Saga - 1987, Page 16
14
EINAR LAXNESS
til dáða í þágu Sögufélags, og honum tókst að laða til samstarfs fólk úr
ýmsum áttum í þessu skyni. Björn lét af störfum fyrir félagið í marz-
lok 1978, en hann fylgdist áfram með starfseminni af áhuga og hafði
reglulegt samband við afgreiðslu þess, svo og undirritaðan, sem tók
við forsetastarfi eftir hann, og gladdist með okkur yfir framgangi
félagsins. Síðustu samskipti Björns og Sögufélags voru í ágúst á s.l.
ári, þegar við undirrituðum samning um útgáfu vandaðrar Islands-
sögu, frá upphafi til okkar tíma, sem hann er aðalhöfundur að. For-
ystustarf hans í Sögufélagi um rúmlega 12 ára skeið mun ávallt verða
talið eftirminnilegur þáttur á löngum ferli þessa gamla fræðafélags.
Sumarið 1965 urðum við Björn samstarfsmenn hjá Bókaútgáfu
Menningarsjóðs við samningu uppflettirits í íslandssögu í Alfræði
Mennitigarsjóðs, sem var þá undir ritstjórn Árna Böðvarssonar. Pví
miður féll verkið niður um sinn, er það var komið á nokkurn rekspöl.
Það kom í minn hlut nokkrum árum síðar að halda því áfram til loka,
og hvatti Björn mig á alla lund til þess, og veitti mér mikilsverðan
stuðning, sem auðveldaði verkið.
Haustið 1966 var Björn Þorsteinsson skipaður sögukennari í hinum
nýstofnaða menntaskóla, sem þá var að rísa upp við Hamrahlíð; þar
starfaði hann næstu árin, eða til ársins 1972, síðasta árið sem stunda-
kennari. Við vorum þar samkennarar þessi ár og það var ánægjulegur
tími. Björn var einstaklega áhugasamur og Iifandi kennari, ekki síður
en hann hafði verið forðum, þegar ég sat hjá honum á skólabekk;
hann hafði örvandi áhrif á nemendur sína, hvatti þá óspart til dáða
með miklum árangri, vann stöðugt að endurnýjun kennslunnar,
leysti úr tilfinnanlegum kennslubókaskorti með frumsamningu og
þýðingu slíkra rita, þ.á m. almennrar miðaldasögu (í samvinnu við
Arngrím ísberg). í félagslífi kennara var Björn hrókur alls fagnaðar,
bráðskemmtilegur og góður félagi, sem gott var að samneyta í leik og
starfi. Það var sannarlega eftirsjá að honum frá M.H., þegar hann
hvarf þaðan til kennslustarfa í Háskóla íslands.
Undir lok ferils síns í M.H. hafði Björn frumkvæði um það, að
sögukennarar og aðrir sagnfræðingar stofnuðu Sagnfræðingafélag til
að hafa sameiginlegan vettvang að starfa á, en ekkert slíkt félag hafði
verið til síðan snemma á 6. áratugnum. Tók Björn að sér formennsku
félagsins fyrsta árið, 1971-72, en var þar ávallt síðan virkur félags-
maður, og frá fyrstu tíð hefur starfsemin verið allblómleg sem kunn-
ugt er.