Saga - 1987, Page 23
21
JÓN THOR HARALDSSON
Lúther í íslenzkri sagnfræði
Þessari grein, sem að stofni til er fyrirlestur haldinn á Lúthersstefnu 1983, er
einkum ætlað að svara tveimur spurningum: Hefur Lúther á einhvern hátt
goldið þess, með hverjum hætti siðaskiptin bar að á íslandi? Og í öðru lagi:
Er unnt að greina einhvers konar þróun í viðhorfum íslendinga til Lúthers
þann tíma, sem liðinn er frá dauða hans 1546?
Verkefnið verður þá að fikra sig áfram eftir heimildum og helzt í nokkurn
veginn réttri tímaröð. Það verður stiklað á stóru, og vafalítið saknar hér ein-
hver einhvers; hjá því verður vart komizt.
Þess er skylt að geta, að enda þótt meira hafi verið um Lúther skrifað
á íslenzku en ég hafði fyrirfram ætlað, er þó býsna margt af því meira
í ætt við sagnaritun en sagnfræði, og þarf enda ítrustu velvild til að
flokka undir sagnfræði sumt af því, sem hér verður talið af þeim toga
spunnið.
Ég held mig svo til eingöngu við prentaðar heimildir. Svo að dæmi
sé tekið, hefi ég ekki náð að brjótast í gegnum þriggja binda handrit
séra Þorsteins á Hrafnagili, sem geymt er á Landsbókasafni og hefur
inni að halda ævisögu Lúthers. Ég hefi heldur ekki nema rétt litið á
„rímur" af Lúther, eða ævisögu Lúthers í ljóðum, eins og flokkarnir
sex eru líka nefndir í handritaskrá.
Af íslenzkum heimildum um siðaskiptin hér á landi eru þrjár merk-
astar og raunar þær einu, sem eru í einhverri marktækri nánd við
atburðina. Þetta eru Biskupa-annálar séra Jóns Egilssonar, siðaskipta-
ntgerð Odds biskups Einarssonar og siðaskiptaritgerð Jóns Gizurar-
sonar. Við þetta má þó bæta því, að ritgerð Jóns Gizurarsonar er að
sögn Páls Eggerts að meginefni „einungis uppskrift" á ritgerð Odds
biskups (íslenzkar æviskrár, bd. 3, bls. 119).
Því er skemmst frá að segja, að í þessum ritum þremur er Lúthers
að engu getið svo að teljandi sé. Það hefur ekki þótt taka því að hafa
nafn hans með í nafnaskrá fyrsta bindis af Safni til sögu íslands, þar
sem prentaðir eru Biskupa-annálar séra Jóns Egilssonar. í þeim er þess
þó getið við árið 1517, að "...þá hóf Lutherus sína prédikun..." og