Saga - 1987, Síða 142
140
KJARTAN ÓLAFSSON
Um valdmörk milli innlendrar lögreglustjórnar og yfirforingja
frönsku herskipanna segir Walewski m.a.:
Yfirforinginn yfir hinum frakknesku herskipum ætti aleinn að
hafa rétt til að viðhalda aga, reglu og siðsemi á meðal fiskveiði-
mannanna... og að skera úr öllum þrætum, er rísa kynnu á
millum hinna frakknesku fiskimanna sjálfra. í stuttu máli, allt
það, er snertir fiskiveiðar landa vorra, ætti með öllu að liggja
undir úrlausn hins frakkneska herskipaforingja, er þar væri...
Hin íslensku yfirvöld ættu aftur á móti að hafa óskertan rétt til
að hegna fyrir sérhvert afbrigði gegn lögum landsins, er Frakk-
ar kynnu að gera sig seka í á landi.
Að þessum skýringum gefnum leggur Walewski áherslu á, að
danskir íslandskaupmenn þurfi ekki að óttast verslunarsamkeppni af
hálfu Frakka. Frönsku skúturnar, er til íslands fari, verði sem áður
hlaðnar salti, vistum og öðrum nauðsynjum og geti því engan sölu-
varning flutt. Ráðherrann bendir hins vegar á, að hagnaður danskra
kaupmanna á íslandi gæti aukist af viðskiptum við Frakka „að því
skapi sem fiskiþurrkun vor efldist og ykist".
Undir lok síns langa bréfs tekur franski utanríkisráðherrann fram,
að frönsku útgerðarmennirnir muni sjálfsagt ráða einhverja íslend-
inga til starfa við fiskþurrkun og umsjón, en „af því er auðsætt, að
leiða hlyti hagnað og vellíðan Islendinga", segir þar. Síðustu orð
bréfsins eru þau, að bréfritari leyfi sér að vona, að danska stjórnin sjái
sér fært að ganga að þeim kostum, sem franska sendiherranum í
Kaupmannahöfn hafi verið veitt heimild til að semja upp á.
Pó að bréf Walewskis sé langt og mikið, vekur athygli, að hann
skýtur sér undan að svara sumum spurningum danska utanríkisráð-
herrans (sjá um spurningarnar ritgerð mína í Sögu 1986, bls. 165.
K.Ó.). Til dæmis svarar Walewski í raun engu um væntanlegt
umfang þeirrar starfsemi, sem Frakkar hugðust koma á fót í Dýrafirði
- ekkert um fjölda fiskiskipa né um fjölda þeirra manna, sem ætlað
var að starfa í landi. Engu að síður hefur dönsku ríkisstjórninni verið
ljóst, er hún hafði kynnt sér efni bréfsins frá París, að miklu lengur
gæti hún ekki með góðu móti látið málið dankast.