1943, en varð fastur kennari þar 1947. Gagn-
fræðaskóli Reykvíkinga, stofnaður 1928, var til ársins 1948 e.k. annar
menntaskóli í Reykjavík, og var kennt allt upp í fjórða bekk mennta-
skólanáms, þar sem innganga nemenda í Menntaskólann í Reykjavík
var takmörkuð. Stóðu til þess vonir um skeið, að þessi skóli yrði form-
lega gerður að öðrum menntaskóla í Reykjavík, en skammsýni réð
því, að svo varð ekki, þótt öll efni stæðu til, og var hann látinn falla
inn í skólakerfið skv. fræðslulögunum frá 1946 sem gagnfræðaskóli
(Vesturbæjar).
í þessum skóla kenndi Björn við góðan orðstír íslenzku og sögu,
og ég hygg að honum hafi líkað þar vistin einstaklega vel, ekki sízt
lengi framan af. Par var þá samvalið kennaralið hinna ágætustu
manna, sem hver framhaldsskóli mátti telja sig fullsæmdan af, enda
fór fjöldi nemenda þaðan síðar inn í Menntaskólann og stóð sig yfir-
leitt með prýði. Björn féll vel inn í þennan kennarahóp, sem var sam-
stæð heild og gagnkvæm vinátta í milli. Hér voru frábærir tungu-
málakennarar, eins og Björn Bjarnason í ensku, Bína Kristjánsson í
dönsku, sögukennarar, auk Björns, eins og skólastjórinn Knútur
Arngrímsson og Sverrir Kristjánsson, Guðni Jónsson í íslenzku,
Steinþór Guðmundsson í stærðfræði, listmálarinn Jóhann Briem í
teikningu o.fl. Parf raunar ekki frekar vitnanna við til að sjá hvílíkt
mannval var á ferðinni, og því vel fyrir námi þeirra unglinga séð, sem
gengu þessa menntabraut. Ég minnist þeirra allra með hlýhug og
þakklæti. Mér er Björn Þorsteinsson einlægt minnisstæður frá þeim
degi, er hann kom fyrst í bekkinn okkar á haustdögum 1945, en þá
var skólinn nýfluttur í gamla Stýrimannaskólahúsið við Öldugötu.
Hann var góður kennari, áhugasamur, örgeðja og kvikur á fæti, -
eðlisþættir, sem alla tíð einkenndu Björn Þorsteinsson. Tveimur
árum síðar varð hann kennari minn í íslandssögu, kenndi hina kjarn-
miklu bók Arnórs Sigurjónssonar (sem var sögð samin fyrir gáfaða
Þingeyinga!), og greinilegt var, að hinn ungi kennari var í essinu
sínu, er hann kenndi þá grein, sem hann hafði nýlokið prófi í við
Háskólann.