Saga - 1987, Page 34
32
JÓN THOR HARALDSSON
Jón ræðir þetta ekkert frekar, en hér kann að vera í fyrsta sinn á
prenti á íslenzku ýjað að því, sem lengi var haft fyrir satt, en sumir
vilja þó eindregið mótmæla, að til æskuára Lúthers sé að rekja þann
„erastianismus", þá þjónslund gagnvart ríkisvaldinu, sem honum er
jafnan eignuð.
Lúther er hetja í augum Jóns Árnasonar, sem þó dregur enga dul á,
að einstaka flekkur kunni að hafa fallið á siðaskiptaskjöldinn í Witten-
berg. Hann tilfærir ummæli Melanchthons rituð nokkru eftir dauða
Lúthers:
Þó Lúther væri mannkostamaður mikill, var hann þó ákaf-
lyndur og uppstökkur. Jeg varð opt að hlýða honum, eins og
jeg væri þjónn hans, af því hann fór á stundum minna að virð-
ingu sjálfs sín og almennings hag, en ákaflyndi sínu. Ekki var
honum heldur mikið um það gefið, ef menn voru ekki sam-
dóma skoðun hans (op.cit., bls. 46).
Jón Árnason fjallar allítarlega um „Bændastríðið mikla" í Þýzka-
landi 1525. Árni Helgason hafði rétt drepið á þá atburði alla og þá
nánast frá ómenguðu yfirstéttarsjónarmiði. Svipaða sögu er að segja
af Jóni Árnasyni, enda þótt myndin sé þar ekki útaf eins einföldum
dráttum dregin og hjá „biskupnum í Görðum". Það væri efni í aðra
ritgerð og verður ekki freistað hér að rekja álit og umfjöllun íslenzkra
sagnfræðinga á þessum æviþætti Lúthers. En það er athyglisvert, að
Jón hefur einhverja nasasjón af sósíalisma hér norður í Dumbshafi.
Honum sárnar hvað mest, að „siðabótinni" skyldi kennt um bænda-
uppreisnina (op.cit., bls. 71). Hann segir svo um Tómas Miintzer:
„Mest efldist flokkur hans við það, að hann kenndi alþýðu sam-
eignarkenningar" (op.cit., bls. 69). Og svo aftur litlu síðar: „Nú hættu
líka hinir snauðu að vinna, en kröfðust allra nauðsynja sinna af ríkis-
mönnunum og ef ekki lá allt laust fyrir, sem þeir heimtuðu, beittu
þeir ofbeldi; því sá er siður sameignarmanna".
Það sést raunar, að stjarna Lúthers hefur skinið býsna skært á ís-
landi um og eftir miðja síðustu öld. Jón Árnason kveðst í bréfi hafa
fengið um 50 dali fyrir Lútherssögu, sem þá hafa verið prýðisgóð rit-
laun, en virðist lítið sem ekkert hafa fengið greitt fyrir Karlamagnúsar-
sögu, sem hann gaf út ári síðar (Jón Árnason 1950, bls. 13). Nokkru
seinna var á íslandi reynd fjársöfnun til stuðnings Jóni Sigurðssyni,
„þegar Jóni reið allramest á", eins og Lúðvík Kristjánsson hefur orðað
það. Þá söfnuðust aðeins 47 ríkisdalir og 76 skildingar, en ákalli