Saga - 1987, Síða 76
74
LOFTUR GUTTORMSSON
Og þar nockrer kvörtudu yfer því, ad þeir hefdu ei þad rietta
Formular Schema hvar efter edur hvornen þetta SálnaRegistur
ætte ad inriettast, þá sendest þad hier med efter Húsvitiunar
Forordn: 21.Art. sem fylger.1
Samhljóða grein er í umburðarbréfi sem biskup undirritaði sam-
dægurs til presta í Dalasýslu sem hann hafði einnig vitjað þetta sama
sumar (1758); og á næstu árum barst fyrirmyndin („Formular
Schema") með umburðarbréfum vítt um stiftið í kjölfar yfirreiða hins
ferðadrjúga biskups.2 Par með gátu prestar ekki lengur borið því við
sér til afbötunar að þá skorti fyrirmynd að því hvernig gera ætti sókn-
armannaskrá úr garði. Þannig á ekki við sálnaregistur í Skálholtsstifti
það sem Hannes Finnsson sagði í bréfi til kansellísins árið 1786 að
engin regla hafi verið til fyrir því hvernig kirkjubækur skyldu færðar.3
Um árangur af leiðbeiningum Finns biskups - bæði þeim sem hann
veitti á yfirreiðum sínum og í umburðarbréfum - er nú óhægt að
dæma. Þó má ætla, þegar upplýsingar vísitasíuskýrslnanna eru born-
ar saman við hin elstu varðveittu sálnaregistur, að viðleitni hans hafi
borið töluverðan ávöxt. Hér skulu tilfærð þrjú dæmi um þetta, eitt
sótt til Mosfells í Grímsnesi, annað til Hvalsness á Reykjanesi og hið
þriðja til Tröllatungu á Ströndum.
Sálnaregistur það sem Finnur biskup fyrirfann að Mosfelli, þegar
hann vitjaði staðarins í ágúst 1756, var „allerslettest [innréttað af öll-
um kirkjubókum staðarins], thi det var saa got som intet, hvor om
Præsten blev erindret til Forbedring."4 Hér átti í hlut Gísli Andrésson
sem þjónaði kallinu á árunum 1753-1762. Sálnaregistur Mosfells-
prestakalls, sem varðveitt er frá 17565, vottar að sr. Gísli hefur tekið
sig alvarlega á við átölur yfirboðarans: registrið er lagað nokkurn veg-
inn eftir settum reglum.
Þegar Ólafur biskup var á yfirreið um Kjalarnesprófastsdæmi 1751,
1 Þjskjs. Bps. AIV, nr. 33 (1756-1795): Umburðarbréf F.J. til prófasts og presta í Kjalar-
nesþingi, 25/11 1758.
2 Nánar tiltekið til Snæfellsnessýslu 1760 (yfirreið 1759), Barðastrandarsýslu og Isa-
fjarðarsýslu 1762 (yfirreið 1761), Árnessýslu 1762 (yfirreið s.á.) o.s.frv.
3 Hallgrímur Hallgrímsson: Tilv.gr., 167.
4 Varðandi tilvísun, sjá t.2, Heimildir.
5 f Preslsþjónustubækur og sóknarmannatöl (1953), 32, er registrið ranglega talið hefjast
1754, sama ár og prestsþjónustubókin. Þegar aldursmerkingar einstaklinga við
upphafsár skrárinnar eru bomar saman við þær sem gefnar eru hin eftirfarandi ár,
sést að þessi tímasetning stenst ekki.