Saga - 1987, Blaðsíða 158
156
KJARTAN ÓLAFSSON
fluttar væru yfir þrjátíu ræður um málið á alþingi, tók Jón Sigurðsson
forseti aldrei til máls. Ekki hefur þögn hans þó stafað af áhugaleysi,
fjarri fer því. Jafnvel þó engar heimildir væru fyrirliggjandi, nema
þau bréf Jóns Guðmundssonar ritstjóra, sem vitnað hefur verið til
bæði hér og í ritgerð minni í Sögu á síðasta ári, þá nægðu þau til að
sýna hvílíkt kappsmál það var Jóni Sigurðssyni að halda opnum leið-
um til samninga við Frakka.
Pingmaður ísfirðinga gat því ekki talað fyrir þeim sjónarmiðum,
sem fram komu í bænarskrá ísfirðinga og það þó bænarskráin væri
undirrituð af nær áttfalt fleiri íbúum kjördæmis hans en kosið höfðu
fulltrúa á þjóðfundinn 1851. Hann átti heldur ekki hægt með að tala á
alþingi eins og honum bjó í brjósti, gegn þessum sjónarmiðum ísfirð-
inga. Meðal kjósenda vestra hefðu slík orð komið víða við opna
kviku. Jóni Sigurðssyni brugðust sjaldan hyggindi, hann kaus að
þegja og bíða lags. Afgreiðslu Dýrafjarðarmálsins á alþingi réð hann
samt, a.m.k. í meginatriðum. Það sýnir niðurstaðan. Þar réð úrslitum
samkomulag, sem Jón hefur náð fyrir þing eða í þingbyrjun við Jón
Guðmundsson um vopnahlé þeirra í milli og um svo teygjanlega
álitsgerð, að báðir gætu þeir staðið að henni, þrátt fyrir gjörólík sjón-
armið. Jón Guðmundsson segir reyndar í bréfi til A.F. Kriegers, innan-
ríkisráðherra Dana, að afstaða sín hafi líklega haft úrslitaáhrif varð-
andi þá stefnu, sem nefndarálitið tók, og hvað varðaði sjálfa af-
greiðslu málsins á alþingi.1 Ætla má, að sú skilgreining Jóns Guð-
mundssonar sé rétt.
Hugmynd Jóns Sigurðssonar var aldrei sú að fá alþingi til að sam-
þykkja beiðni Frakka eins og hún lá fyrir, heldur einmitt að vísa
erindinu frá, að svo stöddu, en bjóða um leið upp á samninga, ef
Frakkar fengjust til að fallast á ákveðna skilmála. Sú varð líka niður-
staðan við afgreiðslu málsins á alþingi.
í því skyni að varpa skýrara ljósi á afstöðu Jóns Sigurðssonar for-
seta, skal næst vitnað í fáein bréf og önnur skrif frá hans hendi, er
varða Dýrafjarðarmálið.
Nokkrum vikum áður en alþingi kom saman sumarið 1857 skrifaði
Jón Sigurðsson vini sínum Gísla Hjálmarssyni, lækni á Brekku í
Fljótsdal. í bréfinu sagði Jón m.a.:
1 Lbs. 368 fol. Bréf Jóns Guðmundssonar 20.8. 1857 til A.F. Kriegers. (Mappa merkt
„óraðað dót viðvíkjandi utanríkisþjónustunni".)