Saga - 1987, Side 42
40
JÓN THOR HARALDSSON
Eftir þennan inngang kemur svo allítarleg ævisaga Lúthers Qón
Helgason 1917 (Almenn kristnisaga bls. 186-302)). Því er skemmst frá
að segja, að dr. Jón sér vart blett eða hrukku á „samvizkuhetju" sinni,
en svo nefnist útvarpserindi, sem hann flutti 1934 á hálfrar fimmtu
aldar afmæli Lúthers. Jón færir allt til betri vegar. Þetta gengur svo
langt, að hann kennir það kaþólskum sið, þegar Lúther lét hafa sig til
þess að samþykkja sögufrægt tvíkvæni Filipusar frá Hessen. Hann
kemst svo að orði: „Yfir höfuð má segja, að hin katólska fortíð Lúthers
hafi átt mikla sök á þessari yfirsjón hans. Hann hafði ekki enn losað af
sér allar viðjar katólskunnar" (Jón Helgason 1917 Almenn kristnisaga
III. bd„ bls. 296).
Um Almennu kristnisögu Jóns Helgasonar er það annars að segja, að
hún er sönn fróðleiksnáma og að því leyti hin þarfasta bók. Jón segir
að sjálfsögðu frá Bændastríðinu mikla í Þýzkalandi; í þeirri frásögn
standa tvær setningar, sem kannski lýsa biskupi betur en margt
annað: „Bændauppreisnin fékk alt aðrar afleiðingar en menn höfðu
gert sér vonir um. í stað þess að ávinna bændum samúð hinna æðri
stétta, varð hún miklu fremur til að vekja óvild þeirra og tortrygni,
sem þeir bjuggu að öldum saman" (op.cit., bls. 241).
Okkur, sem vön erum að skoða söguna ef ekki að öllu þá altjent
einhverju leyti í ljósi stétta og stéttabaráttu, þykja víst þessi orð dr.
Jóns Helgasonar undur barnaleg. En slíkur hygg ég, að biskup hafi
sjálfur að sumu leyti verið. Það er undureinlægur trúmaður, sem talar
til lesandans á nær hverri síðu sögurita hans; veraldarmaður er það
altjent ekki. Þetta kann að skýra allt að því barnslega aðdáun biskups
á siðaskiptafrömuðinum. Hann talar á einum stað (Jón Helgason
1934, bls. 2) um „risamensku" Lúthers. Ég hefi sjálfur skrifað á þá
leið, að Lúther sé „andlegt stórveldi"; kannski er það ekki hótinu bet-
ur að orði komizt.
Áður en hefst lokakafli þessarar ritgerðar er skylt að geta þess, að
einn kaþólskur maður íslenzkur hefur lítillega fjallað um Lúther, það
er Guðbrandur Jónsson í riti sínu um Jón biskup Arason. Guðbrand-
ur leggur áherzlu á það, að Lúther hafi nánast hrakizt frá siðbót út i
siðabyltingu, eins og hann orðar það. Hann undirstrikar þjónslund
hinnar evangelísku kirkju við veraldleg yfirvöld gagnstætt þeirri
kaþólsku, sem ætíð haldi "...valdi og sjálfstjórn sinni óskertri gagn-
vart ríkinu..." (Guðbrandur Jónsson 1950, bls. 139). Hvort tveggja er
þetta eins og við er að búast frá kaþólskum manni.